22.03.1947
Sameinað þing: 38. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (531)

12. mál, fjárlög 1947

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls við 2. umr. þessa máls, en mér hefur gefið tilefni til þess að segja nokkur orð deila, sem hefur átt sér stað milli hv. frsm. og hv. þm. Borgf. annars vegar og hins vegar milli hv. frsm. og hv. 1. þm. Rang.

Það munu margir, sem sjá nál. fjvn., og sjá, að n. hefur orðið sammála um það, furða sig á því, að það skuli rísa upp deila milli hv. nm. aðallega um það, hvort tekjuáætlunin er varleg eða óvarleg. Það getur vel verið, að það sé ástæða til þess að deila um það, hvort svo sé. En þeir hv. fjvnm., sem staðið hafa að því að samþykkja þessa tekjuáætlun, án þess að ágreiningur væri þar um, ættu ekki nú að vera að deila um það, sem þeir hafa samþ. með sinni undirskrift.

Ég fyrir mitt leyti vil gera grein fyrir því, hvers vegna ég var með þeirri hækkun, sem áætluð er. Ég verð að viðurkenna, að ég álit það ekki óvarlegt. Það kann að vera af því, að ég sé ekki eins varfærinn og sumir hinna hv. nm., sem hér hafa talað. Það kann að vera, að ég vilji afgreiða fjárl. með meiri bjartsýni, en sumir aðrir nm., sem hér eiga hlut að máli. Ég vil þess vegna leyfa mér að færa nokkur rök fyrir því, að þessi tekjuáætlun sé ekki gálaus, þótt fyrir fram sé auðvitað aldrei hægt að ábyrgjast um slíkt. En þessi áætlun er vissulega byggð á reynslu undanfarinna ára. þ.e.a.s. verðtollurinn, að hann reyndist s.l. ár 60 millj. kr. Fjvn. hefur leyft sér að áætla hann nú 50 millj. kr. eða 24% minna, en hann reyndist s.l. ár. Þetta kalla nú ýmsir óvarlegt, og þeir rökstyðja það með því, að það séu engar líkur til, að innflutningur á árinu verði nokkuð líkur því, sem hann var s.l. ár.

Hv. þm. Borgf. sagði hér í gær, að gjaldeyriseyðslan hefði orðið á s.l. ári hátt á 6. hundrað millj. kr. Það má vel vera, að þetta sé rétt hjá honum. En hitt er ekki rétt. að fluttar hafi verið inn vörur fyrir þessa upphæð á s. 1. ári. Mig minnir, að ég hafi séð það í ábyggilegum heimildum, að vöruinnflutningurinn á s.l. ári hafi verið samtals fyrir 440 millj. kr. eða þar um bil. Sú gjaldeyriseyðsla, sem þarna er fram yfir á s.l. ári, stafar af fyrirframgreiðslum upp í skip og vélar, sem fluttar verða inn á þessu ári. Og slíkur gjaldeyrir, sem þannig fer úr landi, gefur ekki tekjur með tollum í ríkissjóð, sem kunnugt er. Bátar og vélar, sem flutt hafa verið inn á vegum nýbyggingarráðs á s.l. ári, eru flutt inn eftir alveg sérstökum ákvæðum til uppbyggingar atvinnuveganna og munu hafa verið flutt inn fyrir á 2. hundrað millj. kr., að mig minnir. Eðlilegur vöruinnflutningur mun hins vegar ekki hafa verið fyrir meira, en 3 hundruð millj. kr. Og eru það vörur þær, sem gefið hafa hinar eiginlegu tolltekjur eða mest borga af þessum um 60 millj. kr., sem ég nefndi áðan. Ég skal ekkert segja um það, hvort þetta er eðlilegur innflutningur eða ekki, sem gefi ríkissjóði verðtoll, sem verði minni í ár en á s.l. ári, en mér þykir líklegt, að það verði ekki mikill munur á því, sem flutt er inn af venjulegum nauðsynjavörum á þessu ári og á s.l. ári. Jafnvel þó að vörumagnið minnkaði eitthvað, minnkar verðmætið ekki, því að verðlagið er það hækkandi á heimsmarkaðinum á flestum þeim vörum, sem við þurfum að kaupa.

