21.03.1947
Sameinað þing: 37. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

12. mál, fjárlög 1947

Hermann Tómasson:

Herra forseti. Ég mun ekki ræða almennt um þetta fjárlagafrv. nú. Ástæðan til þess er annars vegar, að yfir fáum er að tala, eins og stundum vill verða við þessa umr., sem ekki ætti að vera sú ómerkilegasta hér á Alþ., og hins vegar býst ég ekki við, að það sé tímabært að ræða um þá fjármálastefnu, sem kemur fram í þessu frv., eða öllu heldur að ræða um þetta frv. sem afleiðingu af þeirri fjármálastefnu, sem fylgt hefur verið. Ég geri ráð fyrir, að íslenzka lýðveldið kunni að þola í ár svona fjárl., en það mun sýna sig, að það mun vera meira en vafasamt, að það þoll önnur slík fjárl. af þessu tagi. Ég álít, að það muni vera miklu fleiri þm., er vita þetta, heldur en þeir, er ræða um þetta eða sjá ástæðu til að skrifa um málið hér eða annars staðar. Það vill oft verða svo, þegar um mikinn vanda er að ræða, að mönnum hrýs hugur við að horfast í augu við staðreyndirnar. En um þetta ætla ég ekki að ræða.

Hins vegar er það, að meðan því fer fram, sem farið hefur undanfarið, og meðan samin eru fjárl. lík og þau, sem hér liggja fyrir, þá er það verulegt atriði, hvernig þeim peningum er skipt, sem ríkissjóður lætur af hendi rakna til ýmissa framkvæmda. Ég hef þess vegna komið fram með brtt. við frv., eins og það nú liggur fyrir frá fjvn. Ég tel, að þessi skipting sé á engan hátt réttlát, því að hvernig sem þessi fjárl. eru að öðru leyti, þá verðum við að gera þá kröfu, að þessum fjármunum ríkisins sé þannig skipt, að viðunandi sé eða a.m.k. sæmandi.

Ég skal reyna að vera fáorður um þessar brtt. mínar, er ég geri grein fyrir réttmæti þeirra, þótt þær séu að vísu nokkuð margar. Brtt. þessar eru nær allar varðandi mitt kjördæmi. Ég á hér fyrst brtt. undir tölulið VIII á þskj. 560. Geri ég þar till. um, að lagt verði til Selstrandarvegar 25 þús. kr. Ástæðan til þess, að ég fer fram á þetta, er sú, að íbúar Kaldrananess, en þar er risið upp allstórt þorp, sækja heyskap sinn áleiðis til bæjanna á Selströnd. Ég hef lagt fram fleiri rök varðandi veg þennan og lagt þau fyrir hv. fjvn. En íbúum þessa þorps er lífsnauðsyn að fá veginn. Þeir geta ekki flutt áburð á tún sín eða heyið af blettunum. Í Kaldrananesi eru miklar fiskveiðar. Þar fellur því til mikill fiskúrgangur, sem hægt væri að bera á túnin, ef vegur væri fyrir hendi á þessari leið. En nú er fiskúrganginum fleygt og útlendur áburður keyptur og borinn á túnin, en hann er bæði dýr og erfitt að ná í hann. Þessi vegur er í þjóðvegatölu, svo að lágmarkskrafa væri, að hægt sé að komast um hann með hest og kerru, en svo er ekki. Væri ekki ósanngjarnt, að vegurinn væri þannig úr garði gerður milli Drangsness og Kaldrananess, að slíkt væri hægt. Það er áætlað. að 25 þús. kr. nægi til að gera þennan veg þolanlegan. Vænti ég þess, að hv. þm., sem hlusta á mál mitt, sjái, að þessi brtt. er ekki fram borin að ósekju.

Þá er það 2. liður sömu brtt. Ég hef gert grein fyrir því í bréfi til hv. fjvn., að það er mikil nauðsyn að gera við þennan veg, en það er Reykjarfjarðarvegur, sem brtt. fjallar um. Þetta er einnig þjóðvegur. Ég hef fært á það fullar sönnur í bréfi til hv. fjvn., sem er undirskrifað af hverjum manni, sem býr á þessu svæði, að það kemur þráfaldlega fyrir, að þessi þjóðvegur verði ófær. Og hann er það alltaf langt fram á sumar. Á s.l. þingi var felld frá mér brtt., sem ég bar fram varðandi fjárveitingu til þessa vegarspotta, þrátt fyrir þessar skýringar mínar.

