06.02.1947
Sameinað þing: 26. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í D-deild Alþingistíðinda. (5068)

285. mál, nýir vegir og brýr

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. — Mér skilst á hv. þm. Barð., að hann vilji fá hjá mér upplýsingar um, af hverju stafi sá dráttur, sem hann telur, að orðið hafi á rannsókn vegastæða í Barðastrandarsýslu. Ég er ekki undir það búinn að svara því til fulls, en hins vegar er mér kunnugt um, að höfuðástæðan er sú, að vegamálaskrifstofan hefur meiri störfum að sinna en hún kemst yfir. Vegamálaskrifstofunni berast á hverju ári miklu fleiri verkefni en þar er hægt að ljúka með þeim mannafla, sem hægt hefur verið að fá til skrifstofunnar, því að eins og kunnugt er, hefur verið mjög mikill hörgull á verkfróðum mönnum á þessu sviði. Þá minntist hv. þm. og á línurit, sem vegamálastjóri hefði átt að semja um vegi, og taldi, að það hefði ekki verið gert. Ég man ekki betur en að vegamálastjóri hafi fyrir alllöngu síðan sýnt mér þetta línurit, og er þar hægt að fá glöggt yfirlit yfir, hvernig málin standa á hverjum stað.

Hvað viðvíkur þessari sérstöku þáltill. hv. þm. S-Þ. og hv. 2. þm. Rang., sem nú liggur fyrir á þskj. 341, skal ég taka það fram, að ég hef ekkert við það að athuga, að hún verði samþ., en hvort sem hún verður samþ. eða ekki, verður látin fara fram sú athugun, sem mögulegt er að láta gera á þeim leiðum, sem talið er, að helzt liggi á, en hvað hægt er að fara langt í þeim efnum, hlýtur á hverjum tíma að vera undir því komið, hversu margt starfsfólk fæst til verksins. Það er ekki sanngjarnt að gera þær kröfur til þessarar skrifstofu frekar en annarra, að hún geti unnið meira en sæmilega fullt verk, þótt mér sé kunnugt um, að starfsmenn vegamálaskrifstofunnar vinna oft miklu lengur en venjulegur vinnutími má kallast. Ég tel, að með þeirri till., sem hér liggur fyrir, sé fullnægt öllu réttlæti, því að þar er enginn staður tekinn fram yfir annan, þannig að sjónarmið allra ættu að geta mætzt. Það væri að vísu ekki óeðlilegt, að ákvörðun yrði tekin um það, í hvaða röð þessar athuganir yrðu gerðar, og yrðu að sjálfsögðu skiptar skoðanir um það atriði, en þessi till. hefur þann kost, að hún tekur engan stað fram yfir annan, en vegamálaskrifstofan situr að mikilli þekkingu í þessum efnum og getur að minni vitneskju bezt dæmt um það, hvar þessara athugana sé mest þörf. Ég get því mjög vel fellt mig við, að þessi till. verði samþ.