21.03.1947
Sameinað þing: 37. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

12. mál, fjárlög 1947

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég kem til með að eiga hér eina brtt. við fjárlagafrv., sem er að vísu ekki komin fram enn. Ég tók þann hátt upp að gera fyrir henni grg., sem sjaldan hefur áður verið gert hér á hv. Alþ. um brtt. við fjárlagafrv. og hæstv. forseti úrskurðaði. að heldur skyldi ekki gera nú, og er hún því ekki prentuð. En því segi ég frá þessu, að þegar maður talar um brtt. við fjárlagafrv., þá talar maður venjulega yfir svo að segja öllum stólum mannlausum. Og þess vegna held ég, að það sé til athugunar, hvort ekki eigi að hætta umr. um brtt. við fjárlagafrv. og láta koma grg. með brtt. Það hefur verið síðustu árin svo, að innan við 10 þm. hafa verið í d., þegar þm. hafa verið að tala fyrir sínum brtt. við fjárlagafrv., og fáir, sem vita almennileg skil á þeim brtt., sem fyrir liggja, aðrir en flm.

Ég veit, að það er óvenjulegt að prenta grg. með brtt., og þess vegna er ekkert um það að segja, þó að hæstv. forseti vildi ekki láta prenta hana.

Þó hefur þetta komið fyrir áður, svo að ég er beittur nokkurri hlutdrægni með því að neita að láta prenta hana. En ég held, að það sé rétt að athuga, hvort það sé ekki rétt, ef menn vilja fá upplýsingar um brtt. og enn fremur ef menn vilja láta upplýsingar koma fram, hvort það sé ekki einmitt eina ráðið að láta koma grg. með þeim.

Þessi brtt. mín er mjög lítilvæg og ég hefði verið búinn að koma henni á framfæri fyrir löngu, ef ég hefði vitað, hvernig ástatt var, en það vissi ég ekki fyrr en í dag.

Vegurinn frá Grímsá um Skóga og Fljótsdal á Upphéraðsveg heitir Skóga- og Fljótsdalsvegur. Neðri hluti hans allt að Hallormsstað er kenndur við Skógana, en efri hluti hans við Fljótsdalinn. Sú fjárveiting, sem nefnd er í till. hv. fjvn., 10 þús. kr., er ætluð til að endurnýja vegarpart í Skógunum, og er þess líka full þörf. Það má heita, að vegur þessi endi á Hallormsstað, þó að hann sé fær fram í Atlavík, en þar fyrir framan eða við þann hluta hans, sem kallast Fljótsdalsvegur, hefur ekkert verið gert af ríkissjóði. Þarna fyrir framan eru þrír bæir, Buðlungsvellir, nýbýli, sem sonur skógarvarðarins er að byggja, og Hrafnkelsstaðir, sem er þeirra fremstur, og þar mun vera nú fjármesti bóndi landsins og er þar 20–30 manns í heimill. Þessir bændur hafa því ekki veg heim til sin, og er því mjög erfitt með aðdrætti til heimilanna. Annaðhvort verður að flytja allt á hestum þangað eða flytja upp hinum megin fljótsins og svo ferja yfir. Bóndinn á Hrafnkelsstöðum hefur tjáð mér, að hann hafi farið að reyna að gera þennan veg bilfæran og hafi lagt í það frá sér 52 dagsverk, þannig að í fyrra haust komust eftir honum tveir bílar heim til hans. Má segja, að hann hafi hlaupið þar undir bagga með ríkisvaldinu og gert veginn slarkfæran.

Nú er mér sagt í bréfi frá bóndanum á Hrafnkelsstöðum, í öðru lagi bústjóranum á Hallormsstað og í þriðja lagi frá bilstjóranum, sem ók þennan veg, að með 5.000–6.000 kr. megi gera við þennan veg, svo að hann verði slarkfær. Ég fer þess vegna fram á, að í staðinn fyrir, að nú stendur í brtt. n. við 13. gr., 69. tölulið, Skógavegur, þá breytist hann þannig lagað, að í staðinn fyrir „Skógavegur“ komi: Skóga- og Fljótsdalsvegur, og upphæðin verði 16 þús. kr. í staðinn fyrir 10 þús. kr.

Þetta er brtt. mín, og hún er ekki stórvægileg, hún er eins lítil og hægt er að hugsa sér að komast af með í það minnsta til þess að gera veginn slarkfæran um hásumarið. Það er ekki verið að tala um hér að fá upphlaðna vegi, heldur aðeins að laga veginn, svo að hann verði sæmilega fær.

