10.02.1947
Sameinað þing: 27. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í D-deild Alþingistíðinda. (5118)

329. mál, menntaskólinn í Reykjavík (till.GÞG og JJ)

Jónas Jónsson:

Það er aðeins örstutt aths. út af þeirri skoðun hv. 6. þm. Reykv., að þessi þáltill. hafi ekki verið nægilega undirbúin.

Það hefur komið fram í umr. frá ýmsum hv. þm., að sannarlega á núverandi hæstv. ríkisstj. við ýmislegt að stríða í þessu efni, sem er sá leiðinlegi arfur frá sínum fyrirrennara, og við þann arf þarf nú að berjast. Nefnd, sem sú fyrrverandi ríkisstj. skipaði, hefur í sambandi við málið ráðstafað hálfri millj. kr., þvert ofan í það, sem þingið vildi, á þann hátt, að ekki er víst, að þeir peningar fáist nokkurn tíma aftur. Ef farið væri eftir till., sem fram hafa komið fyrir atbeina fyrrv. ríkisstj., þá hefði skólabyggingin kostað 12 millj. kr.

Þess vegna, þegar fyrrv. ríkisstj. hefur án heimildar sett í þetta n., sem virðist hafa tekið sér fullveldi í málinu, þá er eðlilegt, að skorað sé af hæstv. Alþ. á núverandi hæstv. ríkisstj. að bæta úr göllum, sem eru arfur frá þeirri fyrrv. ríkisstj., til þess að málið á þann hátt komist á eðlilegan grundvöll fyrir atbeina hæstv. ríkisstj.