12.05.1947
Neðri deild: 126. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í B-deild Alþingistíðinda. (5356)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Þessar útvarpsumræður, sem nú fara fram eftir kröfu stjórnarandstöðunnar, fjalla um hið nýja skipulag, er leysa á af hólmi bæði nýbyggingarráð og viðskiptaráð. Þar sem þannig sú stofnun, nýbyggingarráð, sem ég hef veitt forstöðu frá byrjun, á að hætta störfum, þykir mér viðeigandi að rifja upp við þetta tækifæri í helztu atriðunum, hvað ráðið hefur haft með höndum.

Samkv. málefnasamningi fyrrv. ríkisstj. voru sett l. seint á árinu 1944, og hófst starfsemi ráðsins samkv. þeim l. um árslokin sama árs. Hefur nýbyggingarráð nú starfað í 21/2 ár.

Samkv. l. skyldi það vera höfuðverkefni nýbyggingarráðs að gera áætlun um þróun atvinnulífsins í næstu framtíð og áætla, hvaða framleiðslutæki, samgöngutæki og annað, sem nauðsynlegt er atvinnuvegum landsmanna, þyrfti að flytja til landsins og hvar þau skyldu staðsett. Enn fremur var ráðinu falið að beita sér, ef þyrfti, fyrir framkvæmdum í því efni. Þá var og kveðið á um það, að nýbyggingarráð skyldi veita fyrirgreiðslu um útvegun tækjanna með úthlutun gjaldeyris- og innflutningsleyfa og veita annan stuðning til að útvega tækin, ef hans þyrfti með. Í meginatriðunum hefur starfsemi ráðsins markazt af því, sem hér hefur sagt verið.

Þá var samkv. þessum l. ákveðið. að af inneignum Landsbanka Íslands erlendis skyldi jafngildi a.m.k. 300 millj. kr. lagt á sérstakan reikning, og skyldi eingöngu verja þeirri upphæð til kaupa á framleiðslutækjum og til annarrar nýsköpunar í atvinnulífi þjóðarinnar samkv. nánari ákvörðun nýbyggingarráðs.

Ég vil sérstaklega benda á það, að höfuðtilgangur þessarar löggjafar var sá að fá svo til stillt, að mikill hluti af innistæðum þjóðarinnar erlendis yrði notaður til þess að búa svo í haginn fyrir landsmenn, að atvinnuöryggi þjóðarinnar yrði meira í framtíðinni en verið hefur oft undanfarið. Ég bendi á þetta þegar í stað, vegna þess að þjóðin má aldrei missa sjónar af þessu markmiði, og í sambandi við það er rétt að benda á það um leið, að jafnframt og þannig var hafizt handa um stórfellda nýsköpun í atvinnumálum þjóðarinnar með útvegun betri atvinnutækja en hún hafði áður átt kost á. hlaut og hlýtur af því að leiða, ef rökréttri hugsun er beitt, að allar aðgerðir — hvers kyns sem eru —, sem stofna atvinnuöryggi landsmanna í hættu, vinna beint á móti nýsköpuninni og geta eyðilagt það, sem annars kynni að ávinnast og hefur áunnizt með því starfi, sem lagt var út í samkv. stefnuskrá fyrrv. ríkisstj. og með l. um nýbyggingarráð.

Nýbyggingarráð hefur að sjálfsögðu sætt gagnrýni. og er ekkert við því að segja, þegar sú gagnrýni er á rökum reist. en það, sem einkum hefur verið bent á, er það, að nýbyggingarráð hafi ekki beitt sér nægilega á þeim þætti starfsins, sem unnið skyldi að með samningu áætlana. Þó er því ekki til að dreifa, að sá þáttur starfsins hafi verið vanræktur, svo að nokkur bagi hafi af hlotizt. Um hitt má lengi deila, hvort réttara hefði verið að eyða meira af starfi nýbyggingarráðs til samningar áætlana. en minna til raunverulegra framkvæmda eða fyrirgreiðslu framkvæmda. Það eitt er víst, að svo mikill áhugi var vakandi hjá þjóðinni fyrir nýsköpun á ýmsum sviðum í atvinnumálunum þegar í upphafi, að þróun þessara hluta hlaut að vera sú, sem varð, að nýbyggingarráð — jafnframt og unnið var eftir föngum að hinum lögskipuðu áætlunum — leitaðist við að sinna þeim erindum, sem ráðinu bárust víðs vegar af landinu um fyrirgreiðslu og útvegun á margs konar tækjum fyrir sjávarútveginn, landbúnaðinn og iðnaðinn.

