17.02.1947
Neðri deild: 75. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í D-deild Alþingistíðinda. (5037)

281. mál, landhelgi Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Mér sýnist, að hæstv. ráðh. ætli að fara eftir ummælum Þjóðviljans varðandi þetta, og hann gaf í skyn, að blaðið væri að spilla fyrir samningum með því að ræða þessi mál. Blöð eiga að hafa og hafa vald til þess að krítísera og segja álit sitt á hlutunum hispurslaust. — En víðvíkjandi því, hvort ég hafi farið með rétt mál eða rangt, þá skal ég ræða þetta frekar. Hæstv. ráðh. sá ástæðu til að snúa út úr því, sem ég sagði áðan. Hann vildi láta skilja það svo sem ég sagði, að brezki sendiherrann hefði talað um þetta við Vilhjálm Þór.

Ég fór fram á að fá að vita, hvort skjöl væru í stjórnarráðinu um viðurkenningu annarra ríkja á lýðveldi okkar. Ég skal ekkert fullyrða um þetta. Það getur verið, að það hafi verið aðeins um þetta talað, en ég hélt, að það væri siður þeirra, sem vilja ganga vel frá slíku, að skrifa það mjög rækilega og nákvæmlega upp. Það væri gott að fá upplýsingar um það, hvort ríkisstj. eða utanrrh., Vilhjálmur Þór, hefði gert það að skrifa upp þau samtöl, sem farið hefðu fram við sendiherra erlendra ríkja. Ég held, að ég muni það rétt, að brezka stjórnin hafi sett þetta skilyrði og Vilhjálmur Þór hafi skýrt frá því. Hvað menn í utanrmn. muna, kemur fram síðar.

Hæstv. utanrrh. sagði, að ég hefði getað fengið að vita um fundinn, sem haldinn var í utanrmn., eða hvað hefði farið þar fram, þar sem fundargerðir væru sendar heim til nm. á eftir. En það er ekki alltaf gert, a.m.k. ekki til þeirra manna, sem ekki hafa verið á þeim fundi. Þegar ég svo sá fyrst þessa fundargerð uppi í stjórnarráði, sagði ég við skrifstofustjórann, að um þennan fund hefði ég ekki haft hugmynd, sem haldinn var á síðustu klukkutímum, sem gamla ríkisstj. lifði, og ég hélt að þessi fundur hefði verið haldinn til þess að staðfesta samkomulagið, og einnig, að fyrst og fremst hefði fundurinn 20. okt. verið til þess að staðfesta þau nótuskipti, sem fram höfðu farið. Og því til staðfestingar álít ég, að brezka ríkisstj. hafi álitið máli sínu borgið með því að hafa þetta svona: En það getur vel verið, að brezk áhrif séu svo ríkjandi hér á landi nú, að það þyki ekki heppilegt að tala um slíkt. Ég skal ekki um það segja. Og þær fullyrðingar hæstv. utanrrh., að það sé meira en lítill vafi á þessu, tel ég mjög ofmælt hjá honum. Það stendur staðhæfing á móti staðhæfingu í þessu máli, og ég mun halda fast við minn málstað, að þessi fundur hafi verið haldinn til þess að staðfesta það formlega, sem munnlega var búið að ákveða, og brezka ríkisstj. hefði viljað fá þessa staðfestingu, áður en ráðh. úr gömlu stjórninni færu frá.

Hitt er rétt að athuga, hvernig stendur á, þegar þetta er svo ljóst fyrir mönnum, að hægt sé að endurskoða þessa samninga á næstu 3 árum, að hitt er gert af hálfu þeirra manna, sem álíta það mögulegt, og hvernig stendur á, að ekkert orð kemur um það hér á þingi, þegar rætt er um það að segja upp þessum samningi.