10.02.1947
Sameinað þing: 27. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í D-deild Alþingistíðinda. (5095)

333. mál, húsaleigulöggjöf

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Út af því, sem komið hefur fram í umr. um það, að störf mþn., sem tók að sér endurskoðun húsaleigulöggjafarinnar, hefðu gengið seint, þá skal ég ekki um það dæma, því að ég er nýlega að þessum málum kominn. Hitt er mér kunnugt, að ég talaði fyrir helgina við form. þeirrar n., sem hefur þessa endurskoðun með höndum, og hann tilkynnti mér, að eftir eina viku mætti vænta þess, að till. frá mþn. lægju fyrir. Annað hef ég ekki við að styðjast, en ég hef enga ástæðu til að rengja það, sem form. n. skýrði mér frá í þessu efni, og því held ég, að það sé ekki ástæða til þess fyrir hv. þm. að örvænta um það, að árangur komi af starfi þessarar mþn., eftir því, sem mér er frá skýrt.

Hv. 1. þm. N-M. spurði að því, hvernig hefði verið notuð sú heimild, sem er í löggjöfinni um stuðning þess opinbera við byggingar í bæjum og þorpum, og hvort skömmtun sú, sem ráðgerð er í þeim l. á byggingarefni, hefði verið framkvæmd. Ég þekki þetta að sjálfsögðu ekki af eigin reynd frá ráðun., en ég þekki þetta nokkuð af annarri reynd, frá því að hafa starfað í byggingarsjóðsstjórn verkamannabústaða, og mér er ekki kunnugt um, að það hafi í byggingarframkvæmdum — hvorki við verkamannabústaði né samvinnubyggingar — skort á útvegun byggingarefnis. Hitt er mér kunnugt um, að það hafa verið nokkur vandkvæði á því að útvega nægileg lán til þeirra byggingarfélaga, sem hafa þetta með höndum, en þrátt fyrir það, að ekki hafi verið hægt að svara allri þeirri miklu eftirspurn, sem hefur verið eftir lánum til bygginga verkamannabústaða og byggingarsamvinnuhúsa, þá er mér kunnugt um það, að meira hefur verið byggt af verkamannabústöðum og samvinnubyggingum á s.l. ári en nokkru sinni áður. Það má segja, að þetta hefði mátt meira vera vegna þess, hvað húsnæðisskorturinn er mikill hér í Reykjavík og annars staðar. En allt á sín eðlilegu takmörk, það eru takmarkaðir möguleikar fyrir byggingarframkvæmdum hér á landi. Til þess þarf mikið fé og mikið vinnuafl, og þannig hefur verið högum háttað í okkar þjóðfélagi, að miklu meiri skortur hefur verið á vinnuafli í landinu en nokkurn tíma byggingarefni. Mér er kunnugt um það, að byggingar verkamannabústaða og samvinnubyggingar hafa gengið miklu hægar fyrir þá sök, hvað það er örðugt að útvega vinnuafl, ófaglærða og faglærða verkamenn. Ég held þess vegna, hvað snertir útvegun byggingarefnis, að þá hafi það ekki háð framkvæmdum í byggingarmálum. Hitt er sönnu nær, að útvegun lánsfjár og útvegun vinnuafls hafi verið þar þröskuldur í vegi. Ég vildi vænta þess, að þegar ráðstafanir væru gerðar hér á Alþ. til þess að skipuleggja þessi málefni betur en verið hefur undanfarin ár, að úr þessu yrði þá hægt að bæta, og ríkisstj. vill fyrir sitt leyti að því vinna, svo sem orðið getur. Þetta sé ég ástæðu til að taka fram út af þeim ræðum, sem haldnar hafa verið hér í sameinuðu þingi út af þeirri till., sem hér liggur fyrir til umræðu.