21.03.1947
Sameinað þing: 37. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í B-deild Alþingistíðinda. (506)

12. mál, fjárlög 1947

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. fjvn. tók fram, hef ég ásamt hv. 6. landsk. þm. skrifað undir nál. með fyrirvara og lýst yfir því, að við mundum áskilja okkur rétt til að flytja nokkrar brtt., sem við höfum mælt með í n., en ekki fengið samþ. Þessar brtt. eru á þskj. 545, og vil ég leyfa mér að fara um þær nokkrum orðum.

1. brtt. er við 13. gr. D. VII. 2. Í stað „350.000“ í frv. komi: 600.000. Þetta rökstyðjum við með því, að þar sem hér sé um svo mikla þörf að ræða fyrir flugvallarstæði úti á landi, verði þeirri þörf ekki fullnægt með þeirri fjárhæð, sem í frv. greinir. Í frv. er þessi upphæð 200 þús. kr. minni, en á fjárl. í fyrra, og förum við fram á, að þessi upphæð verði hin sama og á síðustu fjárl. Ég vil minna á það, að árið 1945 voru fyrst sett fullkomin l. um flugvallarstarfsemi og flugvelli hér á landi, og þar er kveðið svo á, að alls skuli vera á landinu 39 flugvellir. Nú liggur í augum uppl. að eigi að framkvæma þetta til hlítar, þarf miklu meira fé, og mun reyndin þegar vera sú, að það fé, sem veitt var á síðustu fjárl., hafi verið of lítið, frekar en of mikið, og því sé ekki gerlegt að hafa það minna nú. Ég vil enn fremur benda á, að flugvallastjóri hefur lagt áherzlu á, að sérstök fjárveiting yrði ætluð til flughafnar á Austurlandi, en slíkt mundi ógerlegt, nema þessi fjárhæð væri veitt.

Þá er 2. brtt. okkar við 14. gr., um námsstyrki. Leggjum við til, að sú upphæð verði hækkuð úr 350 þús. kr. í 450 þús. kr. Þessari upphæð er úthlutað af menntamálaráði, og samkv. þeim upplýsingum, sem við höfum fengið þaðan, liggja fyrir um 300 umsóknir um þessa styrki, en þar á meðal eru um hundrað menn, sem notið hafa styrks áður, og hefur menntamálaráð upplýst, að ef sinna eigi þeim sömu mönnum, geti framhaldsstyrkir þeirra ekki numið minna samtals en um 216 þús. kr., og eru þá eftir um 133 þús. kr. handa tvö hundruð umsækjendum. sem liggur í augum uppi. að er allt of lítið. Af þessari ástæðu flytjum við brtt. um, að heildarupphæðin verði hækkuð um 100 þús. kr., til þess að hægt sé að fá viðunandi lausn. Enn fremur má geta þess. að um helmingur þessara nýju umsækjenda er fólk, sem ætlar að stunda alls konar verklegt nám, og öllum er kunnugt, hve okkur vantar fólk með verklega þekkingu í atvinnulífið nú.

3. brtt. er líka við 14. gr., um sundskyldu, og förum við þar fram á, að liðurinn verði hækkaður úr 120 þús. í 240 þús. Hér er í raun og veru um að ræða framkvæmd á löggjöfinni. Það er ákveðið í l., að hvert barn á Íslandi skuli læra sund, en ekki hefur verið hægt að framkvæma þessa löggjöf að fullu. m.a. vegna þess, að fé vantar til þess og sundstaði. Þetta hefur lagazt á seinni árum að því leyti, að sundstöðum hefur fjölgað, en féð hefur eingöngu farið til þess að greiða sundkennslu barna utan kaupstaðanna. Til þess að hægt sé að koma þessu í lag, telur fræðslumálastjóri, að ekki sé hægt að komast af með minna en 240 þús. kr., og er það sú upphæð. sem við förum fram á, að greidd verði.