Nú mun einhver segja, að þjóðin verði að sníða sér stakk eftir vexti og miða innflutninginn á hverjum tíma við það, sem hún framleiðir og hefur efni á að borga, og það er rétt. Það kann að vera, að það sé óeðlileg bjartsýni af mér að láta mér detta í hug, að útflutningurinn á þessu ári verði jafnvel meiri, en hann var á s.l. ári og að gjaldeyrisástæður þjóðarinnar á yfirstandandi ári verði betri, en þær hafa verið. Það má vera, að ýmsir af þeim, sem mál mitt heyra, telji þetta gálauslegt að halda slíku fram. En það hefur nú verið upplýst, að fiskaflinn er nú orðinn mun meiri, en hann var á sama tíma í fyrra. Það er einnig vitað, að fiskiflotinn er nú miklu stærri - það munar hundruðum og jafnvel þúsundum smál., sem hann er stærri nú, en á síðasta ári. Og möguleikarnir til þess að afla verðmæta úr sjónum nú eru þess vegna miklu meiri, en þeir voru á s.l. ári.

En þá komum við að þeirri hlið málsins, sem ýmsir velta fyrir sér, og það er, hvernig takist nú að selja þennan afla. Það fer eftir því, hvernig gjaldeyrisástand þjóðarinnar verður, hvernig það tekst. Það er að vísu vitanlegt, að það er ekkert hægt að fullyrða um það. En sérstakt má það teljast, ef ekki er hægt að selja á þessum tímum matvæli fyrir sæmilegt verð, á meðan flestar Evrópuþjóðirnar svelta og verða að herða að sér sultarólina. Hvað sem segja má um fisksöluna, má telja víst, að síldarafurðir seljast á þessu ári fyrir miklu hærra verð, en á fyrra ári. Það er talið víst, þó að ekki hafi farið fram samningar, sem búið er að undirskrifa í þessu efni, að hægt verði að fá mikið verð fyrir þessar afurðir.

S.l. tvö ár brást aflinn mjög tilfinnanlega, en þar sem fiskveiðifloti landsmanna er nú orðinn mun stærri, en hann hefur áður verið, þá er vitað, að ef síldin bregzt nú ekki alveg í þriðja sinn, mun þjóðin fá í gjaldeyri á þessu ári fyrir síldarafurðir hærri upphæð, en nokkru sinni fyrr og kannske miklu hærri upphæð, en við höfum látið okkur dreyma um. En til þess að svo megi verða, þarf síldin að veiðast, og það vissum við líka fyrir fram.

Ég held, að það sé ekki svo mikil bjartsýni í því að ætla, að framleiðslan verði það mikil á þessu ári, að gjaldeyrir hennar nægi til þess að flytja inn a.m.k. nauðsynjavörur þjóðarinnar svipað og á s.l. ári. Og mér finnst það þess vegna engin fjarstæða að ætla, að verðtollurinn yrði svipaður því, sem hann var t.d. á árinu 1946. En af því að fjvn. vildi vera varkár í áætlun sinni, áætlaði hún verðtollinn um 12 millj. kr. lægri, en hann reyndist s.l. ár.

