13.02.1947
Sameinað þing: 29. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í D-deild Alþingistíðinda. (5026)

281. mál, landhelgi Íslands

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 372. Það, sem vakir fyrir mér með þessari brtt., er eitt og hið sama og fyrir hv. flm. aðaltill., hv. þm. Str., að vinna að því að fá íslenzka landhelgi stækkaða, enda beindist öll framsöguræða hv. flm. að því að sýna fram á og sanna þörf okkar og réttmæti til þess að fá stækkaða íslenzka landhelgi. Brtt. mín miðar að því, að Alþ. geri ályktun almennt þess eðlis, að ríkisstj. beiti sér fyrir aðgerðum í þessa átt, og er það í samræmi við yfirlýsta stefnu núverandi hæstv. ríkisstj. samkv. málefnasamningi, sem hún hefur lagt fram. Nú er það svo, að ég er ekki viss um, að rétt sé, að við stígum fyrsta skrefið í þessu máli á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í till. á þskj. 327. Þó er í minni till. engan veginn girt fyrir, að ef svo sýnist að vel athuguðu máli, þá segðum við upp samningnum frá 1901.

Hv. þm. Str. vék að því í ræðu sinni, og það kemur einnig fram í grg. till., að hann vilji ekki fara nánar út í það, hvaða skref yrðu stigin næst í þessu máli. En þó vill hv. þm. slá þessu föstu sem fyrsta skrefinu, er stíga bæri í málinu. Ég hygg, að það megi vissulega um það deila, hvort í þessu sambandi sé þetta rétta leiðin fyrir okkur Íslendinga. Í öðru lagi er það augljóst, að í samningnum er ekkert réttlæti í garð okkar, enda er hann, eins og stendur í grg., gerður milli Danmerkur og Stóra-Bretlands og var á sínum tíma fullkominn nauðungarsamningur. Og uppi voru á þeim tíma mjög háværar raddir um það, að slík athugun yrði gerð, Enda er það augljóst, þar sem um svo mikla réttarskerðingu fyrir oss Íslendinga var að ræða, því að landhelgin var þá mjög þrengd fyrir Íslendinga. Áður var talið, að landhelgin næði yfir firði og flóa hér við land, en nú voru þeir opnaðir með sama sem engum takmörkunum. Það mætti í fyrsta lagi um það deila, hvort þessi samningur frá 1901 út af fyrir sig sé þess eðlis, að ástæða sé til þess, að Alþ. Íslendinga árið 1947 fari með samþykkt eins og þessari, ef þáltill. þessi væri samþykkt óbreytt, að viðurkenna gildi þessa samnings, þó að reglum hans hafi verið beitt í framkvæmdinni, og byggi ég það bæði á því, hvernig hann er til orðinn og ýmsum breyt. á þjóðarhögum, síðan samningurinn var gerður. Má í því efni benda á aðstöðubreyt. þá, sem varð á milli ríkjanna Danmerkur og Íslands 1918 og einnig þegar lýðveldið var stofnað árið 1944. Og það er vitanlegt, að við erum hér inni á sviði, sem a.m.k. er mjög um deilt á vettvangi þjóðarréttar, hvort samningur eins og þessi er bindandi um ríki, sem eins er ástatt um og ríkin Danmörku og Ísland er nú.

Hv. flm. sagði, að það hefði verið furðu hljótt um þetta mál, stækkun landhelginnar, en nú í seinni tíð hefði þorið meira á sókn í því máli en áður og væri að sjálfsögðu hægt að rekja orsakir þess til þess, hve Íslendingar væru að auka fiskiveiðaflota sinn. Það kann að vera, að nokkuð sé til í þessu. En önnur straumhvörf hafa sjálfsagt valdið miklu um vakningu í þessu máli ekki hvað sízt, sem sé lýðveldisstofnunin 1944, þegar Íslendingar tóku í eigin hendur meðferð allra utanríkismála sinna, Og þegar slík straumhvörf hafa orðið, er eðlilegt, að Íslendingar færi sig meira upp á skaftið um að reyna að fá rétt sinn í sínar hendur, einnig í landhelgismálunum. Árið 1930, þegar allmikil tímamót urðu í sögu landsins, þá voru raddir uppi hjá ýmsum áhugasömum mönnum um það, að ríkisstj. gengi þá á lagið og reyndi að fá viðurkenningu annarra þjóða í landhelgismálum okkar meir en áður hafði fengizt, viðurkenningu fyrir rýmkaðri og meiri landhelgi. Málinu var að vísu hreyft þá af íslenzkum stjórnarvöldum, en án þess að árangur yrði að. En ég hygg, að Íslendingar sæki nú þetta mál af meira kappi en áður, af því að þeir hafa nú tekið stjórn allra sinna utanríkismála í eigin hendur.