Þess má líka geta, að þessi vegur yrði ekki aðeins fyrir þessa þrjá bæi, sem ég hef nefnt, því að auk þess opnaðist með þessum vegi leið í Fljótsdalinn sunnanverðan, en þar sjá margir hina mestu náttúrufegurð, og þangað langar ferðafólk og sumargesti. sem dvelja á Hallormsstað, því að þeir sem fara um veginn þarna, sjá nýtt upplit á Fljótsdalnum, en þeim er ófær sú leið eins og nú er til þess að komast upp þar. Þá yrði þessi vegur líka fyrir þá mörgu ferðamenn, sem eru í ýmiss konar erindum um landið, sumir sér til skemmtunar, sem mundu hafa mikla ánægju af því, ef þessi vegarspotti kæmi. svo að þeir gætu komizt upp Fljótsdalinn þarna megin frá.

Ég vil gefa hv. fjvn. tækifæri til þess að athuga þessa brtt. mína, og ég treysti henni til þess að taka henni með velvilja. Hún er ekki svo há, að hún breyti í raun og veru neinu, og hún er svo sanngjörn og svo í hóf stillt, að ég hef ekki trú á öðru en að hún mæti velvilja, og þess vegna vil ég óska, að hún komi ekki til afgreiðslu við þessa umr., heldur vil ég geyma hana til 3. umr., til þess að hv. fjvn. fái tækifæri til þess að athuga hana.

Þá eru nokkrar upplýsingar, sem mig langaði til þess að fá hjá hv. fjvn. um ýmis atriði viðvíkjandi bæði fjárl. og eins hennar brtt. Það er sérstaklega ein brtt., sem mig langar til að fá upplýsingar um. Hún er á 1. síðu á þskj. 542, 14. töluliður 3, sem er Hvalfjarðarferjuvegur. Nú er þetta alveg nýr vegur. Hann er ekki ríkisvegur, ekki sýsluvegur, ekki hreppsvegur. Ég veit ekki til, að hv. Alþ. hafi tekið hann upp í neina þessa vegi. Það, sem mig langar til að fá upplýsingar um, er, hvenær sú ákvörðun hefur verið tekin að taka þennan veg í fjárl. og hvort það sé yfirlýstur vilji Alþ. að hætta að fara inn fyrir Hvalfjörðinn, hætta bílferðum milli Reykjavíkur og Akraness, en fara í þess stað að koma á bílferju og slá því föstu, að þarna eigi framtíðarleiðin að liggja norður. Ég veit ekki til, að það sé búið af hálfu Alþ. að taka neina ákvörðun um þetta, og ég hygg, að það gæti varla hafa farið fram hjá mér, ef Alþ. hefði gert það. Og um það langar mig til að fá upplýsingar.

Þó að ég hafi áður á undanförnum þingum fundið að því og enga áheyrn fengið, þegar verið er að leika sér að því að fela í fjárl. ýmsa liði, svo að ómögulegt er að vita, hvað er átt við, þá langar mig til þess að gera það enn.

Ég fann að því á sínum tíma, að fjárveiting til ferjuhalds var höfð í einu lagi, og enn hefur hv. fjvn. ekki séð ástæðu til að breyta þeirri venju neitt. Þetta er að vísu smáupphæð, en það er ekkert talað um það, hver eigi að fá hana eða á milli hverra hún eigi að skiptast. Í minni sýslu eru fjórar ár, sem þarf að ferja yfir. Eru þær þarna með eða eru þær ekki með? Eða er þessi styrkur til þess að styrkja bát, sem hafður er til þess að skjögta á yfir Skorradalsvatn og enginn þarf á að halda og engum er gagn að? Ég veit ekki, til hvers þarf að vera að fela þetta. Á að verja þessu fé til ferjuhalds yfir ófærar ár, sem þarf að sundleggja yfir? Ég spurði að þessu fyrir þremur árum, vegna þess að gera þurfti við kláfferju á Jökuldal. Ég fékk þá þær upplýsingar, að til viðgerðar þeim yrði fé af þessum lið varið, og ég sætti mig við það. Hreppsnefndin þar fékk ekki tilkynningu um það frá vegamálastjóra, og Alþ. sundurliðaði upphæðina ekki. Enginn hreyfði því hönd né fót til aðgerða ferjum. Það var fyrst gert, þegar maður hafði dottið úr einum kláfnum og var nærri drukknaður. Þá fyrst var það tilkynnt, að ætlað væri fé til þess að styrkja þessa ferju. Ég held, að það hefði verið eins gott að fá þetta sundurliðað á fjárl., svo að menn hefðu getað gert við ferjuna, áður en hún fór svona.

