21.03.1947
Sameinað þing: 37. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í B-deild Alþingistíðinda. (507)

12. mál, fjárlög 1947

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég er hér flm. að nokkrum brtt., og mun ég mæla hér nokkur orð viðvíkjandi þeim. Það er þá fyrst 16. brtt. á þskj. 560. og er hún við 13. gr. A. VI.2, um kaup á vegavinnuvélum, og er þar lagt til, að í staðinn fyrir „500 þús.“ komi: 1 millj. Ég tel það mikið nauðsynjamál, að vegamálastjóra sé gert kleift að festa kaup á fleiri og fullkomnari vegavinnuvélum og að undinn sé bráður bugur að útvegun þeirra. Þær vélar, sem til eru og hafa verið notaðar, hafa margar reynzt ágætlega. svo sem mokstursvélar og fleiri, og fjölgun þeirra mundi leiða til þess, að vegir yrðu miklum mun fljótar lagðir og auk þess betri. því fé, sem varið yrði til kaupa á þessum vélum, yrði því vafalaust mjög vel varið og mundi spara ríkissjóði geysimikil útgjöld við vegalagningu á landinu.

Þá legg ég til, að VI. liður C. í 13. gr. verði orðaður svo: Til kaupa á áhöldum og vinnuvélum, og verði þessi liður einnig hækkaður í 1 millj. úr 500 þús. kr. Hér er um að ræða þörf, sem ef til vill er enn þá brýnni, en þörfin fyrir vegavinnuvélar, því að hér er um að ræða m.a. vélar, sem bráðnauðsynlegar eru til hafnargerða og lendingarbóta, en til þess vantar svo tilfinnanlega vélar, að segja má, að til vandræða horfi í þeim efnum, og líkur eru fyrir, að ríkið verði að fá að láni vélar hjá einstaklingum. Það er hart, að ríkið skuli dragast aftur úr einstaklingum um vélakaup. og má ekki lengur við svo búið standa. Það fé, sem lagt yrði til þessa, væri langt frá því að vera eyðslufé, og með kaupum þessara véla mundi sparast mikið fé. Með því ástandi, sem nú ríkir í þessum efnum, er ég hræddur um, að ríkið verði að taka ýmsar vinnuvélar á leigu hjá einstaklingum, þegar vinna þarf að opinberum mannvirkjum, en slíkt ástand er alveg óþolandi, og því nauðsynlegt, að ríkið eigi vélarnar sjálft og sem bráðast verði unnið að því að útvega fljótvirkar og öruggar vélar, sérstaklega til vega- og hafnargerða.

Þá er það 23. brtt. á þskj. 560, um lendingarbætur í Grafarnesi. en þar legg ég til, að komi 150 þús. í stað 75 þús., sem ákveðnar eru í frv. Þarna hefur verið byrjað á lendingarmannvirkjum, en ég tel nauðsynlegt að vinna þarna bæði betur og hraðar. Þorpið stækkar óðum, og íbúar þess hafa sýnt töluverðan myndarskap í ýmsum greinum. Þeir ætla nú að fara að byggja frystihús, og það hefði þegar verið gert, ef betur hefði verið gengið frá lendingunni og hægara hefði verið að fá lán til þess. Þá hafa þeir einnig keypt nokkra báta, og þess vegna er nauðsynlegt. að lendingarskilyrði séu góð.

Þá er hér önnur brtt., nr. 29 á sama þskj. um lendingarbætur á Vopnafirði. Þar komi 200 þús. í stað 100 þús. Það er nauðsynlegt, að á Austfjörðum, einhvers staðar á hentugum stað, risi öflugur útgerðarbær. Út af Austfjörðum eru fiskimið með ágætum, en útlendingar sitja að þeim að miklu leyti, sakir þess að Íslendingar hafa ekki aðstöðu til þess að sækja þessi mið verulega. Ég vildi hafa borið fram veigameiri till. um þetta atriði, en sá mér það ekki fært að þessu sinni. og tel, að þessi till. gæti orðið nokkuð til bóta.

Næsta brtt. er sú 32., við 15. gr. Þar komi nýr stafliður, sá 10., og er hann til viðhalds á Snorragöngum í Reykholti. Þegar ég sá þau síðast, þessi gömlu göng fyrir ofan laugina, þá fannst mér hætta á, að þau færu að siga saman. Ég athugaði þetta þó ekki nákvæmlega, sá, að þarna var geymt alls konar rusl. Mér finnst, að ekki sé svo mikið til af gömlum mannvirkjum hér á landi, að við megum láta þau grotna niður án þess að nokkuð sé að gert. Við ættum að reyna að halda þeim við í sínu upprunalega formi og reyna að koma í veg fyrir, að þau skemmdust. Það hefur komið fram á Alþ. viðleitni í þessa átt, og ég vona, að þessi litla till. finni náð fyrir augum þess.

Þá er það síðasta brtt., sem ég vildi mæla með. Hún er nr. 38 á sama þskj., og er hún við 16. gr. D.VI, fyrir 2. og 3. tölulið komi: Kostnaður við boranir. Þessi upphæð, sem hér er farið fram á, er sú, sem rafmagnseftirlitið fór fram á upphaflega, og má það ekki minna vera. Í frv. er svo ráð fyrir gert, að allir 3 töluliðirnir kosti rúma 1 millj., svo að till. er ca. 500 þús. kr. hækkun, og eins og ég hef áður sagt, er það nákvæmlega sú hækkun, sem rafmagnseftirlitið fór fram á. Ég vil því eindregið mæla með því, að þetta fé verði veitt. Það er svo um þessar gufuvirkjanir, að þær eru alveg á tilraunastigi, og ég tel nauðsynlegt að gengið sé sem fljótast úr skugga um, hvort þessar virkjanir séu ekki miklu ódýrari, en vatnsvirkjanir. Við megum ekki horfa um of í þann kostnað, sem af tilraununum leiðir, því að hér getur verið um að ræða afl, sem kann að vera margfalt ódýrara en vatnsafl, og það minnsta, sem við getum, er að fallast á það, sem sérfræðingar fara fram á. Ég vildi því mæla eindregið með því, að þm. samþykki þessa hækkun.

Þetta eru þær brtt., sem ég er 1. flm. að, og vona ég, að hv. þm. sjái sér fært að fylgja þeim.