21.03.1947
Sameinað þing: 37. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í B-deild Alþingistíðinda. (505)

12. mál, fjárlög 1947

Frsm. samvn. samgm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti. Samvn. samgöngumála hefur haft með höndum sama hlutverk og áður á þingum hér, sem sé að fjalla um styrki til flóabáta, og er það einn liður af fjárl., sem nú eru til umr. N. hefur gefið út nál. á þskj. 449. og vil ég í öllum aðalatriðum vísa til þess.

Ég skal þegar geta þess, eins og kemur fram í nál., að forstjóri Skipaútgerðar ríkisins hefur haft með höndum ekki aðeins milli þinga umboðsmennsku í þessu efni f. h. ríkisstj. og Alþ., heldur hefur hann einnig aðstoðað n. og þar með komið nærri þessum málum á mjög virkan hátt með grg. sínum og till. Þessar till. sem hér eru gerðar í einstökum atriðum, eru því runnar undan hans rifjum að miklu leyti eða þá fram komnar í fullu samráði við hann.

N. hefur leyft sér, eins og reyndar áður, að skipta flóabátasamgöngunum, sem eru hinar eiginlegu strandferðir, þegar um flóa eða firði er að ræða, í hluta eftir lands- og staðháttum, sem sé að fyrst eru Faxaflóasamgöngur, þá Breiðafjarðarsamgöngur, Ísafjarðarsamgöngur, Norðurlandssamgöngur. Austfjarðasamgöngur og síðan Suðurlandssamgöngur að nokkru leyti. Þessi skipting er eðlileg, en hún er þó meira að vissu leyti miðuð við þá farkosti. sem haldið er úti á þessum leiðum, en að skiptingin sé gagnger. Þessir farkostir eru hinir smærri bátar, sem ekki standa beinlínis í sambandi við hinar svo nefndu strandferðir í fjárl., heldur hefur samgmn. þingsins verið falið að fjalla um þetta atriði, og hafa till. n. jafnan verið úrslitaorð og alla jafnan verið samþ. Þetta er í rauninni eina verkefni samvn., því að ella hlíta samgöngumálin meira meðferð d. og samgöngumn. hvorrar fyrir sig, þó að einstöku stór verkefni verði að koma til samvn.

Fjvn. hefur alla jafnan falið samvn. þetta starf. og eru till. n. fullráðnar og teknar upp í till. við fjárlagafrv. það, sem nú er verið að samþykkja. Skiptingin er síðan gerð af stjórnarráðinu samkvæmt því, sem lagt er til í nál. samvn.

Má að vísu um það segja, hvernig skiptingin er, að nokkuð öðruvísi mætti það vera, en annars vegar er það svo, að þetta er komið í nokkuð fastar skorður, og nauðsyn skapar það, að ekki hefur verið kleift að hverfa frá upphæðunum, eins og þeim hefur verið skipt, meðan, eins og ég gat um, aðalskiptingin er eftir farkostunum. Hver bátur eða hverjar samgöngur út af fyrir sig verða að fá sinn styrk. Þessum bátum er haldið úti af einstökum mönnum og félögum undir mjög misjöfnum aðstæðum, þannig að alltaf hefur verið tvísýnt um, hvort hægt væri að halda þessu gangandi eða hvort þeir aðilar gæfust upp eða ekki. Tilgangurinn hefur verið að halda þessu uppi og fá þessa aðila, sem hafa staðið bezt að vígi að annast um skipaferðir, til þess að halda þessu áfram, því að annars kostar hefði mátt gera ráð fyrir, að öngþveiti skapaðist. Meðan styrjöldin stóð, var þetta meira, en áður á vegum Skipaútgerðar ríkisins, því að þá var talið skylt, að hún hlypi í skarðið, hvenær sem þurfa þætti, og á sumum stöðum hefur skipaútgerðin orðið að taka þetta í sínar hendur.

