06.02.1947
Sameinað þing: 26. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í D-deild Alþingistíðinda. (5072)

285. mál, nýir vegir og brýr

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég skal ekki deila mikið við hv. þm. S–Þ., en nú þekkti ég hann í sinni síðustu ræðu, þegar hann var orðinn baráttumaður fyrir sérstöku máli, en skýldi sér ekki á bak við eitthvað annað. Ég er honum því þakklátur fyrir þessa ræðu. En það, sem málin snúast nú aðallega um, er það, hvort Alþ. vill frekar taka upp þá stefnu að leggja vegi um óbyggðir en byggðir, sem nauðsynlegt er fyrir atvinnuvegina. En víðvíkjandi því, sem hæstv. samgmrh. sagði, að einn meðnm. minn í fjvn. hafi lýst því yfir við sig nú undir umr., að línuritið um ástandið í vegamálum hafi verið lagt fram í fjvn., þá lýsi ég yfir því, að þetta er misskilningur. Línurit þetta hefur aldrei verið lagt fram í n., nema þá að mér fjarstöddum, en ég veit þó ekki til þess, að mig hafi vantað á nokkurn fund í n., að minnsta kosti er það ekki bókað.

En í þál. á þskj. 568 frá 3. des. 1943 segir svo: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta gera línurit, er sýni vegi landsins í km í hverri sýslu, sem hér segir:

1. Þjóðvegi:

a. akfæra, uppbyggða vegi,

b. akfæra ruðningsvegi;

c. samþykkta, en ógerða vegi“ — og enn fremur um sýsluvegi, fjallvegi og hreppavegi eftir sams konar flokkun. En þetta línurit hefur aldrei legið fyrir, og eftir því hefur fjvn. beðið. Enn fremur segir í þessari þál.: „Með línuritinu skulu fylgja upplýsingar um, að hve mörgum bæjum í hverri sýslu sé unnt að flytja vörur eftir vegum í a- og b-flokkum hér að ofan og að hve mörgum bæjum í hverri sýslu sé aðeins unnt að flytja vörur eftir vegum í c-flokkum hér að ofan. Upplýsingarnar skal miða við 1. jan. 1944.“ Þessar upplýsingar hafa ekki legið fyrir. Vegamálastjóri hefur að vísu gefið n. upplýsingar um nokkur atriði með partakortum, en línuritið, sem afhenda átti öllum þm., hefur ekki komið fram. Hæstv. samgmrh. hélt því fram, að þm. væri gjarnt að ota sínum tota, og ætti það ekki sízt við um mig. Vill ekki þessi hæstv. ráðh. líta til baka og minnast þess, að hann á síðasta þingi reyndi að fá 250 þús. kr. framlag í Krýsuvíkurveginn, en það var fellt. Einnig samþykkti þá Alþ. að leggja, fram fé í ákveðna vegi gegn till. vegamálastjóra, sem á þó að vera einhver Salómon í þessum efnum. Ég held, að hæstv. samgmrh. ætti einnig að minnast þess, að hann hefur tekið eða látið taka til Krýsuvíkurvegarins 200.000 kr. fram yfir fjárveitingu Alþ. og veitt að öðru leyti hundruð þúsunda til vegagerða fram yfir það, sem Alþ. hefur samþ. Áreiðanlega getur ekki hjá því farið, að hann og vegamálastjóri verði fyrr eða seinna að bera ábyrgð á þessum aðgerðum.