06.02.1947
Sameinað þing: 26. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í D-deild Alþingistíðinda. (5019)

280. mál, minkatollur

Flm, (Steingrímur Steinþórsson):

Till. þessari fylgir ýtarleg grg. frá Loðdýraræktarfélagi Íslands, og nægir að vísa til þeirra upplýsinga, sem þar eru gefnar um það, hvers vegna farið er fram á, að niður verði felld gjöld af 65 minkum, sem Loðdýraræktarfélagið hefur fengið keypta í Ameríku, en flestir þessir minkar eru komnir til landsins. Sex þeirra munu ókomnir, en innflutningsleyfi fengið fyrir þeim líka. Eins og kemur fram í grg., er verið að flytja hér inn nýjan stofn af minkum til grávöruræktar, sem áður hefur verið óþekktur hér og komið hefur fram á síðustu árum og nú er verið að rækta bæði í Ameríku og Evrópu. Þess skal getið, að Norðmenn hafa flutt inn mikið af minkum frá Ameríku til þess að endurbæta stofn sinn, og skal á það bent, að þeir taka engan toll af þeim minkum, sem þannig eru merktir, enda hygg ég, að það sé einsdæmi, að teknir séu tollar af kynbótadýrum, sem flutt eru milli landa til þess að bæta ræktun þeirra tegunda, sem fyrir eru. Ég vil sérstaklega taka fram, af því að ég veit, að ýmsir þm. hafa mestu ótrú á minkum, þar eð þeir hafa sloppið úr haldi hér, að það er ekki rétt að blanda því saman við þetta. Það er búið að veita leyfi fyrir að flytja þessa minka hingað til lands. Hitt er annað mál, hvort yfirleitt eigi að leyfa innflutning dýra eins og þessara, en við flm. álítum, að ekki nái neinni átt að taka tolla af minkum, sem fluttir eru til landsins í þessum tilgangi. Ég taldi rétt að benda á þetta, en tel óþarfa að leiða þetta mál inn í umr., hvort leyfa skuli flutninga minka til landsins eða ekki, því að það á ekkert skylt við þetta mál, hvort á að valda kaupendunum svo miklum erfiðleikum til að standa undir kaupunum, að þeir verði að greiða um 400 kr. toll af hverju dýri, sem inn er flutt.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Ég vænti þess, að fjvn., sem mun fá mál þetta til meðferðar, ljái því stuðning. Einn af flm. till., hv. þm. Vestm., sem nú er orðinn fjmrh,, er nú kominn í það sæti þar, að ég vænti þess, að hann sem flm. málsins veiti því sinn mikilvæga stuðning, svo að það nái fram að ganga.