17.02.1947
Neðri deild: 75. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í D-deild Alþingistíðinda. (5035)

281. mál, landhelgi Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Hæstv. utanrrh. sagði, að ummæli mín í þessu máli væru úr lausu lofti gripin. Ég sagði frá því, að Bretar hefðu sett það að skilyrði fyrir viðurkenningu lýðveldisins, að viðurkennt væri gildi þessa samnings, og byggði ég þetta á því, að þáverandi utanrrh., Vilhjálmur Þór, minntist á það á einum fundi í utanrmn., að Bretar mundu viðurkenna lýðveldið og ganga jafnframt út frá, að allir samningar, sem Danir höfðu gert og vörðuðu Ísland, héldu gildi sínu. Var þá minnzt á landhelgissamninginn. Var gengið út frá því, að ríkisstj. gerði út um þetta mál. Þetta var ekki tekið fyrir sem dagskrármál og engin samþykkt um þetta gerð. Á laugardaginn fór ég upp í stjórnarráð til þess að athuga um þetta. Skrifstofustjórinn í utanrrn. sagði mér, að málið hefði verið rætt í október. Nú mundi ég ekki eftir neinum fundi um þetta mál í október, og hafði ég aldrei heyrt um það fyrr en á laugardaginn, að þetta mál hefði verið tekið fyrir aftur í nefndinni.

Ég fór svo að blaða í fundargerðabókinni. Þar sé ég svo, að fundur hefur verið haldinn um þetta föstudaginn 20. okt. Á þessum fundi var ég ekki. Þar var ekki heldur Ólafur Thors né Hermann Jónasson. Þessi fundur er kallaður saman síðdegis 20. okt., kl. 5. Daginn eftir tekur ný stjórn við völdum. Þessi fundur er því augsýnilega kallaður saman af þáverandi utanrrh., Vilhjálmi Þór, seinustu klukkutímana, sem hann er við völd. Á fundinum mæta 4 menn, og þar af 2 varamenn. Á þessum fundi var rætt um bráðabirgðalöggildingu samninga milli ríkjanna. Ráðherrann, Vilhjálmur Þór, taldi þá, að þessu máli yrði að hraða, því að það væri kurteisi við hið erlenda ríki.

25. okt., rétt eftir að stjórn Ólafs Thors hafði tekið við völdum, kom brezki sendiherrann með nótu, og segir þar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Aide Mémoire. — His Majesty's Governments would welcome a formal note from the Icelandic Governments confirming the continued validity of all agreements between the two countries in force at the time óf dissolution of the Act of Union, pending the conclusion of any new agreements between the two countries.“

Hér er farið fram á að fá formlega staðfestingu á gildi samninganna, sem sé hið sama og farið var fram á 20. okt., þegar Vilhjálmur Þór kallar fundinn saman. Allt bendir þetta á, að Vilhjálmur Þór hafi áður verið búinn að lofa því munnlega, að þessir samningar yrðu framlengdir, og nú, þegar stjórn hans er að fara frá og ný stjórn að taka við, ámálgar sendiherra Breta það að fá formlega staðfestingu á þessu, sem hann hefur haft munnlega staðfestingu á áður, og kemur strax til hinnar nýju stjórnar til þess að bera þessa ósk fram við hana.

Mér var, er ég kom upp í stjórnarráð á laugardaginn var, ókunnugt um þessa fundi um þetta mál 20. okt. og 12. jan. Mín vitneskja um þetta var frá Vilhjálmi Þór, hinni stuttu frásögn hans á fundi um málið.

Nú er mér spurn: Eru til nokkrar skriftir í ráðuneytinu varðandi þessi efni, þ.e. um það, sem Vilhjálmur Þór hefur rætt við sendiherrann? Hefur ráðherrann skrifað nokkuð um þetta atriði?

Það liggur bókað fyrir, að þann 21. okt. fer ríkisstj. fram á að fá „formal note“ til frekari staðfestingar loforðum frá því í október, og er þessu lofað, áður en lýðveldistakan fer fram. Og á meðan ekkert kemur frá stjórnarráðinu um þetta, mun ég standa á því, að ég fari hér með rétt mál. Mín vitneskja um þessi mál er fengin á fundum, sem ég hef setið í utanrmn., og verður því, ef hrekja á þessi ummæli, eitthvað að koma fram skriflegt, en það, sem Vilhjálmur Þór man, þá kemur hans staðhæfing á móti minni.

Brezka ríkisstj. hefur fengið loforð um það, að samningar þeir, sem Bretastjórn hefur gert við Danmörku og varða Ísland beint eða óbeint, haldist í gildi, og Vilhjálmur Þór sagði frá því sem frétt. En síðar kallar Vilhjálmur saman nefndina og vill fá formlega staðfestingu á því, að samningarnir falli ekki úr gildi, og það er rétt að minna á, að brezk utanríkisþjónusta er ekki svo slöpp, að hún viti ekki, hvað hún geri, og henni er nóg að fá munnlega staðfestingu utanrrh., og er utanrrh. fer frá, þá fer brezki sendiherrann að ámálga þetta á nýjan leik, og daginn áður en ríkisstj. fer frá þá er þetta staðfest og bókað í utanrmn. á fundi, er haldinn var kl. 5 e.h. Þá er fengin staðfesting á þessu. Ég held því, að þetta ætti að geta verið sannfærandi. Ég sé og í fundargerð utanrmn. frá 20. okt., að ekkert er alvarlega rætt um það að slíta þessum samningum. Englendingar lögðu áherzlu á það, að gildandi milliríkjasamningar héldust óbreyttir, og þeir stóðu vörð um þá, og er alls fjarri því, að þetta ætti að spilla sambúð þjóða, en öll stjórnvizka Breta gengur út á að halda sínum rétti. Svo er eitt undarlegt, að eftir þessa samþykkt 20. okt., þá virðist koma hér töluvert meira, sem Íslendingar gengu inn á, þ. e. að þeir samþykktu að endurskoða samningana innan þriggja ára. Einkennilegt er við þetta, að þetta var samþ. í n. án minnar vitundar og fleiri nm. í utanrmn. Og ég staðhæfi, að fyrrverandi utanrrh., Vilhjálmur Þór, framlengdi samningana við Breta, og er sendiherrann brezki fer fram á það að fá staðfestingu á þessu, þá fær hann hana.