24.05.1947
Sameinað þing: 60. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í D-deild Alþingistíðinda. (5143)

291. mál, samvinna ísl. þegna við þjóðverja

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Ég vil að gefnu tilefni lýsa yfir því, að ég mun gera það, sem í mínu valdi stendur, til að gæta hagsmuna þeirra manna, sem hér eiga í hlut, og eftir því sem ég tel hagsmunum íslenzku þjóðarheildarinnar samræmanlegt.

Það hefur nú þegar verið safnað skýrslum um þá menn, sem hér eiga hlut að máli, af utanrrn., og ef eitthvað er þar áfátt, þá má bæta þar um. Ég efast um, að það sé til bóta að birta þá skýrslu opinberlega eða verði nokkrum til ánægju. Það er hins vegar sjálfsagt, að utanrrn. fylgist með þessu máli og sjái um, eftir því sem í þess valdi stendur, að á þessa menn sé ekki hallað, heldur séu réttlát lög látin ganga yfir þá. Hitt er annað mál, að íslenzka ríkisstj. ræður ekki yfir gerðum annarra ríkja, og þessi mál eru ákaflega viðkvæm og vandi að ákveða, hve langt eigi að ganga í afskiptum af þeim. Ég vil mælast til þess, að till. verði látin verða óútrædd. Ef samkomulag getur ekki orðið um það, er ástæða til að koma með till. um aðra meðferð.