Þá eru það 2 aðrir liðir, sem hafa verið hækkaðir af fjvn. Það eru tóbaks- og áfengisliðirnir. Árið 1946 gaf tóbakið 161/2 millj. kr., en er nú áætlað 15,5 millj. Og er þá ekki tekin með hækkun sú, sem nýlega hefur verið gerð á tóbaki og nemur um 20%. Sala á tóbaki má minnka mikið, til þess að hún gefi ekki 15,5 millj. kr., þar sem varan hefur verið hækkuð jafnmikið og ég hef bent á. Ég vil álíta, að það sýni varkárni fjvn., að ekki skyldi vera farið hærra með þennan lið. Það hefði vel mátt verja það, þótt tóbakstekjurnar hefðu verið áætlaðar 16–17 millj. með tilliti til þessarar hækkunar. Áfengið gaf á s.l. ári um 39 millj. kr. Það hefur nú verið hækkað um 21%. En þrátt fyrir það hefur fjvn. ekki áætlað nettótekjur áfengisverzlunarinnar nema 36 millj. kr. Það munu einhverjir segja, að það sé nóg að áætla þennan lið svona hátt, það sé nóg að troða svona miklu áfengi í þjóðina. Og það er rétt. En það er tilgangslaust að neita staðreyndum. Það er staðreynd, að áfengisverzlunin gaf af sér 39 millj. kr. á s.1. ári með því verði, sem þá var á áfenginu. Og það eru litlar líkur til þess, að þeir, sem nota áfengi, dragi verulega úr kaupum sínum, þótt verðið hafi verið hækkað um 21%. Það eru líkur til, að salan verði svipuð og í fyrra. Þessi áætlun er því ákaflega varleg. Þegar við tökum þessa 3 liði, þar sem tekjuáætlunin hefur verið hækkuð, þá er munurinn á áætluninni nú og því, sem þessir liðir gerðu í fyrra, um 20 millj. kr. Þessir liðir gáfu sem sagt 20 millj. kr. meira í fyrra en þeir eru nú áætlaðir af fjvn. Þar að auki hefur bæði tóbak og áfengi verið hækkað, eins og áður er sagt. Þetta skyldu þeir athuga, sem halda því fram, að þessi áætlun fjvn. sé óvarleg. Það er skylda alþm. að sýna varfærni í fjármálum. En það er ekki nóg að tala um varfærni. Þeir, sem tala hæst, verða að sýna í verki, að þeir vilji vera varkárir.

2 hv. þm. úr fjvn. hafa talað mikið um varfærni í þinginu. Það má vel vera, að þeir séu meiri fjármálamenn, en almennt gerist. Þeir hafa talað um það, að ríkissjóður væri illa staddur á þessum tímum. Og meðan þeir hafa haldið þessar ræður sínar, hafa þeir ekki séð annað fram undan, en svartan bakkann, sem væri að steypast yfir. Ég vildi óska þess, að ríkissjóður væri betur staddur, en hann er. En þótt ég hafi þá ósk fram að bera, þá verð ég að segja, að ef það er staðreynd, að raunverulegur tekjuafgangur ríkissjóðs á síðasta ári hafi verið 25 millj. kr., eins og hv. þm. Borgf. gat um, þá er þetta ekki eins slæmt og margir vilja vera láta. Hv. þm. Borgf. upplýsti, að tekjuafgangur ríkissjóðs á síðasta ári væri 25 millj. kr. Það er bara ekki svo lítill gróði. Meira hefði það vitaskuld mátt vera. En þegar verið er að tala um gjaldþol ríkissjóðs og um, að hann sé kominn að gjaldþroti, þá er rétt að rifja það upp, að ekki alls fyrir löngu báru ýmsir hv. þm. mikið traust til gjaldgetu ríkissjóðs. Ég víl minna á, að laust fyrir jólin var til umr. frv. til l. um að taka ábyrgð á bátafiskinum. Þá voru ýmsir hv. þm., sem vildu láta ríkissjóð greiða þann halla, sem kynni að verða á fiskverðinu. Það er kunnugt, að útvegsmenn fóru fram á að fá tryggingu á fiskverðinu, sem var nær 65 aurar á hvert kg. Það var vitað, að ekki var búið að semja um sölu á fiskinum, og það gat því orðið áhætta fyrir ríkissjóð að taka ábyrgð á þessu verði. Flestir þm. vissu, að ekkert vit var í því að hugsa sér, að ríkissjóður greiddi með aðalatvinnuvegi þjóðarinnar. sjávarútveginum. Flestir þm. vissu, að það var útilokað, að ríkissjóður gæti þetta, því að ef um slíkt var að ræða, þá hlaut það að nema milljónum og tugmilljónum kr. Og ef ríkissjóður greiðir með aðalatvinnuvegi þjóðarinnar, þá er dæmið ljóslega einhvern veginn orðið öfugt. Hins vegar voru margir hv. þm., sem nú tala hvað mest um varfærni, sem töldu rétt að gera kröfu á ríkissjóð í þessu efni. En þeir, sem vildu sýna varfærni fyrir hönd ríkissjóðs, þeir samþ. að færa þarna á milli hinna ýmsu atvinnugreina sjávarútvegsins og taka hinn svokallaða síldarskatt. Þótt ekki væri vitað, hvaða verð væri fáanlegt fyrir þorskinn, þá var það vitað, að síldarafurðir mundu hækka í verði frá því, sem þær voru á s.l. ári, og síldveiðarnar, ef þær ekki brygðust með öllu, mundu á þessu ári þola, að kúfurinn væri tekinn af verði síldarinnar til að jafna þann halla, sem kynni að verða á þorskveiðunum. En þeir sem tala hvað mest um varfærni og böl dýrtíðarinnar, þeir vildu láta hækka síldarmálið upp í 50–60 kr., borgað út til sjómannanna, en gera hins vegar þá kröfu, að ríkissjóður greiddi það tap, sem yrði á þorskveiðunum. Þetta hafa þessir menn hlotið að vilja vegna þess, að þeir báru mikið traust til gjaldgetu ríkissjóðs, og af því, að þeir vildu vera varfærnir í fjármálum. Hitt er svo annað mál, að þeir, sem fylgzt hafa með gangi þessara mála, taka ekki alvarlega allt, sem þessir ræðumenn tala, ef jafnframt er hugsað um það, sem áður var gert. Og hvað er að segja um dýrtíðina? Við getum verið sammála um, að verðbólgan er of mikil og æskilegt væri að kveða hana niður. En hvernig væri með verðbólguna hjá okkur og hvernig væri með atvinnuvegina á þessu ári, ef farið hefði verið að ráðum þessara varfærnu manna með það að hækka síldarmálið úr 31 kr.

