21.03.1947
Sameinað þing: 37. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

12. mál, fjárlög 1947

Helgi Jónasson:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð við þessa umr. málsins, enda á ég engar brtt. að mæla með, sem kannske stafar af því, að ég sit í fjvn., og þótt ég sé ekki alls kostar ánægður með fjárlagafrv., mun ég ekki gera það að umræðuefni. Þarfirnar eru margar og getur verið vandi úr að moða til þess að setja það, sem rétt er.

Nú í dag er 21. marz, og við erum ekki komnir lengra, en í 2. umr. fjárl. Frsm. fjvn. gat þess, að það væri út af því, hvernig ástatt væri í stjórnmálunum, og því, að engin stjórn var til, til þess að taka við l., hve seint þau eru á ferðinni. Þetta er ekki alls kostar rétt. Það er fleira, sem kemur til greina. Ef afkoman væri eins glæsileg og frsm. gat um í sinni ræðu í dag, held ég, að enginn vandi væri að ganga frá fjárl. Mér þykir það undarlegt af frsm., sem hefur verið að glíma við það í allan vetur að láta fjárl. ná saman og ekki tekizt það betur en svo, að þau eru afgreidd með tugum millj. kr. tekjuhalla, að hann skuli í allri sinni ræðu tala um, hve útkoman sé glæsileg hjá fyrrv. stjórn. Ég bjóst ekki við þessu af honum, eftir að hann hefur í allan vetur verið að glíma við að láta enda fjárl. ná saman, þ.e.a.s. að finna tekjur á móti óhjákvæmilegum útgjöldum. Nei, því miður hefur ekki allt verið eins og hv. þm. Barð. vildi vera láta. Ef svo hefði verið, hefði enginn vandi verið að koma fjárl. saman, og þá hefðum við ekki þurft að biða eftir því, að ný stjórn kæmi til þess að bjarga því. sem bjargað yrði — og enn er ekki séð, hvernig tekst að láta fjárl. koma út tekjuhallalaus. Rekstrarhalli samkvæmt till. fjvn., eins og, þær liggja nú fyrir, er rúmlega 30 millj. kr., þrátt fyrir það, að fjárframlög til verklegra framkvæmda hafa verið stórkostlega minnkuð. Fjárlagafrv. er þannig úr garði gert, þegar það er lagt fyrir Alþ., að það er með 9 millj. kr. rekstrarhalla á sjóðsreikningi og 22 millj. kr. greiðsluhalla. Þrátt fyrir það að framlög til verklegra framkvæmda séu minnkuð frá því, sem var í fjárl. yfirstandandi árs, þá vantar margar millj. kr. til að standast útgjöldin. Þetta vita allir alþm. og þess vegna þýðir ekki fyrir frsm. n. að vera að básúna það, hvað allt hafi verið hér í góðu ástandi með fjárhaginn, þegar núverandi ríkisstj. tók við. Það kann að vera, að ennþá megi blekkja fólk með slíkum sögum, en hér á Alþ. er slíkt tilgangslaust. Við höfum heyrt það í dag, að enda þótt fjvn. með samþykki ríkisstj. hafi hækkað framlög til vega frá því, sem var í frv. um 2 millj. kr., þá eru þm. ekki ánægðir, þeir óska eftir meiri framkvæmdum og hærri framlögum, enda þótt það sé ekki fært og við það verði að sitja, sem komið er. Ef við litum á framlög til skólabygginga, barnaskóla, gagnfræðaskóla. héraðsskóla o.s.frv., þá er ljóst, að þar á að skera stórkostlega niður í frv.