Þá er það brtt. varðandi 33. lið. Hér er það framlag til Bitruvegar, að fyrir „200 þús.“ komi: 300 þús. Eins og hv. þm. er kunnugt, er verið að gera breyt. á vegakerfi Strandasýslu. Þjóðvegurinn. sem liggur úr Dölum og yfir Steinadalsheiði, hefur verið aðalvegurinn inn í sýsluna. En eftir að Bitruvegurinn hefur verið gerður, verður svo ekki lengur, heldur er ætlunin, að aðalvegurinn komi frá Norðurlandsbrautinni úr Bæjarhreppnum og liggi út eftir sýslunni. Ástæðan til þessarar breyt. er sú, að vegurinn yfir Steinadalsheiði er svo snjóþungur. að hann er sjaldan fær fyrir bifreiðar nema 3 mán. á árinu. Í fyrstu snjóum á haustin verður hann ófær fyrir bifreiðar. Vegurinn yfir Steinadalsheiði er ruddur, og er þar mikið um skorninga. Það gefur auga leið, að hann helzt skamma stund fær, þar sem heiðin er hin mesta snjóakista, en þeim, sem lögðu veginn í upphafi, var ekki kunnugt um það. Sem dæmi þetta varðandi skal ég nefna það, að í vor, er áliðið var orðið og í góðviðri. fórum við frambjóðendurnir norður á Strandir til að halda framboðsfundi. Við ætluðum allir í bifreiðum yfir heiðina. Á heiðinni vorum við í 14 tíma og urðum þá að snúa við og safna að okkur mörgum mönnum til að moka snjó af veginum fyrir miklar fjárhæðir, til þess að við kæmumst yfir heiðina og inn í sýsluna til að halda fundi. Steinadalsheiðin hefur með öðrum orðum reynzt öðruvísi, en búizt var við, og þess vegna er verið að gera átak til að leggja veginn beint norður eftir sýslunni. Nú vantar aðeins herzlumuninn til þess að ljúka við veginn yfir Bitruháls milli Bitrufjarðar og Kollafjarðar. Þess vegna verður þetta ekki skiljanlegt, nema menn geri sér ljóst, að það er verið að gera breytingu á vegakerfinu í sýslunni í heild með þessu móti. Menn verða að gera sér ljóst, að það þarf miklu meira fjárframlag í þessa sýslu í 2–3 ár, á meðan verið er að gera þetta átak. Hins vegar er ekki hægt að ásaka neinn fyrir það. að vegurinn skyldi vera lagður yfir Steinadalsheiði. Það er langt síðan það var gert. Það er augljóst mál, að með því vegasambandi, sem sýslan ræður nú yfir, hvað snertir veginn yfir Steinadalsheiði, þá er hún í raun og veru vegasambandslaus. Með miklum dugnaði var unnið að þessu á síðasta sumri. 200 þús. kr. fjárveiting til vegarins er ófullnægjandi til að ljúka þessu verki. Ég get trúað því, að með 300 þús. kr. yrði komizt langt með að ljúka við þetta. Það er nauðsyn mikil fyrir sýsluna, að þessum vegarkafla verði lokið, þar sem það vegasamband er í raun og veru fyrsta vegasambandið inn í sýsluna úr öðrum landshlutum. En vegna snjóþyngslanna á Steinadalsheiðinni er vegasambandið algerlega ófullnægjandi.