Þá er 4. brtt. um að hækka byggingarstyrk til barnaskóla úr 2 millj. í 6 millj. og 900 þús., í stað þess að till. n. mun vera um 41/2 millj. Fyrir fjvn. hafa legið mjög nákvæmar skýrslur um þær barnaskólabyggingar, sem þegar eru í smíðum og óhjákvæmilegt er að smíða á þessu ári, og samkv. þeim upplýsingum er hluti ríkissjóðs af þeim byggingum, sem þegar er byrjað að byggja, ekki minni en 880 þús., sem ríkissjóði ber að greiða samkv. l. Nú má taka fram, að líkur eru til, að 1/3 alls framlagsins þurfi ekki að greiða fyrr en á næsta ári, því að byggingarnar verða full tvö ár í smiðum, en þá verða eftir nærri 6 millj. kr., sem þau sveitarfélög, sem hafa barnaskólabyggingar í smíðum, eiga kröfu á ríkissjóð á þessu ári. Samkv. þessari sömu áætlun mun ríkissjóður þurfa að greiða 6,8 millj. til bygginga, sem þegar er ákveðið að hefjast handa um og teljast mega alveg óhjákvæmilegar, og er þá auðséð, að ekki er of mikið þótt við leggjum til, að lagðar séu fram í þetta 6 millj. og 900 þús. Enn fremur má minna á það, að síðan þessi áætlun var gerð hefur vísitalan hækkað og byggingarkostnaður því aukizt. — Ef þessi till. nær ekki fram að ganga, höfum við borið fram varatill. um 5 millj., og er það sú upphæð, sem einu sinni var búið að samþykkja í n., þótt n. breytti þeirri ákvörðun síðar.

Um 5. brtt. má svipað segja og um till. um barnaskólana, þó að munurinn sé ekki eins mikill hér og þar.

6. brtt. er um námsflokkastarfið. Það var árið 1940, að ákveðinn var ríkisstyrkur til þess, þannig að ein króna skyldi greidd fyrir hverja kennslustund og 10 aurar fyrir hvern nemenda á kennslustund. Nú er öllum kunnugt, að kostnaður og kennslukaup hefur hækkað mjög mikið, en samt sem áður hefur þessi styrkur ekki verið hækkaður. Þegar þessi styrkur var fyrst ákveðinn, voru námsflokkarnir 33, en nú eru þeir 71. Er því ljóst, að till. n. er allt of lág, enda liggja fyrir um það útreikningar, að til þess að þessi upphæð verði sambærileg við það, sem áður var ákveðið, mundi ekki veita af kr. 20.100, og er það sú upphæð, sem við förum fram á í stað 13.750, eins og lagt er til í till. fjvn.

Þá er það 7. brtt. Þar er lagt til, að styrkur til skóla fyrir forstöðukonur og starfsstúlkur barnaheimila sé ákveðinn 32.500 kr., gegn jafnháu framlagi frá bæjarsjóði Reykjavíkur. Þetta er nýr liður, og vil ég í þessu sambandi benda á, að þessi skóli er þegar tekinn til starfa, og hefur bæjarstjórn Reykjavíkur ákveðið að leggja fram helming af stofnkostnaði hans, ef ríkið vill leggja fram hinn helminginn á móti. Barnavinafélagið Sumargjöf mun hafa komið þessum skóla í gang fyrir áskorun frá menntmrn., bæði fyrir ríki og bæ, en ef ríkið vill ekki leggja til þetta framlag, er hætta á, að skólinn verði að hætta störfum. Nú er hins vegar vitað mál, hversu nauðsynlegt það er að halda þessum skóla uppi, þar sem barnaheimilum fjölgar og nauðsyn er á sérmenntuðum konum til þess að hafa forstöðu þeirra starfa með höndum. Við leggjum því til, að hér verði tekinn upp nýr liður, eins og áður segir.

8. brtt. er um að hækka tillag til Alþýðusambandsins úr 10.000 kr. í 25.000 kr. Virðist hér ekki óhóflega farið í sakirnar, þegar tekið er tillit til þess, hvað önnur stéttarsamtök fá mikið fé úr ríkissjóði til hvers konar starfa.

