21.03.1947
Sameinað þing: 37. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í B-deild Alþingistíðinda. (508)

12. mál, fjárlög 1947

Hermann Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vildi ræða hér lítils háttar þær brtt. við fjárlagafrv., sem ég hef lagt fram, og er það í fyrsta lagi brtt. við brtt. á þskj. 542, um það að hækka styrk til hafnargerðar í Hafnarfirði. Ástæðan er sú, að á undanförnum árum hefur verið unnið að hafnargerð í kaupstaðnum, og hefur bærinn lagt fram miklu meira fé — ekki kannske meira en honum ber — en bærinn hefur alltaf verið á undan ríkissjóði, hvað snertir fjárframlög til hafnargerðarinnar. Bezt hefur það komið fram í því, að þrátt fyrir það, að á s.l. ári væri lítið unnið við hafnargerðina, var fjárveitingin frá ríkinu samt ekki nóg til þess að samsvara þeim innistæðum, sem Hafnarfjörður raunverulega átti hjá ríkinu vegna þess framlags, sem Hafnarfjörður lagði fram. eftir því sem venja er til um greiðslur til slíkra framkvæmda. Miðað við þetta legg ég til, að þetta framlag verði hækkað úr 330 þús., sem gert var ráð fyrir í brtt. n., í 600 þús., en eins og allir hljóta að sjá, er brýn þörf fyrir góða höfn í Hafnarfirði.

Í öðru lagi hef ég borið fram brtt. við fjárlagafrv., og er hún við 15. gr. A., Vl.30, og komi þar nýr liður, um lesstofufulltrúaráðs verklýðsfélaganna í Hafnarfirði, og legg ég til, að styrkurinn til hennar verði 5 þús. kr. Varatill. er 3 þús. kr. Ástæðan fyrir þessari brtt. er sú, að hafnfirzkum verkalýð er nauðsyn á stofu þessari, og hefur verkalýðsfélag Hafnarfjarðar ákveðið að stofna hana. Það á nokkrar bækur, þótt lítið sé. Ríkisvaldið og Alþ. hafa tekið afstöðu til þessara lesstofa með því að veita ákveðna upphæð til þeirra víðs vegar um land, t.d. í Reykjavík og viðar. Mér finnst ekki nema sanngjarnt, að hafnfirzkur verkalýður njóti þess sama og verkalýður annars staðar á landinu og fái þennan styrk til lesstofunnar.

Þá hef ég leyft mér að bera fram brtt. við fjárlagafrv. um, að styrkur til Leikfélags Hafnarfjarðar hækki úr 3 þús., eins og lagt er til í frv., upp í 6 þús. Ástæðan fyrir brtt. minni er sú, að leiklistarstarfsemi hefur aukizt mjög á síðari árum í Hafnarfirði. og auk þess sé ég í frv., að gert er ráð fyrir að veita sumum stöðum úti á landi 6 þús. kr. styrk í þessu skyni. Finnst mér því eðlilegt, að Hafnarfjörður fái að njóta sama réttar og þeir.

Síðasta brtt. mín við fjárlagafrv. fer fram á, að styrkur til bókasafns verkamanna hækki úr 4 þús. kr. í 10 þús. kr. Ástæðan fyrir þessari brtt. er sú. að 4 þús. kr. eru að mínu viti allt of lítil upphæð miðað við það, hversu mikið gagn og ánægju verkamenn hafa af því að eiga aðgang að sæmilegu bókasafni. 10 þús. kr. eru ekki nægilegar í þessu skyni, en miklu nær sanni og kæmu að miklu meira liði, en 4 þús. kr.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara frekari orðum um þessar brtt. mínar, en vil leyfa mér að vænta, að hv. þm. taki þeim með skilningi og samþykki þær.