4. brtt. er einnig undir tölulið VIII. Hún er um það, að framlag til Bæjarhreppsvegar hækki úr 20 þús. kr. upp í 50 þús. Ástæðan til þess, að ég ber fram þessa brtt.. er sú, að út Bæjarhreppinn liggur einmitt vegurinn, sem á að verða aðalvegasambandið inn í Strandasýslu, meðfram sjónum. Hann liggur þannig eftir fjörunni, að þegar stórstreymt er, flæðir yfir veginn á verulegum kafla. Þarna er erfitt að komast með bifreiðar, nema með því móti að biða eftir sjávarföllum. Afleiðing þessa er, að í fyrstu snjóum og frostum myndast þarna klakahröngl, sem gerir veginn ófæran. Þess vegna er gert ráð fyrir af vegamálastjóra að færa veginn upp á mela, sem eru rétt fyrir ofan. Við þá lagfæringu mundi vegurinn þarna verða fær í samræmi við það, sem hann yfirleitt er á leiðinni norður eftir sýslunni. Það má gera ráð fyrir, að þegar vegasambandið kemur yfir Bitru- og Stikluháls, þá verði bilfært langt fram eftir á haustin og allsnemma á vorin. En ef svo á að verða, verður að gera við þennan kafla. Í fyrra var lagt í þennan veg 20 þús., en sú fjárhæð var geymd, vegna þess að þarna hagar vel til að nota jarðýtu og gera með því verkið miklu ódýrara. Var því ákveðið að bíða með verkið, þar til fjárveiting ársins 1947 kæmi, og vinna það þá í einu lagi. Þar sem þarna er jarðýtuland, er það nokkurn veginn vist, að vinna má verkið fyrir 70 þús. kr. Þegar þessu verki er lokið og bú:ð er að leggja veginn yfir Bitruháls, þá er komið bilvegasamband alla leið norður að Staðará og Selá í Steingrímsfirði. Ætla ég svo ekki að fara fleiri orðum um þetta. En hér liggur einnig fyrir brtt. undir XIV. Hún er viðkomandi Selá í Steingrímsfirði. um, að framlagið hækki úr 75 þús. kr. upp á 150 þús. Ef þessar vegabætur yrðu gerðar, sem ég hef minnzt á á undan, þá eru tvær ár, Selá og Staðará, sem eru farartálmar, svo að bilfært yrði norður í Bjarnarfjörð og norður að Kaldrananesi. Selá er þó versti farartálminn. Hún er stórt og hættulegt vatnsfall og sker Strandasýslu sundur í miðju. Þetta hefur hvað eftir annað verið fellt fyrir mér, þótt ég hafi gert grein fyrir nauðsyn málsins bæði fyrir hv. fjvn. og vegamálastjóra. Þessi á er ófær bæði vor og haust. Hvað eftir annað hefur það komið fyrir, að bændur hafa orðið að ferja fjárrekstra yfir Steingrímsfjörð, vegna þess að þeir hafa ekki komizt yfir ána. Eftir að farið var að byggja brýr aftur, hefur Alþ. hvað eftir annað fellt að byggja þessa brú. Fjvn. leggur til, að helmingur fjárveitingarinnar skuli lagður fram nú á árinu 1947. Ég fullyrði hins vegar það, að miðað við þær brúargerðir, sem gerðar hafa verið í Strandasýslu. og með tilliti til þess, að þetta hefur verið fellt, og ef tekið er tillit til þeirrar nauðsynjar. sem hér er fyrir hendi, að þá á engin brúargerð á öllu landinu meiri rétt á sér, og mæli ég þetta af nokkrum kunnugleika. Það má kannske vera, að segja megi um einstaka brúargerðir, að þær eigi jafnan rétt á sér og Selá. Ég verð að segja það, að ég varð fyrir miklum vonbrigðum, þegar ég sá, að ekki hafði þótt fært að leggja fram nú nema helming kostnaðar við brúargerðina. Ég skal taka það fram, að fyrst á stríðsárunum var það regla hjá þáv. ríkisstj. að byggja ekki brýr. En síðan farið var að byggja þær aftur, hefur hvað eftir annað verið fellt að byggja þessa brú. En ég hygg. að ef hv. alþm. athuguðu, hvað mikið hefur verið lagt í brúargerðir þarna í þessari sýslu samkv. till. fjvn. og hvað fellt hefur verið í þessu efni, þá ætti ekki að þurfa að tala meira um þessa till. Hún er meira en lítið sanngjörn. Og sú brtt. mín þarna, að Staðará yrði einnig brúuð að öllu eða hálfu leyti, er einnig ekki nema réttmæt. Ég fullyrði það. Það er líka mjög hentugt, þegar um tvær ár er að ræða, þar sem ekki er nema steinsnar á milli. Milli ánna er 20–30 mín. gangur. Það væri því bæði hentugra og við það yrði vinnusparnaður að brúa báðar árnar í einu. Selá er ennþá meiri farartálmi, en Staðará. En ég býst við, að sumum hv. þm. sé þó kunnugt um, að Staðará er mjög mikið og hættulegt vatnsfall.