Till. sú, sem gerð var af samvn. samgöngumála hið fyrra ár um styrk til flóabáta og samþ. var og sett í fjárl. þá, var að upphæð kr. 853.150.00. Nú mun svo hafa verið, og var að sjálfsögðu ríkisstj. líka vel kunnugt um það, að ekki yrði komizt af með minna. Reynsla ársins varð sú, að þetta dugði sums staðar ekki til, þótt alls sparnaðar væri gætt, enda þurfti þá mikilla aðgerða á sumum bátunum, sem að nokkru leyti voru styrktir þá, en að sumu leyti biðu eftir styrk. En þótt þetta lægi fyrir, þessar upphæðir. sem gátu ekki minni orðið og reynslan hafði sýnt, að ekki mættu minni vera, þá leyfði ríkisstj. sér samt að áætla útgjöld til flóabátaferða miklum mun minni, og hélt hún sér við það að áætla þetta því nær helmingi minna, en það átti að vera, 500 þús. kr. Nú sé ég, að fjhn. hefur tilgreint þennan mun, sem áætlunin 500 þús. kr. annars vegar gefur tilefni til og hins vegar till. samvn. samgöngumála nú, sem áætlar þetta kr. 916.200.00. Það er að forminu til rétt. að áætlunin var þessi og till. n., sem ég gat um, en það er í veruleikanum rangt, ef það á að þýða tæmandi samanburð á því, sem nauðsyn krefur, og því hins vegar, sem lagt er til út af sömu nauðsyn. Hér virðist ekki farið út í neinar öfgar og ekki um neitt að sakast. En hins skal ég einnig geta, sem er meginatriðið, að þótt ekki hafi þótt fært eða verjandi að haga áætluninni eða till. öðruvísi, þá standa þó vonir til, að á þessu ári breytist til batnaðar um samgöngur kringum landið og þá einnig á fjörðum og flóum, þegar hin nýju strandferðaskip koma, sem væntanlega verður á þessu ári, og það hefur n. fyllilega haft í huga, en með því að þetta er ekki orðið, þá var ekki hægt að gera fastlega ráð fyrir því, ef kleift ætti að vera að semja við hlutaðeigandi aðila fyrir vorið um uppihald þessara samgangna, því að út í hreina óvissu verður ekki samið við þessa aðila. En við þessu er eðlilegur varnagli, og leyfi ég mér að skýra frá því, að milli mín og hv. frsm. fjvn. hefur þetta verið til umr., og munum við nú báðir ásáttir um að láta þetta haldast eins og venja er til, þó að báðum sé ljóst, að frá þessu getur skeikað, og sem betur fer mun eyðast minna af þessu áætlaða fjármagni, en lítur út fyrir, ef svo verður, að strandsiglingarnar fara vaxandi og batna nú á þessu ári. En þessi varnagli felst í því skilorði, sem alltaf hefur fylgt þessum styrk, og vil ég leyfa mér að vitna til hans eins og hann er prentaður í fjárl. fyrir s.l. ár og eins í frv., sem hér liggur fyrir, og eru í höfuðatriðum þessir skilmálar þannig hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Skipaútgerð ríkisins hefur yfirumsjón með ferðum flóabáta, sem fara eftir fastri áætlun. Skilyrði fyrir greiðslu styrksins er, að fyrir liggi efnahags- og rekstrarreikningur 1946 frá útgerð þessara báta, ef styrkupphæð til þeirra það ár hefur numið yfir 1.000 kr. Ferðaáætlun 1947 og flutningsgjaldskrá sé samþykkt af Póst- og símamálastjórninni og Skipaútgerð ríkisins og reikningar ársins sendir henni, enda athugi hún, hversu rík sé þörf á ferðum hvers þess báts, er styrks nýtur úr ríkissjóði. Skip og bátar, sem njóta styrks úr ríkissjóði, eru skyldir til að flytja póst endurgjaldslaust, sé þess krafizt.“ — Og svo kemur eitt aðalatriði þessara skilmála: „Eigi skal styrkurinn greiddur að fullu, fyrr en skilríki hafa legið fyrir Skipaútgerð ríkisins um afkomu hlutaðeigandi báts á styrktímabilinu, þeirra er varanlegum samgöngum halda uppi á ákveðnu svæði, svo að sýnt sé, að styrksins hefur verið þörf, eins og hann var ákveðinn.“ — Ég vænti, að hv. fjvnm. og aðrir þm. sjái, að hér er ekki neitt átt á hættu, með tilliti til þess, sem ég vil leggja áherzlu á, að þetta er skilorðsbundið, þannig að af þessum styrk yrði ekki veitt meira, en þörf krefur. Ég vil leyfa mér að endurtaka — og mun það verða staðfest af hv. frsm. fjvn. — að milli okkar hv. frsm. n. hefur með þessum skilmálum orðið samkomulag um að láta svo búið standa við þessa till. Vona ég, að hún reynist ekki aðeins fullnægjandi, heldur verði þar eftir ástæðum frekar einhver afgangur, en halli.

Ég tel að svo stöddu ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um álit samvn. samgöngumála og vona, að þm. hafi af áliti hennar, sem útbýtt var fyrir nokkru, getað gert sér ljóst, úr hvaða umdæmi sem þeir koma, að hér er reynt að miðla málum eins og frekast verður á kosið.