21.05.1947
Sameinað þing: 56. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í D-deild Alþingistíðinda. (5204)

307. mál, Austurvegur

Flm. (Eiríkur Einarsson):

Það kann svo að vera, að sumum, sem fylgja framkvæmd þeirri, er hér um ræðir, blandist hugur um, hvort flutningur þessarar till. sé nauðsynlegur, af þeirri ástæðu, að allt, sem að framkvæmdunum lýtur, sé svo lögskorðað og ákveðið, að ekki þurfi frekar vitna við og það verði ekki frá því hvikað, sem l. ákveða. Og ég skal viðurkenna, að þessi skoðun hefur við mikið að styðjast, því að þegar litið er á öll lagaákvæði, sem lúta að vegaframkvæmdum á landinu, hefur þessi framkvæmd um aðgerðir í sambandi við Austurveg sérstöðu, þar sem hún er gerð samkv. nýrri lagasetningu frá s.l. ári, lögbundin á sérstakan hátt með ákveðinni vel undirbúinni áætlun frá þingskipaðri mþn. af öllum stjórnmálaflokkum, þar sem flestir nm. í ofanálag voru verkfróðir menn. Þessi n. skilaði áliti sínu ágreiningslaust og lagði til í öllum meginatriðum það, sem síðar var ákveðið með I. En þrátt fyrir þetta, að l. séu sérstök í sinni röð og ákveði það allt, sem gera skal, og ég hafi enga ástæðu til að ætla annað en ríkisstj. ætli sér að framfylgja því, þá er allur varinn góður á þessum tímum mikilla hreyfinga, um hvað gera skuli og hvernig opinberum aðgerðum skuli hagað í landi voru, og í því skyni er þessi till. borin fram sem hvatningar- og örvunartill. af okkur 12 þm. Við þm. Árn. fórum þess raunar á leit við fjvn., að hún veitti hlutfallslegt framlag til byrjunaraðgerða, en fjvn. treysti sér ekki til þess að verða við því, þar sem hún hefur í mörg horn að líta, og var þá ekki í annað hús að venda en að miða við lántökuheimild til handa ríkisstj., og er það áminning um það, að það eru ákveðin l., sem fylgt er á eftir á þennan hátt.

Það verður ekki sagt, að síður sé ástæða til að fylgja þessu eftir og byrjunaraðgerðum í sambandi við Austurveg vegna þess, að svo mikið annað sé að gera og ekki megi taka mannafla frá atvinnuvegunum, því að sú lagasetning, sem orðið hefur á þessu þingi, fyrst og fremst fjárlagasetningin, eykur að miklum mun framlög til slíkra aðgerða annars staðar á landinu, svo að það sýnir ekki neina úrdráttarstarfsemi. Og það er áreiðanlegt, að til þess að landbúnaðurinn hér á aðallandbúnaðarsvæðinu geti notið sín og fólkið í höfuðstaðnum, sem fer mjög fjölgandi, geti haft nægilegt viðurværi af þeirri vöru, sem framleidd er, — að þá er vegasambandið ekki aukaatriði, heldur aðalatriðið, undirstöðuatriði þess, að framleiðslan njóti sín á þann veg, sem vera þarf. Það var talað um það hér fyrir fáum dögum, hvernig koma eigi mjólkinni úr nærsveitunum, til þess að hún sé góð vara. En hvernig geta menn búizt við, að bætt verði úr aðalmjólkurneyzlunni, sem bærinn þarf með, á fullkominn hátt öðruvísi en bæta og tryggja um leið samgöngurnar? (Forseti: Þetta áttu að vera aðeins örfá orð.) Ég skal þá ljúka máli mínu með því að taka fram, að þótt ég álíti ekki nauðsynlegt, að málið fari í n., með tilliti til þess, hvað áliðið er þingtímann, mundi ég þó ekki spyrna móti broddunum, og yrði það þá helzt fjvn. En það er aðeins í trausti þess, að n. bregðist fljótt við, þannig að till. gæti fengið afgreiðslu áður en þessu þingi lýkur.