14.11.1946
Neðri deild: 17. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í D-deild Alþingistíðinda. (5236)

316. mál, framleiðslutæki þjóðarinnar

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson):

Hæstv. ráðh. hefur nú gefið svar við þessari fyrirspurn minni, og telur hann og hefur það eftir hagstofunni, að það muni vera allmikil vandkvæði á því að framkvæma þessa þál, frá 5. okt. 1944. Telur hagstofan, eftir því sem hæstv. ráðh. skýrir frá, að á þessu séu miklir örðugleikar, m.a. vegna þess, að það eigi að byrja á þessu á verðlagsbreytingatímum. Ég fæ nú ekki skilið, að það geri mikinn mun, hvort segja má, að það séu verðlagsbreytingatímar eða ekki, þegar byrjað er á þessum útreikningi, og þessi umsögn hagstofunnar um till. kemur mér nokkuð á óvart, því að þegar mál þetta var til meðferðar í þinginu á sínum tíma og til athugunar í allshn. Sþ., þá átti hún tal við hagstofustjóra um málið, og er skýrt frá viðtali n. við hann í nál. allshn. um þessa till. Þetta nál. er að finna á þskj. 376 í þingtíðindum frá 1944, og segir þar svo, með leyfi hæstv. forseta, eftir að þess er getið, að nefndin hafi fengið hagstofustjóra á fund sinn til viðtals:

„Hagstofustjóri lítur svo á, að með samþykkt till. og framkvæmd fáist ekki eins fullkomið yfirlit yfir heildartekjur þjóðarinnar og með því að leggja skattskýrslur allra landsmanna til grundvallar.“ Svo segir: „Hins vegar telur hann, að vel sé unnt að framkvæma tillöguna“, o.s.frv. Var síðan gerð sú breyt. á till. hér á þinginu samkv. till. n., að í stað þess, að útreikningnum skyldi verða lokið í júní næstliðið ár, þá skyldi honum lokið í septembermánuði, og kemur það beint fram í þessu nál., að það er eftir ábendingu frá hagstofustjóra. Mér virðist það einnig koma fram hjá hæstv. ráðh., að þessir örðugleikar við framkvæmd till. séu alls ekki óyfirstíganlegir, þar sem hæstv. ráðh. gaf þær upplýsingar, að þess mætti vænta, að þessum útreikningi yrði lokið í næsta mánuði. Hlýtur maður að draga þá ályktun af því, að það hefði verið hægt að ljúka því fyrr, ef lögð hefði verið áherzla á það. En samkvæmt þessari till. frá 1944 ætti nú að liggja fyrir útreikningur á framleiðslutekjum þjóðarinnar fyrir þrjú ár, ef till. hefði verið framkvæmd á þann hátt, sem til var ætlazt af þinginu, þ. e. framleiðslutekjur áranna 1943, 1944 og 1945. En úr því sem komið er, þá er það vitanlega gott að mega vænta þess, að útreikningur þessara tekna verði birtur í næsta mánuði, þótt fyrr hefði þurft að vera, en betra er seint en aldrei, og er þess þá að vænta, að þetta verði framkvæmt árlega, eins og til var ætlazt, enda geri ég ráð fyrir, að þetta verði auðveldara, eftir að einu sinni er búið að vinna að þessum útreikningi og finna reglur til að fara eftir.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um þetta mörg orð að sinni, en vil þó aðeins segja það, að þegar litið er til þess, að vöruframleiðslan er sá grundvöllur, sem fjárhagsafkoma þjóðarinnar byggist á, þá tel ég það lítt viðunandi, að ekki skuli vera til sæmilega glöggar skýrslur yfir vöruframleiðslu þjóðarinnar ár hvert. Það er áreiðanlegt, að nú er margt skráð, sem hefur minni þýðingu en þetta. Ef slíkar skýrslur væru birtar árlega, þá væri auðveldara að gera sér grein fyrir fjárhags. ástæðum þjóðarinnar á hverjum tíma. En þess er full þörf, að menn gerðu það almennt, ekki sízt þeir, sem fara með og stjórna málum í þjóðfélaginu hverju sinni. Slíkar skýrslur gæfu gleggri mynd af árferðinu hjá aðalatvinnuvegum landsmanna en hægt er að fá af þeim skýrslum, sem nú eru gerðar og birtar. Það eru framleiðslutekjur þjóðarinnar, sem segja til um það, hve miklu landsmenn hafa úr að spila ár hvert. Ég tel fjármálum og atvinnumálum þjóðarinnar ekki komið í gott horf, fyrr en sú stefna er upp tekin að takmarka eyðsluna við framleiðslutekjurnar ár hvert. Jafnframt þarf að vinna að því að skipta þessum þjóðartekjum sem sanngjarnast milli landsmanna og koma betri skipun á þau mál en verið hefur nú um skeið.

Ég vil vænta þess, þó að það kæmi ekki fram í ræðu hæstv. fjmrh., að þegar þessar skýrslur liggja fyrir, þá fái þm. þess kost að kynna sér þær, og eðlilegast teldi ég, að þær væru birtar almenningi, og ég vil einnig vænta þess, að sem fyrst verði gerðar skýrslur fyrir öll þessi ár, 1943, 1944 og 1945, sem samkvæmt þál. ættu nú að liggja fyrir skýrslur um.