21.03.1947
Sameinað þing: 37. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í B-deild Alþingistíðinda. (513)

12. mál, fjárlög 1947

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég ber hér fram tvær brtt., sem prentaðar eru á þskj. 560, og eru báðar þessar till. við 22. gr. frv., en það er heimildagreinin. Sú fyrri er um að heimila ríkisstj. að greiða allt að 7 þús. kr. til fyrirhleðslu í Staðará og allt að 12 þús. kr. til fyrirhleðslu í Einholtsvötnum, gegn greiðslu 1/3 kostnaðar annars staðar að. Svo háttar til um þetta, að Staðará fellur rétt við Kálfafellsá og svo horfir, að hún muni stórskemma engjar. Á síðustu fjárl., í heimildagreininni, var ákveðin fjárveiting til þessa verks, en af sérstökum ástæðum heima fyrir var ekki hægt að ljúka þessu verki þá, og er því farið fram á endurveitingu.

Um hina fyrirhleðsluna er það að segja, að á fjárl. 1945 var í 16. gr. veitt nokkur upphæð til þess að byrja á þessu verki. en fyrirhleðslunni miðaði þá ekki svo, að beiðnin félli niður. Nú er unnið að þessum framkvæmdum, og ég tel, að 12 þús. kr. muni nægja til þess að ljúka þessu verki. Ég vænti nú, að lítið verði á þessar beiðnir sem sjálfsagðan hlut, þar sem Alþ. hefur áður samþykkt byrjunarfjárveitingu til þessa verks.

Síðari till. mín er, að Jóhanni Albertssyni hafnsögumanni á Hornafirði verði greiddar 5 þús. kr. vegna kostnaðar við að endurbæta hafnsögubát. Höfnin í Hornafirði er oft mjög víðsjál, en um mörg ár hefur tekizt vonum betur að afgreiða skip þar, og má það þakka hafnsögumanninum, sem hefur sýnt bæði dugnað og varúð, svo að aldrei hefur slys af orðið. Svo háttar, að hafnsögumaðurinn á þennan bát sjálfur, sem hann notar. Á fyrra ári kom svo það slys fyrir, er verið var að afgreiða e/s Hrímfaxa, að hafnsögubáturinn losnaði og rak upp í fjöru og brotnaði mjög, og varð að gera við bátinn, og eigandi hans greiddi allan viðgerðarkostnaðinn úr eigin vasa. Það hefur síðar verið farið fram á, að ríkið greiddi nokkurn hluta þessa viðgerðarkostnaðar, vegna þess að verið var að vinna skyldustarf í þágu ríkisins, og flyt ég því hér brtt. um að heimila ríkisstj. að greiða þetta.

Þótt ég mæli með þessum till., þá vil ég gjarnan taka þær aftur til 3. umr. og gefa hv. fjvn. tóm til að íhuga þær, og leyfi ég mér að vænta, að ég mæti skilningi hennar í þessu máli, sem hér er um að ræða. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta, en ég vænti, að þessar brtt. nái samþykki.