upp í 50–60 kr.? Mundi það hafa lækkað dýrtíðina? Ég segi nei. Það hefði hækkað dýrtíðina. Við höfum horft á það undanfarin ár, að dýrtíðin hefur færzt í aukana. Hún hefur stigið smátt og smátt og dýrtíðardraugurinn hefur magnazt, þótt ríkisstj. eftir ríkisstj. hafi lagt kapp á að kveða hann niður. Ef farið hefði verið að ráðum þessara varfærnu manna, hefði dýrtíðarhjólið ekki snúizt hægt og hægt, heldur hefði það farið á fulla ferð og dýrtíðarvísitalan stigið úr 310 stigum upp í 400 stig eða hver veit hvað. Og dettur nokkrum manni í hug, að atvinnuvegir landsmanna hefðu ekki liðið við þetta? Dettur nokkrum manni í hug. að menn hefðu unnið í landi fyrir sama tímakaup, ef kaupgjald til þeirra, sem fóru á síldveiðar, hefði hækkað um helming? Ég held ekki. En ástæðan til þess, að ég minni á þetta nú, er sú, að ég vil minna á, að þessir menn, sem nú tala mest um varfærni, hafa ekki alltaf verið varfærnir, þegar um afgreiðslu ábyrgðarmikilla mála hefur verið að ræða. Og mér kemur á óvart, þegar sá flokkur, er mest hefur talað um böl dýrtíðarinnar undanfarin ár, sem mest hefur talað um varfærni í fjármálum, skuli hafa komið fram í fullu ábyrgðarleysi í þessu máli. Og nú þegar talað er um varfærni í þessu máli, þá er það að vísu gott, en það er ekki hægt að taka þetta allt mjög alvarlega.