Þetta er eitt sýnishornið. sem nægir til þess að sýna, hve bagalegt það er að fela þetta svona á fjárl., svo að ómögulegt er að vita, hverjir eigi að fá þetta fé og hverjir ekki.

Þá langar mig til þess að vita, hvert það fé fer, sem ætlað er til ræktunarvega. Það er ósundurliðað. Þetta er 43.500 kr. í fjárlagafrv. Ég veit ekki, hvert það er ætlað. Það hefur víst að mestu farið til Vestmannaeyja og ef til vill fleiri eyja, en ekki annað, að ég hygg.

Þá er einnig í 13. gr. frv. styrkur til þess að halda uppi byggð og gistingu handa ferðamönnum. Ef ég man rétt, var þessi styrkur í fyrra 111 þús. kr., en nú — er hann hækkaður um 100 þús. kr. eða því sem næst. Hvaða nýir gististaðir eru það, sem ríkið þarf að styrkja svona til þess að geta tekið á móti ferðamönnum? Ég hélt satt að segja, að það væri selt það dýrt yfirleitt á gististöðum, að ekki þyrfti að styrkja þá sérstaklega til þess að taka á móti ferðamönnum. Hvers vegna er þetta ekki sundurliðað, ef þarna er t.d. átt við Fornahvamm?

Þá er ástæða til þess að geta þess aðeins, að í fyrra voru veittir styrkir til gistihúss í Múlakoti og á Stokkseyri. og voru þeir veittir í eitt skipti fyrir öll og teknir upp sem sérstakir liðir í fjárl. Nú er þessu öllu slengt saman, svo að ómögulegt er að vita, hvert styrkir þessir fara eða til hvers.

Þetta langar mig til að fá upplýsingar um. Og ég vildi mega vona, að hv. fjvn. sæi sér fært að sundurliða þetta til þess að menn, sem eiga að fá styrk, geti gengið eftir honum og slík atvik verði ekki látin endurtaka sig eins og átti sér t.d. stað á Jökuldal.

Þá er hér á 16. gr., 24. tölulið, styrkur handa einstökum mönnum til þess að stunda dýralækningar, gegn tvöföldu framlagi annars staðar frá. Ég hef tekið á móti svona styrkjum fyrir tvo menn áður árlega, og það hefur venjulega ekki verið hægt að fá þá greidda fyrr en seint á árinu. Þegar ég hef talað um þetta í stjórnarráðinu og komið með vottorð um, að þessir menn eigi að fá styrk, þá hefur því venjulega verið svarað á þann veg, að þeir ættu eftir að fá lista yfir þessa menn frá fjvn. Og svo hefur sá listi komið seint og síðar meir, og þá loksins hafa þessir menn getað fengið styrkinn.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fela þetta svona eins og gert er. Þó að það kostaði kannske 5–6 fleiri línur að láta það koma fram, hverjir eigi að fá þennan styrk, þá held ég. að það yrði ekki svo mikil útgjöld eða pappírseyðsla fyrir hv. Alþ., að það munaði neinu. Mig langar til þess að fá að vita, hvaða menn er hér um að ræða, því að engin ástæða er til þess að vera að pukra með það. Og þó að hægt sé á endanum að grafa það upp, hvaða menn eigi að fá styrkinn, þá er það að öllu leyti þægilegra, að vita það strax.

Mig langar að síðustu að spyrja hv. fjvn., hvort hún vildi ekki taka upp fyrir 3. umr. þessa sundurliðun. Ef ég vissi, að hún mundi gera það, mundi ég ekki hugsa um það, en annars mundi ég koma með þann lið fyrir 3. umr.

Sömuleiðis langar mig til þess, að hún athugi, hvort haldið verður áfram þeirri venju, sem skapazt hefur við húsmæðraskólann á Hallormsstað, að verja dálitlu fé til vefnaðarkennslu þar. Hann er sá húsmæðraskólinn, sem langbezta aðstöðu hefur til þess að kenna vefnað og hefur þess vegna fengið 5.000 kr. til þess að kenna húsmæðrakennaraefnum vefnað. Þetta hefur ekki verið tekið upp nú, og ég hef ekki séð það frá hv. fjvn. Ég vildi óska þess, að hv. n. athugaði þetta fyrir 3. umr., hvort hún sæi sér ekki fært að taka þetta upp aftur. Þetta hefur mælzt vel fyrir hjá þeim, sem notið hafa, og ég sé ekki ástæðu til þess að leggja þetta niður.