17.02.1947
Neðri deild: 75. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í D-deild Alþingistíðinda. (5036)

281. mál, landhelgi Íslands

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forsefi. — Ég verð því miður að ítreka það, að ég er hræddur um, að yfirlýsingar hv. 2. þm. Reykv. séu svo lagaðar, að þær geti haft áhrif í þá átt að spilla samningum okkar og Breta, og ummæli þau, sem hv. þm. hefur haft í frammi hér og blað hans Þjóðviljinn, komi aðeins illu einu af stað, er verið er að hefja viðskiptasamninga á milli þjóðanna. Og ef það er álit manna, að stækka beri landhelgi Íslands, þá eru fullyrðingar, sem hér hafa fram komið frá hv. þm., ekki bezta leiðin til þess að koma þeim málum fram, er lúta að stækkun landhelginnar. Það liggja gögn frammi í stjórnarráðinu um þetta, og held ég, að hv. þm. hafi ofmælt sig, er hann talaði hér áðan, og fyrrv. utanrrh., Vilhjálmur Þór, hefur lýst yfir, að við sig hafi Bretar engin slík skilyrði borið fram. Fyrrv. ráðh. getur stutt sitt mál, og á fundum í utanrmn. hafa menn talið sig óbundna fyrri yfirlýsingum um þetta, og ef einhver kynni að telja sig bundinn í báða skó vegna gamalla samninga, þá verður að minnsta kosti að vera einhver flugufótur fyrir því, að menn sjái ástæðu til þess að hefja langar umr. um málið.

Ef um ýmislegt varhugavert kynni að vera að ræða í þessu máli með tilliti til ræðu hv. þm., þá vil ég geta þess, að hv. þm. Str. var á fundi 12. jan. og þá var það samþ. með öllum greiddum atkv. í utanrmn. að senda Bretastjórn nótu þá, er hún bað um, og ég vil nú minna hv. þm. á það, að ef hann hefði viljað kynna sér, hvað gerzt hefur í þessu í utanrmn., þá ætti hann að líta í fundargerðabókina fyrir þann tíma, er Vilhjálmur Þór fór frá.