Þá er það 9. brtt.. sem er við 14. gr. um tillag til rannsókna á þroskastigi barna. í fjárlagafrv. er nokkur upphæð ætluð til þessarar starfsemi, eða 35,750 kr., en við leggjum til, að í staðinn komi rúml. 81 þús. kr., og vil ég í þessu sambandi benda á, að hér liggja fyrir mjög ákveðin meðmæli frá fræðslumálastjóra og bæði fyrrv. og núv. menntmrh. með því, að Alþ. sjái sér fært að hækka þessa upphæð sem þessu nemur. Ástæðan er sú, að sá maður, sem hefur þetta aðallega með höndum, hefur svo miklum störfum að gegna, en þetta er of mikið starf fyrir einn mann og því nauðsynlegt, að hann geti fengið sér aðstoðarmann til hjálpar, vegna þess að sá sérfræðingur, sem hér um ræðir, notast ekki að fullu við hin sérfræðilegu störf, ef hann á að safna skýrslum og snúast í öðru, og er því nauðsynlegt, að hann geti fengið aðstoðarmann.

Þá er 10. brtt. við 15. gr. Til Alþýðusambands Íslands: a. Til útgáfu sögu verklýðshreyfingarinnar kr. 15.000. b. Til útgáfu söngvasafns og til söngiðkana á vegum verklýðssamtakanna kr. 50.000. Í sambandi við fyrri liðinn er að geta þess, að hér er aðeins um framhaldsframlag að ræða. Á síðustu fjárl. voru veittar til þessa 12.000 kr. Útgáfa þessarar sögu er nú í undirbúningi, en mun vafalaust kosta mikið fé, svo að ekki er hægt að segja, að hér sé farið að með frekju, þegar um 15 þús. kr. er að ræða. Um hinn liðinn er það að segja, að ætlazt er til, að safnað verði og gefin út nótur og söngvar, sem vel viðeigandi er að syngja á samkomum og mótum verkalýðsins, og slík söngvasöfn eru og víða til í nágrannalöndum vorum.

11. brtt. er við 15. gr. um, að styrkur til skálda og rithöfunda skuli hækkaður um 50 þús., eða úr 150 þús. í 200 þús. Varatill. er svo 175 þús., og þar sem vitað er nú, að fjárlög á þessu ári munu verða miklum mun hærri en á s.l. ári, þá er þetta ekki mikil hækkun.

12. brtt. er einnig við 15. gr. Þar komi nýr liður: Til Gunnlaugs Schevings, byggingarstyrkur 25 þús. kr. Hér er um listmálara að ræða, sem ráðizt hefur í kaup á húsi í Hveragerði. Það var honum alveg nauðsynlegt, því að hann þurfti á að halda vinnustofu og öðru húsplássi. Þessi styrkur er því svipaður og aðrir listamenn fá.

Þá er það 13. brtt., við 16. gr., og er um það að hækka styrkinn til búreikningaskrifstofunnar. Þar komi 59.250 í staðinn fyrir 40.000. Þessi starfsemi hefur átt sér stað nú um nokkur ár, og ég hygg, að engum blandist hugur um gagnsemi hennar. Hins vegar er það ljóst, að þessi starfsemi er ekki það mikil, að hægt sé að ætlast til, að hún gefi rétta hugmynd um tekjur bænda. Þess vegna tók forstjóri skrifstofunnar það ráð að ráða sérstakan mann til þess að ferðast um landið og leiðbeina bændum um hald búreikninga. Þetta hefur eðlilega í för með sér aukinn kostnað. Allur kostnaðurinn við þessa starfsemi er áætlaður sundurliðaður á þessa leið: Laun forstjóra 7.000 kr., laun aðstoðarmanns 28 þús. kr., laun skrifstofustúlku 7.250 kr. og ferðakostnaður 10 þús. kr., og skrifstofu- og húsaleigukostnaður 7.000 kr. Þetta verða þá 59.250 kr. í staðinn fyrir þær 40 þús. kr., sem áætlaðar voru.

