10.02.1947
Sameinað þing: 27. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í D-deild Alþingistíðinda. (5098)

333. mál, húsaleigulöggjöf

Hallgrímur Benediktsson:

Herra forseti. 1 sambandi við þessa till. vildi ég segja, að það er vitað, að brýn nauðsyn er á, að húsaleigul. sé breytt og að þau séu ekki framkvæmd á sama hátt og hingað til. Hæstv. forsrh. hefur talað um þetta mál, og vona ég, að álit þessarar n. komi sem fyrst, því að ekki má þetta þing líða án aðgerðar í þessum málum. Inn í þessa umr. hafa komið ummæli um byggingarefni, og vildi ég leyfa mér að segja þar um nokkur orð.

Það er vitað, að á árinu, sem leið, var flutt inn meira byggingarefni en áður og í sumum tilfellum tvöfalt meira magn. Ég vil taka undir það með hæstv. forsrh., að áherzla skyldi lögð á byggingar samvinnufélaga eða samtaka, og ég held, að í flestum tilfellum hafi greiðzt úr efnisútvegun í þær byggingar, svo framarlega sem tilmæli hafa komið tímanlega til byggingarefnasala. Það er vitað, að eftir þau ósköp, sem yfir hafa gengið, hafa verið erfiðleikar á að fá byggingarefni og þá sérstaklega steypustyrktarjárn og járn yfirleitt. Það er ekki hægt fyrir menn, sem koma með litlum fyrirvara, að tryggja sér það, t.d. þarf að panta þakjárn með 4–6 mánaða eða enn lengri fyrirvara. Það er reynsla, að þeir, sem eru svo forsjálir að panta t.d. að vetri, ef þeir ætla að byggja að sumri, hafa í flestum tilfellum getað tryggt sér efnið. Ég á hér aðallega við það efni, sem ég þekki bezt, þ.e. sement og steypustyrktarjárn. Um leið og kvartað er um skort á byggingarefni, þá hefur verið flutt inn tvöfalt magn af því s.l. ár, miðað við árið áður, og í þau 35 ár, sem ég hef verzlað með þessa vöru, þá hefur aldrei verið flutt eins mikið inn. Þetta hlýtur að takast til athugunar og er okkur hagfellt, meðan skortur er á byggingarefni um heim allan, því að sambönd okkar erlendis miða „kvótann“ til Íslands víð árið áður. Ég mæli ekki á móti hv. þm. V-Húnv., er hann sagði, að efnisskortur hefði verið úti á landi, en eins og ég áður sagði, tel ég, að þeir, sem pöntuðu nógu snemma, hafi fengið nóg magn. En oft er, að þeir, sem þurfa að byggja, búast við, að þeir geti fengið vöruna eftir hendinni. Hins vegar er eftirspurn á byggingarefni stórkostleg, ekki sízt til opinberra bygginga, sem taka svo afar mikið magn. Ég vildi aðeins skjóta þessu fram, af því að minnzt hefur verið á skort og öflun byggingarefnis.