10.02.1947
Sameinað þing: 27. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í D-deild Alþingistíðinda. (5111)

329. mál, menntaskólinn í Reykjavík (till.GÞG og JJ)

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Á síðasta sumri átti Menntaskólinn í Reykjavík aldarafmæli á sama stað og hann hefur staðið frá upphafi. Áður höfðu orðið nokkrar umr. um, að rétt væri að gera kost skólans betri en verið hefur að undanförnu og hvernig það skyldi gert. Af hálfu ráðamanna hans og fleiri var talað um að breyta honum í nýtt hús og flytja hann í eitthvert úthverfi bæjarins, og var fleiri en einn staður nefndur.

Í sambandi við afmælið í sumar urðu enn miklar umr. um málið, og voru skoðanir manna mjög skiptar. Fyrirætlanir um flutning skólans hrundu af stað hreyfingu meðal eldri og yngri nemenda hans og velunnara í þá átt, að varðveita bæri skólann á sama stað og tryggja honum þar meira landrými undir nauðsynlegar byggingar vegna stækkunar hans á síðustu áratugum og jafnframt að endurbæta hið aldna skólahús, svo að það yrði svo fullkomið, að enn væri hægt að halda þar skóla um skeið. Í þessari till. hér er lagt til, að ríkisstj. beiti sér fyrir því, að skólinn verði ekki fluttur, og að veitt verði nægilegt fé á fjárl. til þess að endurbæta hið gamla skólahús, og jafnframt verði byggt nýtt leikfimishús og rektorsbústaður við skólann. Jafnframt er skorað á ríkisstj. að tryggja skólanum nægilegan lóðakost undir æskilegar nýbyggingar, því að það er hafið yfir allar deilur, að skólahúsið er orðið of lítið, þótt það væri endurbætt, og kæmi þá t.d. til greina að byggja nýtt hús fyrir stærðfræðideild skólans, og kæmi það til athugunar síðar. Hvort reist yrði nýtt skólahús þarna á stækkaðri skólalóð eða einnig annar menntaskóli á öðrum stað í bænum, svo að þeir yrðu tveir, er alveg látið liggja á milli hluta í till. Aðalatriðið er, að menntaskólinn verði ekki fluttur af þeim stað, sem hann stendur nú á og hefur verið í heila öld. Hann er orðinn hugfólginn flestum bæjarbúum og raunverulega þjóðinni allri, og það væri illa farið, ef skólahúsinu aldna væri tortímt eða skólinn væri fluttur burt. En það eru ekki aðeins minningarnar um skólasetrið, sem hér koma til greina. Alþ. hafði aðsetur í þessu skólahúsi um langt skeið og það meira að segja um það skeið, er háður var einn örlagaríkasti þátturinn í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Ég hygg, að allsherjarhreyfing flestra fyrrverandi menntamanna og fleiri standi að baki meginhugsunar þessarar till., að skólinn verði áfram á sama stað og búið verði að skólahúsinu sem bezt má verða og kostur skólans verði á allan hátt sem beztur.