10.02.1947
Sameinað þing: 27. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í D-deild Alþingistíðinda. (5091)

333. mál, húsaleigulöggjöf

Flm. (Jónas Jónsson):

Þetta mál hefur nú verið nokkuð til umr. á undanförnum þingum, en ekki borið árangur, og hefur myndazt hér á landi sú sérstaka aðstaða, að við höfum mikið óhentugri húsaleigulöggjöf en nokkur þjóð í nágrannalöndunum. Meðan á stríðinu stóð, var hér sett löggjöf til tryggingar leigjendum, og var þá gert ráð fyrir því, að leigjendur gætu tæplega farið úr sínu húsnæði nema vegna vanskila, og þetta hefur svo haldið áfram að valda óþægindum fyrir lífið í kaupstöðunum, þar sem fólk situr í nauðarsamningum. Þessi aðferð er ekki viðhöfð neins staðar í öðrum löndum, heldur er þeirri tryggingu, sem menn vilja við koma, þannig háttað, að húseigandi má segja upp leigu, en húsaleigun. tryggir, að húsnæði sé notað. Þar er ekki leyfilegt að hafa ónotað húsnæði, en menn eru ekki þvingaðir til að hafa þar menn, sem þeim eru ógeðfelldir. Nú hefur þetta í Reykjavík orðið ákaflega umbrotasamt. Bærinn hefur vaxið mikið, og það hafa verið byggðar nýjar íbúðir, og húsaleigan í þessum húsum er mjög há og hærri en í gömlu húsunum. Þar sem vísitalan er miðuð við gömlu húsin, þá leiðir það af sjálfu sér, ef það er nauðsynlegt að byggja vísitöluna á húsaleigu, að það er óhentugt, að mikill hluti bæjarbúa hafi miklu hærri húsaleigu en viðurkennt er í vísitölunni. Við þetta skapast ósamræmi í bænum, þannig að fjöldi manna, sem hefur við sömu lífskjör að búa, býr við misjafna aðstöðu að þessu leyti, sumir hafa dýra húsaleigu, aðrir lága, án þess að hægt hafi verið að gefa á því eðlilega skýringu. Eins og liggur í augum uppi, þar sem hér er um fastbundna ákvörðun að ræða, þá kemur þetta illa niður. Oft eru efnaðir menn í ódýrri leigu hjá fátæku fólki, og þetta ójafnræði og réttleysi hefur haft mikil áhrif á viðbúð manna í þessum húsum, og er það einkennilegt, hvers vegna við Íslendingar þurfum að ganga nær persónurétti manna í þessum efnum en gert er í öðrum löndum. Þess vegna er það, að ég álít rétt að leita eftir því, hvort hæstv. Alþ. vill ekki taka þetta mál föstum tökum og fela ríkisstj. að reyna að leysa þennan vanda Reykjavíkur og annarra kaupstaða á þeim grundvelli, sem annars staðar ríkir, grundvelli, sem er samboðinn hugsunarhætti, sem ríkir í þeim bjarta heimi, þar sem við eigum heima. Það er enginn efi á, að slík breyt. mundi auka húsrýmið. Það er vitað, að hér í Reykjavík eru 400 íbúðir, sem menn þora ekki að leigja. Slíkt mundi ekki eiga sér stað, ef það frelsi ríkti í þessum málum, sem hér er gert ráð fyrir. Það er ánægjulegt, að hæstv. félmrh. skuli vera viðstaddur. Vil ég fyrir fram gera ráð fyrir því, að hann sjái sér fært að hrinda þessu máli áleiðis eftir þessari leið eða annarri betri. Vil ég vænta þess, að þessu máli verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. allshn. til skjótrar fyrirgreiðslu.