Ég álít, að á þessu stigi málsins eigi hæstv. Alþ. ekki að samþykkja annað í till.formi, eins og hér er stefnt að, heldur en það, að ríkisstj. sé falið að stefna að því og vinna að því, að landhelgin verði stækkuð kringum Ísland, en að það sé svo nákvæmlega athugað undir forgöngu ríkisstj., á hvern hátt séu réttar gerðir okkar í þessu efni. Það þarf að sjálfsögðu að rannsaka mjög vel, hvernig á að bera upp kröfur okkar Íslendinga í þessum efnum og hverjar kröfur okkar ættu helzt að vera í þessum efnum. — Hv. flm. talaði um, að rétt mundi vera að reyna að fá rýmkaða landhelgina úr 3 mílum í 4 mílur út frá landi, því að það sýndist, að það ætti að vera minni fyrirstaða á því að fá rýmkaða landhelgina þannig en að fá friðaða alla firði og flóa. Nú er, að ég hygg, ekki ástæða til að álíta, að erfitt mundi verða að fá viðurkenningu um rýmkaða landhelgi almennt. Og ýmis rök hníga að því, að þetta mál mætti sækjast betur af hendi okkar nú en áður. Það er fyrir tilverknað Breta, að landhelgin hjá okkur hefur verið svo þröng sem hún er nú kringum landið og allt frá árinu 1901. Það er skiljanleg stefna hjá þeim, sem sækja mjög á fiskimið annarra þjóða. Og við höfum þess vegna þurft að búa við ásælni af hendi þeirra og annarra viðkomandi veiðum á fiskimiðum kringum landið. — Þegar samtöl hefjast yfirleitt milli stórþjóðanna um rýmkun landhelginnar á ýmsum stöðum í heiminum, þá hefst samstarf um það mál milli Breta og annarra stórþjóða, sem hafa hagsmuna að gæta í sambandi við það, að rýmkuð verði landhelgi hjá þeim, svo sem á sér stað um Bandaríkin í Norður-Ameríku og Sovétríkin, þá ættum við að fylgjast með þeim stefnum, sem uppi verða um það og uppi eru nú þegar, því að heyrzt hefur um það talað, að Bandaríkin hafi fært sig mjög upp á skaftið um kröfur til réttar á hafinu kringum landið hjá sér, og sérstaklega þá í þá átt, að viðkomandi land geti helgað sér landgrunnið allt í kringum landið til ýmiss konar atvinnurekstrar, ekki aðeins fiskveiða, heldur til þess að vinna úr skauti náttúrunnar einnig önnur gæði, þar með að stunda námugröft á hafsbotni. Allt er þetta þess eðlis, að það er einmitt tímabært fyrir okkur nú að taka þetta mál upp almennt. Og ýmislegt bendir til þess, að okkur Íslendingum gæti sótzt málið betur nú en áður, einmitt í sambandi við þessar umr. stórþjóðanna um landhelgina yfirleitt annars staðar í heiminum. En aðalatriðið tel ég, að við eigum ekki að slá neinu alveg föstu um það nú, hvert eigi að vera fyrsta skrefið í þessu máli né heldur það næsta, heldur tel ég það rétt fyrir Alþ. nú að gera í þessu máli, að fela ríkisstj. að vinna að stækkun landhelginnar. Og er þá undirskilið, að á hverjum tíma gæti orðið góð samvinna um það á milli hæstv. ríkisstj. og Alþingis.