17.02.1947
Neðri deild: 75. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í D-deild Alþingistíðinda. (5038)

281. mál, landhelgi Íslands

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Þó að hæstv. utanrrh. hafi nú rækilega og með fullkomnum gögnum sýnt fram á, að staðhæfingar hv. 2. þm. Reykv. í sameinuðu þingi fyrir nokkrum dögum út af skilyrðum af hálfu brezku ríkisstj. í sambandi við stofnun lýðveldis á Íslandi væru rangar, þykir mér rétt að draga saman í lokin það, sem upplýst er í þessu efni, þar sem glögglega má sjá, hvað fullyrðingar hv. 2. þm. Reykv. eru út í loftið og alveg án þess að styðjast við rök í þessum málum.

Ég hafði búizt við eins og hæstv. utanrrh., að hv. 2. þm. Reykv., eftir að hann hefði fengið upplýsingar í þessu máli og eftir að hann hefði fengið að vita, að hans fullyrðingar væru rangar og á misminni byggðar, að hann bæði afsökunar. En hann gerir nú þvert á móti. Og ég hef ritað eftir honum hér hvað eftir annað, að ríkisstj. brezka fyrir milligöngu sendiherra síns hér hefði gert það að skilyrði fyrir viðurkenningu sinni á lýðveldi okkar, að nauðungarsamningurinn frá 1901 héldi gildi eins og aðrir nauðungarsamningar, sem gerðir hafa verið. við Dani. Og þessi hv. þm. fullyrðir líka, að Vilhjálmur Þór, þáverandi utanrrh., muni hafa lofað sendiherra Breta þessu á sínum tíma. Hér er um mjög alvarlegar fullyrðingar að ræða, bæði í garð brezku stjórnarinnar og eins í garð fyrrverandi utanrrh., Vilhjálms Þór, því að hafi hann af hálfu íslenzku ríkisstj. lofað þessu án þess að hafa Alþ. og yfirleitt alla aðila á bak við sig, þá er það mjög hæpin aðferð. Og það hefði líka verið heldur óviðkunnanlegt af hálfu brezku ríkisstj., að hún hefði farið að setja þessi skilyrði fyrir viðurkenningu á fullveldi Íslendinga.

En hvað hefur hv. 2. þm. Reykv. flutt fram af rökum fyrir sínum margendurteknu fullyrðingum, og hvaða gögn hefur hann rakið?

Þessar fullyrðingar hv. þm. eru byggðar á því, sem hann hafi heyrt þáverandi hæstv. utanrrh., Vilhjálm Þór, segja á fundi í utanrmn., að þetta hefði komið frá stjórn Breta sem skilyrði fyrir viðurkenningu þeirra á íslenzka lýðveldinu. Þetta eru einu og aleinu rökin, sem hv. 2. þm. Reykv. ber fram máli sínu til sönnunar. Gegn þessu hníga svo mörg og sterk rök, svo sterk og afgerandi, að þeir, sem héldu, að fullyrðingar hv. 2. þm. Reykv. væru réttar, hljóta að sjá strax, að svo getur ekki verið. Í fyrsta lagi er það brezki sendiherrann á Íslandi, sá sami, sem var 1944, og í öðru lagi Vilhjálmur Þór og yfirleitt allir, sem viðstaddir voru á fundi utanrmn., sem hv. þm. vitnar til, og þar á meðal bókari og ritari utanrmn., sem er skrifstofustjóri í utanrrn. Hefur hv. 2. þm. Reykv. getað leitt fram einn af þessum aðilum máli sínu til stuðnings? Nei, þvert á móti. Allt það, sem upplýst er frá þessum aðilum, gengur gegn fullyrðingum hv. þm. Vilhjálmur Þór sagði við hæstv. utanrrh. og hefur leyft honum að hafa eftir sér hér á Alþ., að um þetta hafi aldrei verið rætt við hann, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, þaðan af síður, að hann hefði nokkru slíku lofað, þar sem ekkert hefði verið rætt um þetta við hann. Ekkert bendir til þess, að sendiherra Breta á Íslandi muni hafa komið fram með þetta við ríkisstj. Enginn maður úr utanrmn. kannast við að hafa heyrt þetta — í það minnsta hafa ekki verið leiddar neinar líkur fyrir því —, sem hv. 2, þm. Reykv. talar um.

Ég hef átt sæti í utanrmn. og hef verið, held ég, á flestum fundum, sem haldnir voru um það leyti, sem lýðveldið var stofnað á Íslandi, og mig rekur ekki minni — til, að neitt slíkt hafi komið fram á þessum fundum í þeirri n. Og það var einmitt afstaða Íslendinga að leita ekki eftir viðurkenningu annarra ríkja á stofnun íslenzka lýðveldisins. Hins vegar var ljóst, skömmu áður en lýðveldið var stofnað, að það mundi verða viðurkennt af vissum stórveldum, þar sem þau mundu láta fulltrúa sína mæta fyrir sig á Þingvöllum 17. júní 1944 til þess að hylla íslenzka lýðveldið og votta því hamingjuóskir sínar þar á staðnum. Ég held, að það hafi því ekki komið neitt fram um það í utanrmn., að leita skyldi viðurkenningar Breta á lýðveldi okkar, og því síður, að það hafi verið gert. Og mig undrar það, ef ekki væri bókuð í gerðabók n. ekki ómerkari frásögn en sú, sem hv. 2. þm. Reykv. fullyrðir nú, að hafi farið fram af hálfu Vilhjálms Þór og n. á þeim dögum. Mér þykir slíkt ákaflega undarlegt, og það brýtur alveg í bág við þá viðteknu reglu, sem yfirleitt er höfð í utanrmn., að slíkt hefði ekki verið bókað, ef það hefði komið fram.

Þannig hníga öll rök og allir vitnisburðir gegn fullyrðingum hv. 2. þm. Reykv. Hann hefur ekkert máli sínu til stuðnings annað en það, sem hann staðhæfir, að hann muni réttilega. En hann staðhæfir líka meira en það, sem hann getur vitað, þar sem hann hefur nú staðhæft, að sendiherra Breta hér hafi gert þetta skilyrði og Vilhjálmur Þór hafi gengið inn á það. Hv. 2. þm. Reykv. getur ekki um þetta vitað, nema því aðeins að Vilhjálmur Þór hafi sagt frá því á fundi utanrmn., sem ég hygg, að enginn maður muni eftir nema þessi hv. þm.

Ég verð hins vegar að segja, eins og hæstv. utanrrh. tók fram, að ég hefði kosið, að hv. 2. þm. Reykv. hefði dregið að landi með fullyrðingar sínar. En í stað þess hefur hann ekki gert það, og þykir mér það miður, ekki endilega sjálfs hans vegna, því að ég ber ekki það mikla umhyggju fyrir honum, heldur vegna íslenzka ríkisins, að verið sé hvað eftir annað hér á Alþ. að reyna að vekja misskilning milli okkar og annarra ríkja, sem ekki er réttur. Slíkt leiðir aldrei til góðs og gæti orðið íslenzkum hagsmunum til tjóns, ekki sízt, ef íslenzkir þm. gera það.