22.01.1947
Sameinað þing: 24. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í D-deild Alþingistíðinda. (4996)

275. mál, ljóskastarar á skipum

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Það gætti misskilnings í tvennu hjá hv. 11. landsk. Annað var það, að hann sagði, að ég væri á móti því, að sett væri reglugerð. Það sagði ég ekki. Það er nefndarinnar, sem fær þetta mál til meðferðar, að skera úr því. Þá talaði hann um samþykktirnar, sem ég gat um, og taldi ekkert öryggi vera í þeim. Togaraútgerðarmenn samþykktu á fundi sínum föstudaginn 10. þ.m. að setja ljóskastara í skipin, og daginn eftir samþykktum við í stjórn slysavarnafélagsins (við vissum ekki um fund útgerðarmanna daginn áður) ályktun, þar sem óskað var eftir þessum tækjum. sem útgerðarmenn höfðu þá fyrir fram samþykkt. En þessari till. hér var ekki útbýtt fyrr en 13. þ. m. Þessar samþykktir eru því ekki gamlar, þótt þær kæmu fyrr fram en till. hv. flm., og hef ég rakið tímann nákvæmlega.

Ég fullyrði ekki, hvort nauðsynlegt er að setja reglugerð um þetta mál, og mundi skipaskoðunarstjóri eflaust taka málið upp, ef hann teldi það rétt. En ég held, að svo mikils skilnings gæti í þessu máli, að þegar sé búið að leiða það í höfn í aðalatriðum.

Það er rétt hjá hv. þm. Barð., að bannað var að hafa þennan ljósaútbúnað á togurunum á stríðsárunum, og ekki mátti einu sinni hafa siglingaljós. En nú er stríðinu lokið, og unnt er að taka upp fyrri hætti. Ég vil ekki draga úr því, að nokkurt öryggi er í því að fá ljóskastara í skipin, og þó að það sé ekki fullkomið hjálpartæki, þá ber að stuðla að öllu, sem í mannlegu valdi er og er til bóta.