Þá er það 14. brtt. við 16. gr., um byggingarstyrk til iðnskóla. Með brtt. er gert ráð fyrir, að þessi styrkur verði hækkaður úr 300 þús. upp í 750 þús. Byggingarnefnd iðnskólans sendi fjvn. upplýsingar, og samkvæmt þeim er bygging þegar hafin og samið um við byggingarmeistara, að húsið verði fokhelt í nóvember n.k.. og eftir samningi við byggingarmeistara var talið, að húsið mundi kosta 31/2 millj. kr., en síðan hefur verið keypt efni, og með fleiri kostnaðarliðum má gera ráð fyrir, að kostnaður verði, þegar húsið er fokhelt, um 41/4 millj. Til greiðslu þessa kostnaðar hefur byggingarnefnd samtals 1 millj. og 800 þús. frá ríki og bæ. Þá vantar 2 millj. og 450 þús. til þess að geta greitt áfallinn kostnað. Hins vegar gat byggingarnefnd þess, að ef til vill þyrfti ekki að greiða alla upphæðina fyrir næstu áramót, og gætu þeir komizt af með 11/2 millj. alls frá ríki og bæ, og legg ég því til, að 750 þús. kr. verði lagðar fram af ríkinu, og gerandi er ráð fyrir. að bærinn leggi annað eins fram á móti. Um þörfina blandast víst engum hugur. Í skólanum eru víst 8–9 kennslustofur, en umsækjendur um skólann um það bil 800. Öllum er víst ljós þörfin fyrir iðnaðarmenn í landinu, og nú þegar verið er að setja löggjöf um iðnfræðslu, virðist ekki ótímabært að leggja áherzlu á byggingu þessa skóla.

15. brtt., við 17. gr., er um að hækka styrkinn til Kvenréttindafélags Íslands úr 15 þús. í 50 þús. Engum blandast víst hugur um gagnsemi kvenfélaganna og hið merka starf, sem þau hafa unnið á ýmsum sviðum víðs vegar um landið. Kvenréttindafélagið hefur nú skrifstofu hér í Reykjavík, og eins og gefur að skilja, þarf fé til þess að hafa hana.

Auk þess verður það að kosta árlegan fulltrúafund, og krefur það töluverðra fjárútláta. Ég vil því eindregið leggja til, að þessi hækkun, sem um getur, verði tekin til greina.

Þá er það 16. brtt., við 17. gr. Þar komi nýr liður, um útrýmingu heilsuspillandi íbúða samkvæmt III. kafla laga nr. 44 7. maí 1946, um opinbera aðstoð við byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum, og er gert ráð fyrir, að lagðar verði til þessa 2 millj. kr. Varatill. er 900 þús. kr. Í sambandi við þetta vil ég benda á það, að í l., sem samþ. voru á síðasta þingi um opinbera aðstoð við byggingar íbúðarhúsa í kauptúnum og kaupstöðum, er beinlínis ákveðið, að þar sem nauðsyn krefur, beri sveitarstjórnum í kaupstöðum og kauptúnum að ráða bót á húsnæðisvandræðunum, og er til tekið, að til þess skuli viðkomandi sveitarstjórn njóta aðstoðar eftir þeim l., sem það ákveður, og sú aðstoð er, að ríkissjóður skuli láta því sveitarfélagi, sem reisa á íbúðirnar, í té 75% af stofnkostnaði hverrar íbúðar samkv. þessum kafla. Ég vil benda á það, að ef ríkið sér. sér ekki fært að láta þetta fé af mörkum, þá eru þessi l. aðeins pappírsgögn, sem ekkert er leggjandi upp úr. Um þörfina fyrir þessar byggingar þarf ekki að deila. Ég legg því til, að þessi nýi liður komi inn, en um hann var hæstv. fyrrv. félmrh. búinn að ræða í n. sem allra minnsta tillag, sem hægt væri að komast af með til þessara hluta.

Þá vil ég geta um 17. og síðustu brtt., en hún er við 20. gr., og er hún á þá leið, að fjárstyrkurinn til byggingar heimavistarhúss við Menntaskólann á Akureyri skuli vera 700 þús. kr. í stað 250 þús. kr. Hús þetta er nú í smiðum, og samkvæmt sögn skólameistara er ekki hægt að komast af með minna en 500 þús., til þess að koma byggingunni undir þak fyrir næsta haust og 200 þús. til þess að fullgera aðeins aðra álmuna, sem mundi þá verða heimavist fyrir 34 nemendur. Um þörfina á þessu er ekki að deila, því eins og vitað er, er Menntaskólinn á Akureyri fyrir allt landið að kalla má utan Reykjavíkur. Allir vita, hve erfitt hefur verið fyrir skólanemendur utan af landi að fá húsnæði í Reykjavík, og þess vegna er hin brýnasta þörf fyrir stóra og góða heimavist á Akureyri.

Ég ætla mér svo ekki að fara fleiri orðum um þessar brtt., en vona, að þm. sjái nauðsyn þeirra og sjái sér fært að taka þær til greina.