06.02.1947
Sameinað þing: 26. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í D-deild Alþingistíðinda. (5067)

285. mál, nýir vegir og brýr

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég held, að hv. þm. Barð. megi vera mér og hv. þm. S-Þ. þakklátur fyrir það að flytja till. á þskj. 341. Við fluttum hana sem sjálfstæða till.; og hún nær yfir allt, sem brtt. á þskj. 298 felur í sér. — Ég hef alltaf skilið hv. þm. Barð., þegar hann hefur verið að tala um, að þorpin í Barðastrandarsýslu þurfi að fá mjólk úr sveitunum, og hef ég ekki mælt móti því, að greitt yrði úr þeim málum, sem hv. þm. Barð. hefur borið fram hvað samgöngumál snertir. Þess vegna finnst mér óeðlilegt, þegar þessi hv. þm. kemur fram með till., er gengur í þá átt að vísa okkar till. frá. Till. okkar á þskj. 128 fer fram á það, að leiðin um Holtamannaafrétt og Sprengisand verði athuguð, og þótt sú rannsókn fari fram, fæ ég ekki séð, að það geti orðið hindrun fyrir því, að bót fáist á samgönguleiðum í Barðastrandarsýslu, því að það eru alveg óskyld mál, en þegar till. á þskj. 341 er komin fram, sem flutt er af hv. þm. S-Þ. og mér, og ef hún verður samþ., þá er brtt. hv. þm. Barð. á þskj. 298 óþörf, því að þær ná yfir sama efni, eins og áður er sagt.

Þegar svona gott mál er flutt, eins og till. á þskj. 128, þá ætlumst við til, að þótt hv. þm. Barð. þurfi að koma sínum áhugamálum fram, þá reyni hann að gera það á þann hátt, sem þinglegur er, en ekki um leið að vísa frá góðu og þörfu máli, sem spillir á engan hátt fyrir framgangi þeirra mála, sem hann ber fyrir brjósti. — Þessi till. fer til allshn., verður tekin þar til athugunar, og er ekkert á móti því að taka hina till. til athugunar á ný og hvort eigi að flytja þær allar sameiginlega eða sem sjálfstæðar till., en um leið og hv. þm. Barð. fær sitt mál fram, getur hann búizt við því, að við, sem flytjum till. á þskj. 128, fáum einnig það fram, sem við óskum eftir, af því að við teljum það líka gott mál.