Fyrsta áætlunin, sem nýbyggingarráð gerði, var um aukningu flutningaskipaflotans. — Samkv. þeirri áætlun var gert ráð fyrir, að farskipaflotinn yrði aukinn um 22,500 smál. — Um framkvæmd þessarar áætlunar er það að segja, að lögð hafa verið drög fyrir að fá til landsins 10 farþega- og flutningaskip. 2 tankskip og þrjú kæliskip. Þessi áætlun ráðsins er því komin vel í framkvæmd. að því leyti sem það getur við ráðið.

Þá hefur nýbyggingarráð lokið við heildaráætlun um sjávarútveg Íslendinga fram til ársins 1951, og hefur sú áætlun fyrir löngu síðan verið send þingmönnum og stjórnaryfirvöldum. — Í sambandi við hana hefur nýbyggingarráð gert áætlun um hugsanlegan afla á þann flota, sem gera mætti ráð fyrir, að fyrir hendi yrði, þegar áætlunin væri komin í framkvæmd. Skal sú áætlun ekki gerð hér að umtalsefni, en hana er að finna, eins og hv. þm. vita, í þeim plöggum, er nýbyggingarráð hefur látið frá sér fara um þetta efni.

Það skal tekið hér fram, að á árunum 1945–1947 hafa bætzt við fiskiflotann 163 fiskiskip önnur en togarar. og er rúmlestatala þeirra samtals 11.500 lestir. Af togurunum, er keyptir hafa verið í Englandi fyrir forgöngu og með aðstoð nýbyggingarráðs, munu nú 4 vera komnir til landsins og byrjaðir fiskveiðar og sá fimmti væntanlegur mjög bráðlega og ef til vill á þessari stundu kominn til landsins. Þegar þess er gætt, að tala þeirra togara, sem þegar hafa verið fest kaup á, mun nú vera nálægt hálfur 4. tugur, og hins, að nýbyggingarráð hefur gert ráð fyrir, að togaraflotinn verði 75 togarar á árinu 1951, er auðsætt, að aukning fiskiskipastólsins verður mjög mikil. Tala togaranna 1951 samkv. áætlun ráðsins er við það miðuð, að þá verði enn eftir í eigu landsmanna fimmtán togarar af þeim gömlu, þ.e. sem til voru fyrir stríð.

Í sambandi við þessa áætlun um aukningu fiskiskipastólsins hefur ráðið gert áætlun um stórfellda aukningu á hraðfrystihúsum, niðursuðuverksmiðjum og öðrum fyrirtækjum, sem vinna úr sjávarafurðum. Talið er, að afkastageta hraðfrystihúsa landsins í aprílmánuði 1946 hafi numið um 750 tonnum af frystum flökum á sólarhring. Nýbyggingarráð áætlar, að allt að því tvöföldun þessara afkasta sé æskileg vegna aukningar fiskiskipaflotans. Síðan í apríl 1946 hafa bætzt við hraðfrystihús með um 100 tonna afkastagetu. Í byggingu og sumpart langt á veg komin eru hús með um 180 tonna afkastagetu. Auk þessa liggja fyrir í nýbyggingarráði umsóknir varðandi fyrirhugaðar byggingar slíkra húsa til viðbótar, sem mundu geta afkastað um 250 tonnum, að sumum þeirra er undirbúningur þegar hafinn.

