22.03.1947
Sameinað þing: 38. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í B-deild Alþingistíðinda. (526)

12. mál, fjárlög 1947

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég vildi fara hér nokkrum orðum um brtt. þær á þskj. 560, sem ég flyt einn og með öðrum. Í fyrsta lagi er það í sambandi við ákvæði 12. gr. fjárlagafrv. um styrk til sjúkrahúsa, sem er í tvennu lagi. Þar er gert ráð fyrir, að aðeins sjúkrahúsin á Ísafirði, Akureyri og Seyðisfirði fái styrk samkv. fyrri liðnum. Ég skil ekki ástæðuna fyrir því, að Vestmannaeyjar og Siglufjörður skuli settir hjá við ákvörðun um úthlutun á styrknum. Ég legg því til, að Vestmannaeyjum og Siglufirði verði bætt þarna inn í.

Þá flyt ég brtt. um að gera Sandgerði að betri fiskihöfn, og eru þær brtt. fólgnar í tvennu. Í fyrsta lagi, að lagður verði vegur beint til Keflavíkur frá Sandgerði. Þennan veg er fljótlegt og þægilegt að leggja, þar eð þannig hagar til um landslag, og legg ég til, að 250 þús. verði veittar í þessu skyni. Hin till. er viðvíkjandi því, að framlag til hafnargerðar í Sandgerði verði aukið úr 150 þús. í 300 þús. Varatill. er 250 þús. Sandgerði er ágæt höfn og oft hægt að róa þaðan, þó að ekki gefi á sjóinn úr öðrum höfnum í nágrenninu. Þaðan er gott að sjá til veðurs, og veðurskilyrði fyrir utan nesið góð, enda sækja til Sandgerðis fjöldamargir bátar víðsvegar að, og þeim fjölgar stöðugt, sem vilja hafa viðlegupláss þar. Samkvæmt upplýsingum frá einum hreppsnefndarmanni á staðnum er þetta framlag ríkissjóðs það allra minnsta, sem hægt er að komast af með til hafnarmannvirkja. Þessar framkvæmdir yrðu ekki aðeins fyrir þorpið, heldur kæmu þær miklum hluta af landinu að gagni, því að eins og ég hef áður sagt, sækja til Sandgerðis bátar svo að segja alls staðar af landinu sökum þess, hve gott er að hafa þar viðlegupláss. Þótt bátar hafi sótt mikið til Hafnarfjarðar, þá er samt miklu þægilegra og betra að róa frá Sandgerði, og á það sérstaklega við smærri bátana. Um fiskinn er það að segja, að hann verður að flytja til Keflavíkur og jafnvel til Reykjavíkur, og tekur það eðlilega mikinn tíma. Leiðin frá Keflavík liggur nú um Garðskaga hjá Útskálum, en ef hinn nýi vegur, sem ég hef minnzt á, verður lagður, styttist leiðin um 8 km, og það mundi muna því, að löndun í Sandgerði tæki um það bil helmingi skemmri tíma, því að iðulega verða bátarnir að biða löndunar vegna þess, hve seint gengur að koma fiskinum burtu. Lagning þessa vegar er mikið áhugamál Sandgerðisbúa, ekki sízt þeirra, sem á litlu bátunum róa.

Þá flyt ég ásamt hv. 2. þm. Reykv. brtt. um nýjan lið við heimildagr. fjárlagafrv., 22. gr., og fjallar hann um viðbótarframlag af hálfu ríkisins til fiskihafna vegna aukningar fiskiflotans, og skal það viðbótarframlag vera allt að 3 millj. kr. Á síðustu fjárl. voru veittar 2 millj. kr. í þessu skyni, en komið hefur í ljós, að mikið þarf enn að gera fyrir fiskihafnir okkar, svo að vel sé, og verður því að halda heimildinni áfram og fjölga og bæta viðleguplássin, eftir því sem unnt er. Á síðustu vertíð horfði til stórvandræða vegna þess, hve vont var fyrir bátana að fá viðlegupláss, og gátu sumir ekki ráðið menn á báta sína fyrr en seint og um síðir sakir óvissu í þessu efni. Nokkuð hefur þó rætzt úr þessu síðan.