Fjvn. hefur að vísu reynt að bæta úr því með samþykki ríkisstj. og hækkað framlagið. en þá er það ekki nóg. ef það ætti að koma til móts við það, sem Alþ. vildi vera láta. Það er komið svo, að það eru ekki neinir möguleikar á því, að hægt sé að framfylgja þeim l., sem fyrrv. stjórn setti hér á Alþ. 1945–1946–það er ekki hægt að framkvæma þau. Og svo kemur frsm. fjvn. og talar um, hvað allt sé glæsilegt fram undan og afkoman í góðu lagi. Mig furðar alveg á því að heyra slíkt frá honum. Og hvað höfum við gert í fjvn? Jú, við höfum hækkað tekjuáætlun fjárl. um 20 millj. kr., og ég fyrir mitt leyti var óánægður með þá ákvörðun. enda þótt ég sætti mig við hana, úr því sem komið var, því að sýnt var, að einhvern veginn varð að reyna að fá eitthvað upp í kostnaðinn. En ég tel sumar hækkanir á tekjuáætlun n. gerðar út í bláinn og er hræddur um, að það muni ekki koma öll kurl til grafar í þeim efnum. Ég játa það, að s.l. ár var mikið tekjuár fyrir ríkissjóð, enda voru þá fluttar inn erlendar vörur fyrir 60 millj. kr., en við vitum, að við munum ekki hafa upp á svo mikið að hlaupa á þessu ári, þar sem sjóðir eru ekki fyrir hendi eins og á s.l. ári. Nú er ekki upp á annað að hlaupa en það, sem við öflum á þessu ári. Í fyrra höfðum við varasjóð upp á að hlaupa, en nú hefur hann verið notaður til fulls og flutt inn fyrir 600 millj. kr., og það hefur gefið miklar tekjur í tollum í ríkissjóð. Verðtollurinn á s.l. ári gaf 62 millj. kr., en er nú áætlaður 50 millj. kr., og ég er hræddur um, að þessi tekjuliður kunni að verða of hátt reiknaður, því að ennþá a.m.k. getum við ekkert um það sagt, hvað miklum gjaldeyri við höfum úr að spila, þar sem ekki er ennþá búið að semja um sölu á neinni útflutningsvöru. Ég skal ekkert segja um þá hækkun, sem gerð er á tóbaki og áfengi. það má vel vera, að þeir liðir kunni að standast áætlun, en ég held samt, að sú áætlun standist frekar, en tollarnir. Ég er þess fullviss, að það má takast vel til með sölu á okkar afurðum, ef tekjuáætlunin á að hrökkva til, hvað tollana áhrærir, eins og nú er gert ráð fyrir í brtt. n. og frv. eins og það lá fyrir.

Þá get ég minnzt á aðrar tekjuáætlanir, sem n. gerði, t.d. um póst og síma. Það kom fyrir í tíð fyrrv. stjórnar, sem aldrei hefur komið fyrir áður, að síminn var með 1 millj. kr. tekjuhalla. Þeir, sem fyrir þeim stofnunum standa, segja, að það liggi aðallega í því, að fyrrv. stjórn hafi gefið út ýmsar reglugerðir viðvíkjandi þeim stofnunum, sem þannig hafi farið með hag þeirra, að ekki hafi verið hægt að reka þær öðruvísi, en með margra millj. kr. greiðsluhalla. Ef þessar stofnanir eiga að bera sig, þá verður núverandi ríkisstj. að taka í taumana og afnema þessar reglugerðir, því að með þeim er ókleift, að þær beri sig. Það er komið svo t.d. með Landssímann, að eftirvinnulaunin eru eins há eins og föstu launin, þrátt fyrir það að það væri meiningin, þegar launal. voru sett, að öll eftir- og aukavinna væri afnumin. Ég þori að fullyrða, að nú, eftir 2 ár frá því að launal. voru sett, er mikið meira um aukavinnu og eftirvinnu en áður var, og þar í liggur þetta, að nú er ekki hægt að reka Landssímann nema með millj. kr. rekstrarhalla. Þessu verður að breyta, ef vel á að fara, og fjvn. treystir því, og þess vegna fellst hún á að strika út þessa tekjurýrnun og tekjuhalla í frv. Hún treystir því, að núverandi stjórn kippi í taumana og sjái um, að þessi stofnun beri sig, eins og hún hefur alltaf gert — í því trausti er þetta gert. Það mætti minnast á ótal margt fleira, en ég skal ekki þreyta umr. lengur, þetta er gert að gefnu tilefni frá form. n., þar sem hann talaði um, hvað það væri bjart fram undan og hvað hagur ríkissjóðs stæði með miklum blóma. Við skulum vona, að úr rætist og að gifta okkar verði það mikil, að hægt verði að afgreiða tekjuhallalaus fjárl. og að það verði meira en á pappírnum. En eins og útlitið er í dag, er erfitt að spá nokkru um slíkt. og ég held, að það sé ekki vert, eins og nú er, að gera ráð fyrir allt of mikilli bjartsýni. Það er alltaf gott að vera bjartsýnn, en bjartsýnin verður að byggjast á einhverju viti og rökum, ef vel á að fara.