13.02.1947
Sameinað þing: 29. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í D-deild Alþingistíðinda. (5027)

281. mál, landhelgi Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að þessi þáltill. er komin fram. Það er kominn tími til þess, þó að fyrr hefði verið, að Íslendingar hefðu látið til sín taka að segja upp þessum nauðungarsamningum, sem við hófum orðið að sætta okkur við allt frá árinu 1901. Ég býst við, að hæstv. Alþ, á sínum tíma, þegar þessi samningur var gerður, hafi mótmælt því, hvernig með honum var þá gengið á okkar rétt. Við urðum að sætta okkur við það, eins og fleira, Íslendingar, að landhelgi okkar væri þannig minnkuð frá því, sem hún hafði áður verið, sem var um 16 mílur út frá landi. En því ráðríkari sem Englendingar urðu viðkomandi okkar landhelgi, því meir létu Danir undan kröfum þeirra, vegna þess að þeir (Danir) vildu tryggja sér samning um sölu landbúnaðarafurða sinna til Englands. — Ég held, að þessi samningur hafi aldrei verið samþykktur af hendi okkar Íslendinga, fyrr en lýðveldið var stofnað. Ef ég man rétt, var það eitt atriðið af hálfu Breta, þegar þeir viðurkenndu okkar lýðveldi, að við yrðum að binda okkur við þennan samning, sem Bretar og Danir hafa gert um okkar landhelgi, og ef þessi samningur hefur gildi, þá hefur hann það vegna þess, að við þá viðurkenndum þennan samning. Það er því rétt að segja honum upp sem fyrst. — Við urðum að berjast fyrir því að ná okkar rétti á undanförnum öldum. Það verður líklega einnig svo viðkomandi stækkun landhelgi okkar, og sú barátta okkar má ekki vera hikandi. Vald Breta er ekki það sama nú og það hefur áður verið á höfum heimsins. Til allrar hamingju er það veikara. Og það þýðir það fyrir þá, að það er ekki eins hægt að fara ránshendi gagnvart öðrum þjóðum og kúga þær til þess að láta af hendi rétt sinn. — Önnur ríki eru nú líka farin að gera slíkar kröfur um stækkun landhelginnar hjá sér eins og við stefnum að með þessu máli, sem hér liggur fyrir nú. Stórveldin hafa sett fram slíkar kröfur sér til handa í þessum efnum, að þau geta ekki neitað okkur um þetta, stækkun okkar landhelgi. Ég held, að það sé rétt með farið, að Bandaríkin hafi lýst því yfir, að þau tileinki sér allt landgrunnið við sitt land, sem er fyrst og fremst gert vegna náma á hafsbotninum. Sovétríkin hafa 10 mílna landhelgi. Þannig er það, að tvær þjóðir af þeim, sem mestu ráða, hafa þessa stefnu að rýmka landhelgi hjá sér, En engin þjóð á eins mikið undir því, að landhelgi hjá henni sé rúm, eins og Íslendingar. Og eftir að við höfum verið nýlenda í um það bil 700 ár, en höfum svo heimtað okkar rétt af þeirri þjóð, sem yfir okkur réð, þá er ekki nema rétt, að við séum ákveðnir í að heimta einnig okkar rétt um landhelgina kringum okkar land. Ég held, að Bandaríkin og Sovétríkin, sem sérstaklega mundi verða sótt undir á alþjóða vettvangi um aukin réttindi fyrir okkur um rýmkun landhelginnar, gætu ekki annað en samþykkt það, að við fengjum okkar landhelgi aukna, þar sem þau gera sams konar kröfur á alþjóða vettvangi sér til handa. Hins vegar er tvímælalaust rétt, að við gerum okkur það ljóst, að Bretar munu reyna að halda í sitt, þótt með yfirgangi af Dana hálfu gagnvart okkur sé það fengið. Bretar eru seigir og fastir fyrir, hvort sem á þá er ráðizt eða verið er að heimta úr þeirra höndum annarra rétt. Þeir hafa áður eyðilagt fiskimið annarra þjóða, sem nær þeim hafa verið. Og við sjáum, að þeir munu eyðileggja okkar fiskimið, ef þeir halda þeim hætti áfram, sem var á þeirra fiskveiðum fyrir stríð. Það er því ekki um annað að gera í þessum efnum en að sækja okkar mál fast og það nú þegar, því að þegar rætt er svo almennt um mannréttindi í heiminum eins og nú er gert og þegar viðurkenning á réttindum nýrra ríkja er nú orðin — í orði kveðnu a.m.k. — eins almenn og raun ber vitni, þá er tækifæri fyrir okkur til að sækja fast okkar rétt. — Það er vitanlegt, að Bretar verða seigir fyrir þarna, og það getur kostað okkur langa baráttu að heimta okkar fyrri rétt í þessum málum. Við getum t.d. hugsað okkur, hvernig það hefur gengið með eitt lítið atriði í þessum málum, friðun Faxaflóa. Það er því ekki vert að vera hér með neitt hik um að segja upp samningnum frá 1901 og gera kröfur um stækkun landhelginnar. Við verðum að gera okkur það ljóst, að við þurfum að hefja baráttu um að heimta okkar rétt úr höndum annarra þjóða, sem við eigum sanngirniskröfu til. — Ég held því, að þetta sé skref, sem við þurfum að stíga nú þegar, að segja þessum samningi upp. Við verðum að sýna, að okkur sé alvara með að sækja fram og heimta okkar rétt.