Ég skal ekki vera langorður, því að það er orðið áliðið dags og meiningin að ljúka þessari umr. sem fyrst. En áður en ég sezt niður, vil ég minnast aðeins á dýrtíðina. Núverandi stjórn hefur það á stefnuskrá sinni að kveða niður dýrtíðina, helzt lækka hana, ef mögulegt er. Þetta hefur reynzt erfitt undanfarin ár. Utanþingsstjórnin svokallaða, er settist að völdum 1942, hafði það fyrst og fremst á stefnuskrá sinni að kveða niður dýrtíðina. Hún byrjaði með því að greiða niður vísitöluna, en þá var vísitalan 272 stig. Þegar hún fór frá völdum var vísitalan raunverulega 300 eða 310 stig. ef niðurgreiðslum hefði verið hætt. Það reyndist ekki fært þrátt fyrir góðan vilja að kveða niður dýrtíðina, og kom þar margt til, svo sem eftirspurn eftir fólki, hækkað vöruverð o.s.frv. Þegar stjórnin var mynduð 1944, hafði hún einnig á stefnuskrá sinni að lækka dýrtíðina. En það fór á sömu leið. Hún greiddi aðeins vísitöluna niður, og þar við sat. Núv. hæstv. ríkisstj. hefur hug á að fara sömu leið og greiða vísitöluna niður, þótt henni sé það ljóst, að slíkt er engin lækning á hinni raunverulegu dýrtíð. Hún hlýtur að hafa gert sér það ljóst, að þótt hún hugsi sér á þessu ári að verja 25–35 millj. kr. til dýrtíðarráðstafana, þá er það ekki nein lækning á dýrtíðinni. Dýrtíðardraugurinn dafnar enn sem fyrr og er erfiður viðfangs, eins og verið hefur. Undanfarin ár hefur fólkið sjálft í landinu ekki kært sig mikið um það, að dýrtíðin yrði kveðin niður. Það er vegna þess, að því hefur þótt gott að fá margar kr. í kaup og það hefur séð, að þrátt fyrir dýrtíðina hafa atvinnuvegirnir gengið og borið sig sæmilega. Fram til þessara áramóta hafa atvinnuvegirnir borið sig sæmilega, en hvernig þetta gengur í ár, fer eftir því, hvernig gengur með sölu á afurðunum. Og úr því verður bráðum skorið. Menn eru misjafnlega bjartsýnir í því efni. Það er þó vitað, að síldarvörur munu seljast góðu verði. Og þrátt fyrir misjafnar fréttir af þeim n., sem nú eru að semja um sölu á fiskinum, þá er samt von til þess, að sæmilegt verð fáist fyrir fiskinn, svo að ríkissjóður þurfi ekki að hlaupa undir bagga, til þess að útgerðin fái það, sem hún telur sig þurfa. Þess vegna munu ýmsir segja enn í dag, að dýrtíðin sé ekki eins mikið böl og af hafi verið látið. Hins vegar vil ég benda á, að þótt atvinnuvegirnir geti borið sig með vísitölu 310, þá er það ekki nóg, því að raunveruleg vísitala nú, ef hún væri ekki borguð niður, væri 340 eða þar yfir. Það er neyðarúrræði að þurfa að borga úr ríkissjóði 25–35 millj. kr. til niðurgreiðslna. Ég vil benda á, að ef hægt væri að koma í veg fyrir þetta, þá væri fjárlagafrv. nú rekstrarhallalaust. Hv. frsm. talaði um það í gær, að fyrrv. fjmrh. hefði ekki viljað halda niðurgreiðslunum áfram og hefði farið frá völdum þess vegna. Ég býst við, að þetta sé rétt. En eins og sakir standa, virðast niðurgreiðslurnar nauðsynlegar, meðan ekki fást önnur úrræði til bjargar. Það er sýnilegt, að atvinnuvegirnir geta ekki gengið, ef kaupgjald væri greitt eftir vísitölu 340 eða 350. Og meðan ekki fæst samkomulag um raunhæfa niðurfærslu dýrtíðarinnar, þá er ekki um aðra leið að ræða, en greiða niður. Það hefur verið talað um, að þetta fjárlagafrv. væri hátt og sú stefna, sem ríkt hefði undanfarið, gæti ekki gengið lengur og það yrði að spyrna við fótum. Það er rétt, frv. er mjög hátt. Og vitanlega eru í frv. ýmsir liðir, sem æskilegt væri að lækka. Þó vill n. benda á, að fjárframlög til verklegra framkvæmda eru hærri í þessu frv. en nokkru öðru fjárlagafrv., sem lagt hefur verið fyrir til afgreiðslu á þingi á Íslandi.