Afkastagetutölurnar gefa þó ekki rétta mynd af þeim stóru framförum, sem á hafa orðið,því að bætt geymslu- og vinnuskilyrði hafa líka átt sér stað í ríkum mæli. Afköstin miðast við vélasamstæðurnar.

Hvað síldarverksmiðjurnar snertir, mun stórkostleg aukning á afköstum þeirra vera fyrir hendi og verður þó einkum, þegar fullgerðar eru síldarverksmiðjan nýja á Siglufirði, ríkisverksmiðjan, og síldarverksmiðjan á Skagaströnd. Hefur verið að því stefnt, að afköst þeirra gætu á sínum tíma samsvarað því aukna aflamagni, er gera verður ráð fyrir vegna fjölgunar fiskiskipanna. Ráðið hefur enn fremur áætlað mikla aukningu niðursuðuiðnaðarins á næstu árum og að teknar verði upp nýjar aðferðir til vinnslu á fiskúrgangi. — Þessi iðnaður er ennþá á byrjunarstígi, en geta má þess, að nokkur hraðfrystihús hafa þegar fengið fiskimjölsvinnsluvélar til vinnslu á úrgangi.

Það kom í ljós mjög fljótlega, að til þess að unnt væri að koma í framkvæmd fyrirætlunum nýbyggingarráðs og þeirra manna víðs vegar um land, sem samkv. l. um nýbyggingarráð vildu taka þátt í hinni stórfelldu nýsköpun á sviði sjávarútvegsins, þurfti að búa svo í haginn, að greiðari yrði aðgangur að stofnlánum til þessara fyrirtækja en áður hafði verið. — Í þessu skyni samdi nýbyggingarráð því frv., sem sent var fyrrv. ríkisstj. og síðar lagt fyrir Alþ., um stórkostlega aukningu Fiskveiðasjóðs Íslands, með það fyrir augum, að fiskveiðasjóðurinn gæti staðið straum af þeirri aukningu stofnlánastarfseminnar, sem nýbyggingarráð taldi nauðsynlegt, að kæmist á fót.

Alþ. breytti frv. þannig, að Landsbankanum eða sérstakri deild við hann, stofnlánadeild sjávarútvegsins, var falið þetta verkefni. Hér skal það ekki gert að umtalsefni, hvort sú ráðabreytni hafi verið rétt, en hitt er víst, að ýmsir töldu fiskveiðasjóðinn vera hinn rétta aðila í þessu efni, og hafa spunnizt út af því nokkrar deilur, svo sem kunnugt er. Þegar l. um stofnlánadeildina höfðu verið samþ. og reglugerð um hana verið gefin út, varð það hlutverk nýbyggingarráðs að semja áætlanir um útlán deildarinnar samkv. ákvæðum reglugerðarinnar og að fella þær inn í heildaráætlun sína.

Nýbyggingarráð hefur síðan, að því er snertir þessa starfsemi. starfað í náinni samvinnu við stofnlánadeild sjávarútvegsins, úrskurðað kostnaðarreikninga þeirra fyrirtækja, er um stofnlán hafa sótt, og skiptingu kostnaðar í erlendan og innlendan kostnað, þegar að því hefur komið, að lánin skyldi veita. Hefur mikið starf verið fólgið í því að safna upplýsingum um þær framkvæmdir, sem sótt hefur verið um lán út á, og kynna sér ýmsar aðstæður í því sambandi, áður en lánin væru afgreidd.

