22.01.1947
Sameinað þing: 24. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í D-deild Alþingistíðinda. (4992)

275. mál, ljóskastarar á skipum

Flm. (Hermann Guðmundsson):

Herra forseti. Þessi þáltill. er flutt í samræmi við reynslu undanfarinna ára og mánaða, sem hefur sýnt svo rækilega, að þessum öryggisútbúnaði skipa er ábótavant. Það er viðurkennt fyrir löngu, að ljóskastari eða leitarljós er eitthvert brýnasta öryggistækið, sem skip eiga að hafa. Og þýðingin liggur í möguleikum þess til að finna menn eða hluti, sem tapast fyrir borð. Það þarf engin rök að þeirri þýðingu að leiða, t.d. gæti með þessum tækjum verið unnt að finna menn, er dyttu útbyrðis í náttmyrkri, þótt ella væri það ókleift. Ýmis skip hafa þessa ljóskastara, t.d. flestir eða allir mótorbátar, og er það vel, og hafa þeir einnig oft orðið að gagni við björgun veiðarfæra og verið því til fjárhagslegs hagnaðar. Ein er þó sú tegund skipa, sem ekki hefur almennt haft þessi tæki innanborðs, og það eru togararnir. Mér er kunnugt um, að í hæsta lagi þrír togarar hafa ljóskastara.

Ég ætla ekki að fara að rekja hér sjóslysin, sem orðið hafa hér að undanförnu, Ekki er hægt að segja um með neinni vissu, hvort þeim hefði orðið afstýrt, ef ljóskastarar hefðu verið um borð, en ýmislegt bendir þó í þá átt, að svo kynni að hafa til tekizt. Þess er skemmst að minnast, hve mjóu munaði með trillubátinn frá Akranesi, sem mótorbátur rakst á úti í Faxaflóa í náttmyrkri, en missti af aftur. Ef leitarljós hefðu verið í þeim bát, mundi hann hafa fundið trillubátinn aftur. Sem betur fór varð ekki af slysi, en það hefði hæglega getað orðið, eins og kunnugt er. Ef nokkurt tæki hefur þýðingu fyrir öryggi manna á sjónum í náttmyrkri, þá er það þetta. Það hefði mjög mikla þýðingu, ef togarar og önnur skip hefðu það. Í till. minni er gert ráð fyrir, að sett verði reglugerð, er skyldi skipaeigendur til að hafa góða og öfluga ljóskastara í skipum sínum. Reynslan hefur sýnt, að ekki dugir minna en að setja lagafyrirmæli um þetta og annan öryggisútbúnað. Sumir hafa þessi tæki að vísu án lagafyrirmæla, en aðrir ekki. Þannig hefur það alltaf verið. Það er bent á hreyfingu meðal útvegsmanna og innan Slysavarnafélags Íslands, sem gengur í þá átt að fá þessi tæki í skipin. En sumir útgerðarmenn hafa fram á þennan dag haft tækifæri til að setja þessi tæki í skip sín, en ekki gert það. Þessarar vakningar gætir, það er rétt, en hið eina, sem tryggir til fulls, að engin skip verði út undan um þetta, eru lagafyrirmæli. Ég fullyrði, að þessi till. sé fram komin af brýnni nauðsyn. Þetta mál hefur mikla þýðingu fyrir sjómenn. Að sjálfsögðu hef ég lagt til, að reglugerðin verði samin í samráði við Slysavarnafélag Íslands.