17.02.1947
Neðri deild: 75. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í D-deild Alþingistíðinda. (5039)

281. mál, landhelgi Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Ég held, að hæstv. forsrh. sé bezt að gæta sjálfs sín, þegar hann talar um, hvað íslenzkum hagsmunum og íslenzku þjóðinni gæti orðið til tjóns, og setja sig ekki á háan hest til þess að dæma aðra í því efni. Ég býst við, að ég muni á þeim sviðum, þar sem mér er falið að gera eitthvað fyrir mína þjóð, standa nokkurn veginn á verði um hag og hagsmuni hennar, og þarf ég engra ráðlegginga frá hæstv. forsrh. í því efni.

Hvort hins vegar fleiri en ég muna nokkuð um þetta atriði, sem hér hefur verið deilt um, mun koma í ljós á sínum tíma. Ég hef ekki spurt alla nm. að því ennþá, en það mun verða nægur tími til í utanrmn. Ég er reiðubúinn að halda áfram umr. um þetta mál, þegar það kemur þar til umr.

Ég hvika ekki frá staðhæfingu minni, fyrr en ég sannfærist um, að ég hafi á röngu að standa. En ég álít, að ég hafi fengið þær upplýsingar, sem staðfesti það, sem ég hef sagt.