Þá er brtt. XXVI. um lendingarbætur. Ég fer fram á, að liðurinn verði hækkaður úr 50 þús. upp í 95 þús. Þetta er til lendingarbóta á Kaldrananesi. Ástæðan til þess, að ég hef borið þessa brtt. fram, er sú, að íbúar Kaldrananess við Bjarnarfjörð hafa byggt frystihús, sem þeir hafa lagt mikið á sig við að koma upp. Þeir hafa lokið við það nú að mestu eða öllu leyti (HV: Þeir auglýstu eftir verkstjóra í kvöld.) Já, einmitt það. Þeir hafa unnið við þetta í vetur af miklum dugnaði. og um áramótin var ekki annað eftir en koma fyrir í því frystivélunum. Aðstæður þarna eru að ýmsu leyti erfiðar. Og þótt ég væri þess ekki hvetjandi í upphafi, að þeir réðust í þetta, þá er ég mjög bjartsýnn með þetta nú vegna þess dugnaðar, er þeir hafa sýnt við að koma frystihúsinu upp. Svo er ekki hægt að neita því, að uppmæling Bjarnarfjarðar hefur sýnt nýja hlið á þessu máli. Það hefur komið í ljós með henni, að innsiglingin er hrein. Þarna er eitthvert bezta síldarpláss. Menn héldu, að þarna væri skerjótt og ekki hægt að kasta vörpu, en eftir að mælingin var birt, var þarna mikið af síldarskipum fyrir utan landsteinana, nokkra faðma fyrir framan frystihúsið. Þetta er því hentugur staður til að byggja á. Milli Steingrímsfjarðar og Bjarnarfjarðar liggja sker, sem hættulegt er að sigla í gegnum. Það er því mikill ávinningur, þegar bátarnir þurfa ekki að fara gegnum þennan skerjagarð, en geta lagt fiskinn upp í Kaldrananesi. En ef hægt á að vera að nota frystihúsið, þarf hafnarmannvirki. En aðstaðan þarna er svo góð, að fullkomna bryggju og garð fram í eyju, sem liggur fyrir framan frystihúsið, er hægt að byggja fyrir 190 þús. kr. nú í dýrtíðinni. Rétt fyrir framan eyjuna er svo mikið hyldýpi, að stór skip geta lagzt þar upp að bryggju, þótt hún sé örstutt. Þetta kostar 190 þús. að dómi vitamálastjóra, og það verður að fullgera þetta verk í sumar, til þess að hægt sé að nota frystihúsið. Að öðrum kosti stendur það ónothæft. Ég vænti þess, að hv. þm. sjái, að þessi brtt. mín er ekki að ófyrirsynju fram borin. Nýbyggingarráð hefur stutt að framgangi þessa máls og á ýmsan hátt veitt þeim mönnum aðstoð, sem að frystihúsbyggingunni standa. En heimamenn hafa einnig sýnt mikinn dugnað, þar sem þeir eru að ljúka þessu verki. Það væri því illa farið, ef frystihúsið stæði ónotað vegna þess, að ekki væri nægilega unnið að lendingarbótunum. En eins og ég hef bent á, eru skilyrði einstaklega góð, þar sem fullkomnar lendingarbætur má gera fyrir 190 þús. kr., og meiningin er, að viðkomandi hérað leggi fram helming kostnaðar, 95 þús. kr.

Ég hef þá lokið við að tala fyrir þeim brtt., sem ég legg fram einn. En ég flyt hér eina brtt. með þremur öðrum mönnum varðandi fjárframlag til skógræktar. Ég viðurkenni fúslega, eins og ég gat um í upphafi máls míns, að það er meira en nóg með peningana að gera á þessu ári. En ég get ekki að því gert, að mér finnst, að það geti ekki orðið okkar fyrsti sparnaðarliður að fella niður fjárframlög til skóggræðslu, til þess að rækta og græða upp okkar illa meðfarna land. Það er augljóst með þann rekstrarkostnað, sem skógræktin hefur nú, að þetta dregur svo mjög úr starfrækslu hennar, að hún verður svipur hjá sjón, ef færa á fjárveitinguna svo mikið niður sem gert er ráð fyrir í till. fjvn.

Það má geta þess, að þegar skógræktin lagði áætlun um starfsemi sína fyrir þetta ár, þá hafði hún fulla ástæðu til að vonast eftir stórum meiri framlögum, en hún á vist eins og sakir standa. Utanþingsstj. eða fjmrh. hennar gaf skógræktinni fyllstu vonir um, að gróðinn, sem yrði af sölu hinna ensku og amerísku íbúða, sem ríkið keypti og seldi aftur, yrði lagður til skógræktar og sandgræðslu. Þessi gróði er veruleg fjárhæð, en engar líkur til, að sandgræðslan fái allt þetta fé, en með þessari upphæð hafði skógræktin ástæðu til að reikna. Nú skal ég ekki fara neitt út í það nánar, hvernig þetta loforð verður uppfyllt. Mér sýnist ekki útlit fyrir. að það verði uppfyllt nema að einhverju leyti. og þetta m.a. er ákaflega mikil vonbrigði og hnekkir fyrir starfsemi skógræktarinnar. Þess vegna tel ég það miður farið, og þess vegna hef ég flutt þessa brtt.. þrátt fyrir það að ég vil alls ekki flytja brtt. til hækkunar við frv. nema það allra minnsta, en ég tei, að það sé mjög vafasamt, þar sem skógræktin verður fyrir þeim vonbrigðum að fá ekki það fé, sem græddist á íbúðasölunni, ef á að höggva aftur í sama knérunn, eins og hv. fjvn. vill nú gera, og lækka það, sem skógræktin fær úr ríkissjóði, þó að dýrtíð sé vaxandi. Ég legg þess vegna til, að fyrir 400 þús. komi 550 þús. kr.

Ég hef þá gert grein fyrir þessum brtt., sem ég hef borið fram, og sé ég ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þær, en ég vænti, að ég hafi gert þá grein fyrir þessum brtt., að þeir hv. þm., sem á það hafa hlustað, verði mér sammála um, að það sé meira en réttlætanlegt, að ég hef borið þær fram, og sjái sér fært að ljá þeim stuðning.