13.02.1947
Sameinað þing: 29. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í D-deild Alþingistíðinda. (5025)

281. mál, landhelgi Íslands

Flm. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Í grg. fyrir þessari till, er nokkuð rakið þetta mál um stækkun landhelginnar frá því, sem nú gildir samkv. samningi frá 1901. Ég hygg, að mál þetta, stækkun landhelginnar frá því, sem nú er, sé eitt af allra stærstu hagsmunamálum okkar þjóðfélags, eins og nú er komið. Það þarf tæplega að rekja þetta hér fyrir hv. þm., sem munu allir vera þessu máli mjög kunnugir. Það er vitað mál, að með því fyrirkomulagi, sem nú er, hinni litlu landhelgi, er ungfiskinum mjög hætt vegna þeirrar notkunar fiskimiðanna, er nú tíðkast bæði af okkur og útlendingum. Það eru engar líkur til þess, að fiskimergðin haldist svipað því sem nú er með slíku framhaldi. Það er vísindalega sannað, að með sams konar fyrirkomulagi og nú ríkir, og er það allmikið rannsakað, hljóti fiskistofninn að ganga til þurrðar. Ef menn athuga, hvaða afleiðingar þetta getur haft fyrir okkar þjóð, hljóta allir að skilja, hversu mál þetta er stórt og aðkallandi fyrir okkur.

Ég sé ekki ástæðu til að rekja það í löngu máli, hvernig samningurinn frá 1901 varð til, eða sögu þessa landhelgismáls, áður en þessi samningur var gerður. Ég geri ráð fyrir því, að flestir hv. þm. hafi kynnt sér þær 2 ritgerðir, er aðallega hafa birzt um þetta mál. Á ég þar við í fyrsta lagi bækling, sem Matthías Þórðarson hefur gefið út um málið. Þar er að finna merkilegar upplýsingar um þessi mál öll. Í öðru lagi á ég hér við ritgerð, er Júlíus Havsteen sýslumaður hefur skrifað um þessi mál. Það er vitað mál, að þessi samningur frá 1901 var gerður af Danakonungi án okkar tilstillis. En undanfarið hafa komið fram sterkar kröfur af hálfu Íslendinga um, að landhelgin verði ekki takmörkuð við það, sem þar er ákveðið. Það er ekki að undra, þótt þessar kröfur komi fram, því að fyrrum var það svo, að landhelgin var allt hafið kringum Ísland eða líklega 16–20 mílur, Á 19. öld var gerð breyting á landhelginni og hún minnkuð niður í 4 sjómílur, en firðir og flóar friðaðir. Gegn þessu komu mótmæli frá Frökkum og Englendingum. Um þetta leyti voru gerðir samningar milli þeirra þjóða, er land áttu að Norðursjó og öll höfðu sameiginlegra hagsmuna að gæta. Var landhelgin þar ákveðin 3 sjómílur. Í samræmi við þetta var svo landhelgi Íslands ákveðin 3 sjómílur og friðun flóa og fjarða afnumin. Það voru uppi sterkar raddir meðal Íslendinga, áður en þessi samningur frá 1901 var gerður, um það, að aldrei kæmi til þess, að slíkur samningur yrði gerður. M.a. er til rökstudd krafa um þetta og að aldrei kæmi til mála annað en að friðaðir yrðu firðir landsins og ákveðnar kröfur varðandi það, að sérstakt tillit skyldi taka til friðunar Faxaflóa og Breiðafjarðar, skyldu þeir alfriðaðir, þar sem þar væri um að ræða aðaluppeldisstöð ungviðisins. Niðurstaðan varð þessi, sem raun ber vitni um.

