16.01.1947
Sameinað þing: 23. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í D-deild Alþingistíðinda. (4985)

274. mál, millilandasiglingar strandferðaskipa

Flm. (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Út af ræðu hv. þm. Barð. vildi ég segja örfá orð. Mér virðist hann fara hér algerlega villur vegar, og vildi ég gjarnan reyna að leiðrétta hann. Þessi till. mín er ekki viðkomandi skipaútgerðinni. Mér er furða á því. að maður, sem eins vel er að sér í útgerðarmálum og hv. þm. Barð., skuli vera svona illa að sér í þessu. Hvað viðvíkur tapinu á skipaútgerðinni, vildi ég minna á það, að til er félag hér, sem nefnist Dagsbrún, og ég hef hugmynd um, að því sé ekki alltaf jafnvel stjórnað og skyldi, og sömuleiðis veit ég um skipafélag, sem tapaði um 20 þús. kr. á rekstri. Auðvitað kemur hvorki þetta né það, sem hv. þm. Barð. sagði, þessu máli við. Það er tap á fleiri rekstri, og það svo hundruðum þúsunda króna skiptir. Það kemur allt af þeirri ástæðu, að vinnan er svo dýr. Mig furðar á því, að svo skarpur maður sem hv. þm. Barð. skuli hafa talað eins og hann hefur gert hér nú.