17.04.1947
Sameinað þing: 43. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í D-deild Alþingistíðinda. (5153)

293. mál, skattgreiðsla samvinnufélaga og Eimskipafélags Íslands

Hallgrímur Benediktsson:

Það voru aðeins nokkur orð í sambandi við þáltill. á þskj. 520 og þau ummæli, sem hv. flm. hefur látið fylgja henni.

Mér finnst, að þessi tvö fyrirtæki séu óskyldar stofnanir. Mér er ekki kunnugt um, að samvinnufélögin hafi tekið að sér þá þjónustu, sem Eimskipafélagið hefur haft. Ríkisvaldið hefur orðið að semja við Eimskipafélagið um strandferðir. Ég vil benda á það, að 1945 voru viðkomur þess 232, en 1946 321. Þetta er of lítið og verður að aukast. Þá vil ég benda á aðra þáltill. frá sama hv. þm. á þskj. 138, þar sem skorað er á ríkisstj. að láta gera samanburð á ýmsum ríkisfyrirtækjum í nágrannalöndunum, og þætti mér ekki illa til fundið að fá um leið upplýsingar um samanburð á rekstri samvinnufélaga, skattgreiðslu þeirra og eimskipafélaga. Ég held, að gott væri að fá slíkar upplýsingar. Eimskipafélög, t.d. í Bandaríkjunum og Noregi, njóta styrks fyrir þjónustu sína við færslu og dreifingu vara, en verzlunum og eimskipafélögum er aldrei blandað saman. Ég hef minnzt á þessa þáltill. hv. þm. S-Þ. af því, að mér finnst, að varð. andi verðlagningu og dýrtíð álíti ýmsir, að við þurfum aldrei að fara eftir því, sem aðrir gera, en það ætti þó fullkomlega að taka til athugunar. Ég skal svo ekki lengja umr. frekar, en ég er þeirrar skoðunar, að á hvaða sviði, sem er, eigi ávallt að sýna réttsýni stétta í milli, því að annars geti allt farið um koll.

Ég mun svo koma með frekari skýringu, ef ástæða þykir til, þegar málið hefur fengið afgreiðslu í n.