Þá er ég meðflm. hv. 2. þm. S-M. um framlag til raforkuframkvæmda. Ég er hissa á þeirri röksemdafærslu hv. þm. Barð., frsm. fjvn., á móti þessari brtt. Hann upplýsti, að hann hefði frá raforkumálastjóra áætlun um raforkuframkvæmdir og raforkuleiðslur og hvað þyrfti að borga úr ríkissjóði til þess, að þær gætu staðið undir sér, og kvað hann hæstu greiðslu vera 99% af stofnkostnaði, til þess að þær gætu það. Þær stæðu aðeins undir rekstrarkostnaði og væru þannig á vegi staddar, að borga þyrfti að meðaltali úr ríkissjóði 85% af stofnkostnaði. svo að þær bæru sig. Þetta eru slæmar fréttir og ekki fýsilegt að leggja í að byggja rafveitur. Þó tel ég, að 15 millj. kr. mundu nægja til þess að byggja þær veitur, sem rafmagnsstjóri telur nauðsynlegt að koma upp á næstunni. Ég get ekki séð, að það sé skemmd við málið að veita 3 millj. kr. til þessara framkvæmda. Ég skil ekki þá röksemdafærslu hv. þm. Barð., að þó að það þurfi 15 millj. kr. til framkvæmdanna, þá sé það skemmd við málið að veita 3 millj. kr. til þess. því, sem hv. þm. Barð. minntist á viðvíkjandi rafveitu Siglufjarðar og hversu hörmulegt væri með hana, vil ég svara nokkrum orðum. Fagmönnum þykir ekkert tiltökumál, þó að það verði rekstrarhalli á 12–14 millj. fyrirtæki fyrstu árin. Ég vil t.d. nefna Sogsvirkjunina. Ekki var annað séð til að byrja með en að halli yrði á henni 8 fyrstu árin, en engu að síður var ráðizt í að byggja hana. Það varð þó enginn halli á rekstri hennar, eins og búizt var við, og var það sökum sérstaklega góðra aðstæðna. Sogsvirkjunin var auk þess miklu minna átak fyrir Reykjavíkurbæ, en Rafveita Siglufjarðar fyrir Siglufjörð. Það er ekki hægt að snúast á móti virkjunum fyrir þá sök eina, að líkindi eru til þess, að undirballans verði á þeim fyrstu árin. Hvað viðvíkur rafveitunni á Siglufirði, er ekki hægt að segja með vissu, hversu mikill hann verður, en líkur fyrir því, að hann verði eitthvað á 2. millj. kr. Mun verða að gæta þess, að hér er um að ræða mannvirki, sem endast um 60–100 ár, og því ekkert tiltakanlegt, þótt þau tapi til að byrja með, því að þau koma til með að borga sig margfaldlega síðar, svo framarlega sem allt fer eftir líkindum og fólk flyzt ekki burtu úr bæjunum. Öll þau mannvirki, sem byggjast á vatnsafli. eru viss með að borga síg með tímanum. Á Siglufirði hefur verið lögð áherzla á að selja orkuna til þess að undirballans verði ekki á rafveitunni. Ég hygg, að hvað snertir afkomu bæði ríkis og bæjar, þá borgi sig alls ekki að selja orkuna og þar með festa hana, þó svo það verði undirballans fyrstu árin. Það hefur mest að segja, að rafveitan borgi sig með tímanum, og því óráð að festa orkuna í flaustri til hinna og þessara smáhluta, því að svo getur farið, að þegar byggja þarf stóriðnfyrirtæki, sem byggjast á raforku, að það væri engin orka orðin til þeirra hluta, og nú er vitað, að slík fyrirtæki gætu keypt orkuna miklum mun dýrari, auk þess sem þau mundu veita fjölda manna atvinnu og stuðla að vexti og viðgangi nytsams iðnaðar, sem yrði til mikilla hagsbóta bæði fyrir ríki og bæ. Ég vildi í þessu sambandi benda á herzlustöð á Siglufirði, sem kæmi til með að verða byggð þar í framtíðinni. Það væri í meira lagi ömurlegt að vera þá búinn að festa orkuna svo mjög, að ekki fengist nein orka til fyrirtækisins og annarra atvinnufyrirtækja, sem byggjast á raforku. Það væri glapræði, sem ekki einungis yrði Siglufjarðarbæ, eða öðrum hlutaðeigandi kaupstað, til tjóns, heldur væri það tjón fyrir alla þjóðina. Ég tel því engan veginn rétt að vera með svigurmæli til þess að knýja bæjarstjórnina til þess að selja orkuna nú þegar, til þess að veitan geti strax staðið undir sér sjálf án aðstoðar ríkissjóðs. Það er meiri hætta fólgin í því — bæði fyrir ríki og bæ — að festa orkuna til ýmissa smáfyrirtækja en þótt rafveitan tapaði til að byrja með, en gæti síðan selt orkuna ýmsum stóriðnfyrirtækjum, sem gætu, eins og ég hef áður sagt, keypt orkuna hærra verði og orðið til stórmikillar nytsemdar bæði fyrir ríki og bæ. Ef á að taka þá stefnu, að nýbyggðar rafveitur geti strax staðið undir sér sjálfar, þá eru mörg þorp og bæir dæmd til að líða lengi af þessum sökum, og því er áríðandi, að fé sé fyrir hendi til þess að styrkja þær fyrstu árin, svo að þær neyðist ekki til að selja orkuna ódýrt, í stað þess að geyma hana til rekstrar nytsamra stóriðnaðarfyrirtækja og þannig vera til nytsemdar bæði bæ og ríki.