Ég mun ekki hafa orð mín miklu fleiri, en vil þó aðeins benda á, að það er gott að vera varfærinn, en það er líka gott að vera mátulega bjartsýnn, því að hinir bjartsýnu menn eru þó undirstaðan undir framtakinu, bjartsýnin er skilyrði til þess, að eitthvað sé gert. Og skynsamleg bjartsýni á ekkert skylt við gáleysi eða óvarfærni, því að sá, sem er bjartsýnn, getur líka verið varfærinn. Hann getur bæði verið varfærinn og athugull. Og afkoma þjóðarinnar byggist á því, að einstaklingarnir eigi næga bjartsýni. að þeir séu ekki svo svartsýnir, að þeir sjái aðeins svartan bakkann fram undan. Úr slíkum hugsunarhætti sprettur aðeins vonleysi og framtaksleysi. Það, sem við höfum horft upp á s.l. ár, er, að þjóðin hefur viljað sýna framtak og framfarir. Og slíku ber að fagna. Þessi litla þjóð hlýtur fyrst og fremst að byggja á dugnaði einstaklinganna, á því að þeir megi njóta sín sem bezt. Hv. þm. Borgf. talaði um frv. um fjárhagsráð og fagnaði því, að það væri á leiðinni og yrði brátt að l. Það má vel vera, að ýmislegt gott megi af því frv. leiða, en það getur verið gengið of langt í því að hefta einstaklingana í því að ráðast í framkvæmdir og gera þá hluti, sem mega verða þjóðlífinu til gagns og til að afla ríkissjóði tekna. Ég vona, að sú gifta fylgi Alþ., að það frv. verði í þeim búningi. þegar það verður að l., að af því skapist engin hætta, og þeir menn, sem valdir verða í fjárhagsráðið, hafi nægt viðsýni og vorhug til að bera, til þess að það verði þjóðinni til blessunar. Ég held, að þessi ósk verði að fylgja, þegar við lýsum yfir ánægju okkar yfir því, að þetta frv. er á leiðinni.

Hv. þm. Borgf. talaði um, að það væri napurleg aðkoma hjá núv. fjmrh. að taka við ríkissjóðnum í því ástandi. sem hann væri í nú. Ég veit, að núv. hæstv. fjmrh. hann gerir sér ljóst, hvernig þetta er. Ég gæti trúað því, að hæstv. fjmrh. hefði jafnvel búizt við því, að afkoma s.l. árs væri verri, en hún var. Og satt að segja gerði ég ráð fyrir því, þar sem svo miklar sögur og háværar höfðu um það heyrzt undanfarið, að þjóðarskútan væri að sökkva. Mér hafði satt að segja ekki þótt það hugsanlegt, að raunverulegur tekjuafgangur ríkissjóðs væri 25 millj. kr. Og ég verð að segja það, að fyrst íslenzka ríkið hefur á s.l. ári aukið eignir sínar um 25 millj. kr.. þá er ekki eins napurlegt um að litast og ætla hefði mátt, enda þótt við getum verið sammála um, að æskilegt væri, að peningar væru í sjóðum og meira væri úr að spila, en raun ber vitni um. Ég veit, að núv. hæstv. fjmrh. veit, að það getur verið meira virði fyrir hvert eitt fyrirtæki að auka sín raunverulegu, varanlegu verðmæti í framkvæmdum, en að eiga peninga í sjóði. Afkoma hvers fyrirtækis er ekki eingöngu metin eftir því, hvort það leggur peninga fyrir í sjóði, heldur hvort það eykur eignir sínar raunverulega eða ekki. Ég treysti hæstv. núv. fjmrh. til þess að fara vel með fjármuni ríkissjóðs. Svo vel þekki ég hæstv. fjmrh., að ég hygg, að hann sé vel fær í því starfi. Og ég er sannfærður um, að hann undirstrikar ekki þessi ummæli hv. þm. Borgf., að það sé svo napurlegt fyrir hann að taka nú við eins og hv. þm. vildi vera láta, sem sé að ekkert sé fram undan nema svart þykknið og þjóðarskútan sé að sökkva. Við skulum ekki, hv. þm., ganga með það í höfðinu, að þjóðarskútan sé að sökkva. Ef við hugsum þannig, getur þjóðin einskis góðs af okkur vænzt. Aðeins með því að trúa á íslenzka atvinnuvegi, aðeins með því að treysta á það, að landið okkar og fiskimið séu nógu rík til þess að skapa þjóðinni góð lífskjör, getum við hér á Alþ. gert skyldu okkar, annars drögum við þjóðina niður í það fen afbakaðs miðaldahugsunarháttar, er hún var sokkin í, þegar hún svalt og hafði ekkert úr að spila.