17.04.1947
Sameinað þing: 43. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í D-deild Alþingistíðinda. (5150)

293. mál, skattgreiðsla samvinnufélaga og Eimskipafélags Íslands

Flm. (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Eins og öllum hv. þm. er kunnugt, hefur Eimskipafélag Íslands notið þeirrar sérstöðu að vera að mestu leyti skattfrjálst, og það er vegna þess, að starfsemi félagsins hefur þótt svo nauðsynleg, að talið var viðeigandi að gera þessa undanþágu. Þetta hefur komið sér vel frá vissum sjónarmiðum, því að á stríðsárunum tókst félaginu að græða allverulega á leiguskipunum, og fyrir þann gróða er það að láta byggja fjögur skip, sem eru auðvitað mjög dýr, og auk þess hefur félagið lagt fram mikið fé til Flugfélags Íslands, til þess að Íslendingar gætu tekið þátt í nútíma samgöngum. Samt voru til menn, sem voru undrandi og jafnvel fyrir vonbrigðum af því, að Eimskipafélagi Íslands hafði tekizt að græða 25 millj. á svo stuttum tíma, og ég mun ekki fara út í þá sálma hér. En ég vil benda á, að ef félagið hefði verið undir núverandi skattal., hefði það hagnazt lítið á stríðsárunum, og hefði niðurstaðan orðið sú, að engin skip hefðu verið byggð eða þurft hefði að taka tugmilljóna kr. lán. Það er því lán, að Eimskipafélag Íslands hefur verið skattfrjálst, og hefði orðið bagalegt fyrir þjóðina, ef kæliskip hefði vantað, vegna þess að bæði kjöt og fiskur þarf að flytjast í kælirúmi. Það er því óumdeilanlegur árangur af þessu, að Eimskipafélag Íslands eða þjóðin getur lagt út í nauðsynlegar framkvæmdir, en það hefði annars verið ómögulegt. Ég tel því, að það sé sannað af reynslunni, að það hafi verið góð ráðstöfun hjá Alþ. að láta félagið vera skattfrjálst síðan 1914.

Þá kem ég að samvinnufélögunum, sem ekki eiga minni rétt á skattfríðindum, sem sömu rök hníga að. Ég vil ekki þreyta hv. þm. á að endurtaka rök, sem ég hef fram að færa, vegna þess að þau eru prentuð í grg. fyrir till. Ég skal aðeins taka það fram, að tekjuafgangur samvinnufélaganna er annars eðlis en gróði, það er aðeins afborgun félagsmanna, og þegar þess vegna þessar fjárhæðir mörg þúsund manna eru sameinaðar í eina heild eins og gróði eins manns, þá kemur fé þetta undir rangan skattstiga. Þar að auki eru samvinnufélögin ekki ,gróðafyrirtæki. En það, sem farið er fram á hér, er, að Alþ. geri þá breyt. á skattal., að félagsmálavelta samvinnufélaganna verði undanþegin öllum aðalgjöldum, vegna þess að allur þorri samvinnufélaganna notar þetta fé til hliðstæðra þarfa og Eimskipafélag Íslands notar sinn gróða. T.d. hefur S.Í.S. keypt stórt vöruflutningaskip, og er það aukning á skipastólnum, og einnig hefur það reynt að leysa olíumálið til hagsbóta fyrir alþjóð.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta. Þau einkenni, sem valda því að Eimskipafélag Íslands er skattfrjálst, eiga enn þá betur við um samvinnufélögin. Ég vona, að málinu verði vísað til allshn. að þessari umr. lokinni.