16.01.1947
Sameinað þing: 23. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í D-deild Alþingistíðinda. (4984)

274. mál, millilandasiglingar strandferðaskipa

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins leiðrétta þann misskilning, sem fram kom hjá hv. þm. S-Þ. um það, að ég hefði verið með getsakir um erindi fólks þess, sem fór út með Esju í sumar, og ég hafi sagt, að það hafi verið eintómt lúxusfólk. Ég verð að segja það, að ég er stundum sammála hv. þm. N-M., en þetta voru óvart hans orð, en ekki mín.

Fyrir stríð var það jafnan svo, að gerðar voru áætlanir um ferðir skipanna fyrir hvert ár. Meðan á styrjöldinni stóð, komu þessar áætlanir ekki út af eðlilegum og skiljanlegum ástæðum, en ráð var fyrir því gert, að áætlanir þessar kæmu aftur út árlega að stríðinu loknu, en ekki hefur bólað á þeim ennþá, Einnig vil ég benda á það, að 40–50 þús. kr. tap hefur orðið á út- og uppskipun hér í Reykjavík hjá Ríkisskip. Á meðan ekki er hægt að laga þessa agnúa, þá sé ég ekki ástæðu til að fela forstjóra skipaútgerðar ríkisins meira verksvið og láta hann teygja angana allt til Miðjarðarhafs, og ég tel, að á meðan hann getur ekki ráðið bót á þessu, þá sé hann tæplega fær um að stjórna ábyrgu fyrirtæki. Til eru skjöl og ýmislegt annað, sem sýnir, að þörf er á að auka samgöngur við önnur lönd. Það er illt, að hæstv. samgmrh. skuli ekki vera hér viðstaddur, því að það er hann, sem ber ábyrgð á þessu. Ég vil ekki auka þessa starfrækslu, meðan hún ber sig ekki betur en hún gerir nú, og vil að síðustu spyrja um það, af því að nú er nýbyrjað ár, hvort ekki sé von á þessum áðurnefndu skipaáætlunum.