10.02.1947
Sameinað þing: 27. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í D-deild Alþingistíðinda. (5006)

277. mál, störf stjórnarskrárnefnda

Flm, (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Árið 1942 kaus Alþ. n. til þess að endurskoða stjskr., og var það að vísu gert til þess að breyta þeim ákvæðum í hinni gömlu stjskr. ríkisins, sem nauðsynlegt var að breyta vegna hinnar væntanlegu stofnunar lýðveldis á Íslandi, en svo átti að endurskoða stjskr. að öðru leyti líka. N. lauk fyrri þættinum, en síðari þætti verkefnisins hefur ekki verið lokið enn.

Árið 1945 var svo önnur n. skipuð til aðstoðar hinni fyrri, og munu svo n. hafa unnið hvor í sínu lagi og báðar saman síðan síðari n. var skipuð, en nú mun vera um ár síðan fundur hefur verið haldinn.

Ástand það, sem nú hefur verið í 3 mánuði, að ekki hefur verið lögleg stjórn í landinu, hefur ýtt við mönnum um það, að nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir tíðar og langvarandi stjórnarkreppur. Till. þessi er samin á meðan á þessu stóð, en þó að nú hafi tekizt að mynda þingræðisstjórn, er nauðsyn á því, að þetta komi ekki aftur fyrir, og þegar þess er gætt, að á s.l. 4 árum hefur áður komið til langvarandi stjórnarkreppu, má ljóst vera, að þótt nú tækist að mynda þingræðisstjórn, má hvorki áhugi þm. né stjórnarinnar fyrir því, að unnið sé að stjskr., falla niður, og það verður að vinna sem rækilegast.

Í samningi núverandi stjórnarflokka er því heitið, að endurskoðun stjskr, skuli hraðað, en þótt þetta sé í samningnum, er æskilegt og réttlátt, að till. verði samþ. og að frá n. fáist till. fyrir 1. október n.k., sem gætu orðið grundvöllur fyrst og fremst úti í þjóðlífinu og síðan hér innan Alþ., en efni þessarar till. er það, að þessar tvær n. skuli ljúka störfum þegar á þessu ári. Ég býst við, að allir séu sammála um það, að ekki skuli hrapað að endanlegum frágangi á stjskr. og að hún eigi að verða rædd, ekki einasta hér á þingi, heldur meðal þjóðarinnar. Í þessum n. eiga sæti menn frá stjórnmálaflokkunum og fulltrúar frá ýmsum samtökum í landinu, og má búast við, að bæði komi þar fram sjónarmið stjórnmálaflokkauna og jafnframt fleiri sjónarmið.

Ég vildi leyfa mér að vænta þess, að þingið sjái sér fært að samþykkja þessa till., því að ég tel, að til þess að hraða þessu máli sé nauðsynlegt, að sem allra fyrst komist skriður á það.