22.01.1947
Sameinað þing: 24. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í D-deild Alþingistíðinda. (5000)

276. mál, hlutfallstölur tekna hjá þjóðfélagsstéttunum

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. — Þessi till, á þskj. 304 fjallar um að skipa nefnd, sem á að reyna að ná samkomulagi um, hvernig beri að skipta þjóðartekjunum, með því að gera till. um hlutfallstölur tekna hjá hinum ýmsu stéttum. Framkvæmdin gæti orðið þannig, að n. setti launatölu hjá einhverjum starfsflokki, t.d. 100, og miðaði annað við það, ákvæði launatölur hjá öðrum stéttum með hliðsjón af þessu. Vitanlega yrðu launatölurnar margar og misjafnar hjá einstökum stéttum, og færi það þá eftir gildi starfa, t.d. hjá sjómönnum yrðu hærri tölur hjá skipstjórum og stýrimönnum en hiá hásetum. Hjá opinberum starfsmönnum yrðu hlutfallstölurnar a.m.k. jafnmargar og launaflokkarnir í launalögunum, og hjá iðnaðarmönnum yrðu launatölurnar einnig misháar, eins og hjá öðrum launahópum eftir gildi starfanna. Ég gat þess, að þetta megi framkvæma með því að setja töluna 100 hjá einhverjum flokki manna og ákveða aðrar eftir því.

Samkv. till. á að skipa n. þannig, að landssamtök helztu stétta hafi rétt til að tilnefna einn mann hvert, og kæmu þá þessi samtök til greina: Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Landssamband iðnaðarmanna, Landssamband íslenzkra útvegsmanna og Stéttarsamband bænda. Þá yrði hér um að ræða fulltrúa frá öllum helztu stéttum. Að vísu má segja, að fulltrúa vanti frá verzlunarstéttinni, en mér er ekki kunnugt, að til séu nein landssamtök hjá þeirri stétt, en ástæða kynni að vera að taka það til athugunar. Annars er það að segja um verzlunarfólk, að það á að þessu leyti samstöðu með opinberum starfsmönnum, þar sem störf þessara tveggja stétta eru allsvipuð.

Tilgangurinn með þessari till. er að leita samkomulags um grundvöll undir nýtt fyrirkomulag við ákvörðun launa, kaupgjalds, innanlandsverðs á framleiðsluvörum og tekna manna yfirleitt, eða með öðrum orðum reyna að ná samkomulagi milli stéttanna um skipting þjóðarteknanna. Ef samkomulag næst um hlutfallið, þarf að koma tekjuskiptingunni á þann grundvöll. Það er vitað, að nú er allt of mikið misræmi í tekjum manna í þjóðfélaginu, en þetta veldur vandræðum. Misræmið orsakar flótta frá einstökum atvinnugreinum til annarra, og oft fara menn frá þýðingarmiklum störfum aðeins af því, að þeir telja önnur störf léttari og betur borguð. En það er ekki nóg, að samræmi sé milli stétta, heldur þurfa tekjur einstaklinga og stétta að vera í samræmi við þjóðartekjurnar í heild, því að það hefur óheillavænlegar afleiðingar, ef ekki er samræmi milli tekna einstaklinga og þjóðarinnar í heild. Núverandi erfiðleikar í atvinnu- og fjármálum stafa af misræmi í þessu efni. Leiðin úr þessum vanda er því að koma á nýrri skipan, sem tryggi eðlilegt samræmi milli tekna þjóðar og einstaklinga. Það, og réttlát skipting tekna, er leiðin út úr þeim vandræðum, sem að steðja, og er ekki þörf á að ræða það frekar hér. Að öðru leyti vísa ég til grg. og óska, að málinu verði vísað til 2. umr. og allshn.