Upp á síðkastið hefur þjóðin vaknað til meðvitundar um það, að ekki væri hægt að una við samninginn frá 1901. Það ber margt til þess. Áhugi hefur aukizt fyrir fiskveiðum, og rannsóknir, er hér hafa farið fram og annars staðar, hafa sýnt, að með áframhaldandi rányrkju hlýtur fiskistofninn að minnka mjög. Renna margar stoðir undir, að við getum fengið þessu breytt. Hins vegar skal ég ekkert um það fullyrða, hversu auðsótt það verður að fá breytingu á ákvæði samningsins um, að 3 mílna landhelgin skuli verða 4 mílna, sem virðist eiga fullan rétt á sér. En það kemur ýmislegt til hér, sem veldur erfiðleikum. Hins vegar mælir engin sanngirni með því, heldur hið gagnstæða, að okkur verði neitað um að fá miklu meiri friðun á flóa okkar og firði en nú er, einkum þar sem margar þjóðir hafa hjá sér firði og flóa friðaða, sem eru miklu breiðari en Faxaflói og Breiðafjörður. Má benda í því sambandi á Bandaríkin, Kanada og Noreg. Þetta er ekki aðeins réttlætismál, heldur ætti einnig að létta okkar hlut, að þær vísindalegu rannsóknir, sem ég minntist á áðan og leiða í ljós, að fiskistofninn minnkar, ef áfram er haldið á þessari braut, hafa þegar vakið athygli erlendra vísindamanna á nauðsyn þess að friða uppeldisstöðvar fisksins. Í því sambandi nægir að vísa til erindis, sem Árni Friðriksson hefur haldið um þetta mál, og ritgerðar, sem hann hefur um það skrifað, Má sérstaklega benda á reynslu í Norðursjónum og reynsluna hér við land, sem er óglæsileg.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa framsögu um þetta mál langa. Ég geri ráð fyrir, að enginn ágreiningur verði um þetta mál á Alþ., því að það er vitað, að almennur áhugi allra landsmanna er fyrir hendi í þessu máli. Ég veit, að það getur verið eitt atriði í flutningi þessa máls, sem getur kannske valdið ágreiningi. Það er, hvort eigi að segja samningnum upp nú þegar samkv. ákvæðum hans sjálfs eða fara samningaleiðina, eins og heyrzt hafa raddir um, án þess að segja samningnum upp. Ég hef tekið það fram í grg., að ég tel ekki rétt, á þessu stigi málsins, að fara nákvæmlega út í það, hvaða skref skuli stíga næst hér á eftir í þessu máli. En eftir þeirri reynslu, sem aðrar þjóðir hafa af því að sækja þennan rétt í eigin hendur úr höndum þeirra þjóða, sem hagsmuna hafa að gæta á fiskimiðum þeirra, þá virðist svo sem gera verði ráð fyrir því, að þessi réttur verði það harðsóttur, að tæpast dugi aðrar leiðir en uppsögn til þess að sýna þegar á fyrsta stigi málsins, að okkur sé full alvara. Ég er hræddur um, að það sé ekki rétta leiðin að mótmæla samningnum án þess að segja honum upp. Í þessu sambandi vil ég sérstaklega nefna reynslu Norðmanna. Þær kröfur, sem þeir og fleiri þjóðir settu fyrst fram, og sú landhelgi, sem þeir töldu sig eiga rétt til, var ekki viðurkennd fyrst í stað af þeim þjóðum, sem hlut áttu að máli. Ég viðurkenni, að við höfum ekki mikinn mátt til að knýja fram rétt okkar með þeirri leið og við höfum ekki góða aðstöðu til að verja okkar landhelgi. En mér virðist, eftir að ég hef rannsakað þetta mál, þá sé hinn siðferðilegi réttur okkar til að fá breyt. á samningnum frá 1901, einkum hvað snertir friðun fjarða og flóa, svo sterkur samanborið við aðrar þjóðir, að erfitt verði fyrir þær þjóðir, sem á annað borð vilja sýna sanngirni, að standa á móti því.

Ég geri ráð fyrir því, að þessari umr. um till. verði frestað, og tel eðlilegt, að hún fái meðferð í utanrmn.