Þá hefur ráðið leitazt við að sameina framkvæmdir, þegar fleiri en einn aðili á sama stað hafa fyrirhugað þær, er það hefur ekki að áliti ráðsins verið talið heppilegt, að fleiri en einn aðili á sama stað hefðu þessar framkvæmdir með höndum. — Fyrirtækin hafa að sínu leyti sótt til ráðsins ýmsar upplýsingar og fyrirgreiðslu í þessum efnum, og hefur ráðið jafnan haft milligöngu milli þeirra og stofnlánadeildarinnar og í sumum tilfellum annarra aðila, þegar þess hefur þurft til að greiða götu þeirra. Á þetta sérstaklega við fyrirtæki, sem eiga heima utan Reykjavíkur og hafa því átt óhægara um allan málarekstur en þau, sem hafa búsetu í Reykjavík. Þá hefur þess einnig verið gætt að stuðla að því eftir megni, að fyrirtækin, og þó einkum hraðfrystihúsin, yrðu sem bezt úr garði gerð tæknilega séð, og hefur ráðið haft aðstoð sérfræðinga í þeim málum, til þess að sem mest tæknilegt öryggi væri fyrir hendi. Á þetta sérstaklega við um einangrunar- og vinnufyrirkomulag í hraðfrystihúsunum.

Eins og kunnugt er, lögðu l. um stofnlánadeild sjávarútvegsins þá skyldu á herðar Landsbankanum, að hann sæi fyrir þeirri fjáröflun til stofnlánadeildarinnar, er þyrfti til þess að lána fyrir erlendum tilkostnaði. Fjár til lána fyrir hinum innlenda tilkostnaði skyldi aflað með sölu verðbréfa, og hefur nýbyggingarráð átt drjúgan þátt í því að vekja áhuga meðal landsmanna fyrir kaupum á þessum verðbréfum stofnlánadeildarinnar. Rétt er að geta þess, að sala þessara verðbréfa hefur ekki gengið svo vel sem skyldi, og ber þar margt til. En víst er það, að grundvöllurinn fyrir því, að sú lánastarfsemi til sjávarútvegsins og þó einkum iðjufyrirtækja í sambandi við hann, sem nauðsynleg er, ef fyrirætlanir nýbyggingarráðs og hlutaðeigandi atvinnurekenda eiga að komast í framkvæmd, þá er skilyrðið það, að verðbréfasalan haldi áfram og eflist til muna, og er því brýn nauðsyn á nýju átaki í þeim efnum.

Lán stofnlánadeildarinnar, bæði til togarakaupa og til annarra fiskiskipakaupa, hafa verið og verða veitt samkv. þeim ákvæðum, sem l. um stofnlánadeildina gera ráð fyrir. Þar undir koma líka hinir svo kölluðu Svíþjóðarbátar, sem smíðaðir voru í Svíþjóð fyrir reikning ríkissjóðs og seldir hafa verið aftur einstaklingum og bæjarfélögum, en þessir Svíþjóðarbátar voru smíðaðir á vegum utanþingsstjórnarinnar og ráðstafanir gerðar gagnvart þeirri smíði, eins og vitað er, áður en löggjöfin var sett um nýbyggingarráð. En á þeim tíma, sem nýbyggingarráð hefur starfað, hafa verið smíðaðir auk þessa fiskibátar á hérlendum skipasmíðastöðvum. og var sú ráðstöfun gerð án íhlutunar nýbyggingarráðs. en lán til þeirra hefur Fiskveiðasjóður Íslands tekið að sér að inna af hendi.

Lán stofnlánadeildarinnar hins vegar til annarra framkvæmda en skipa og bátakaupa námu í byrjun þessa mánaðar rúmlega 10 millj. kr., og lofað er 18 millj. umfram þá upphæð og enda lánað til bráðabirgða gegn endurgreiðslu af væntanlegum stofnlánum. Nýbyggingarráð hefur í áætlunum sínum samþ. sem lið í heildaráætlunum sínum fyrir 1946 og 1947 92 fyrirtæki, og lánsþörf þeirra er áætluð um 58 millj. kr. Hér er um að ræða sumpart fiskiðjufyrirtæki, svo sem hraðfrystihús, niðursuðuverkamiðjur og síldarstöðvar, fiskimjölsverksmiðjur og söltunarstöðvar, eða fyrirtæki, sem standa í nánu sambandi við sjávarútveginn, svo sem skipasmíðastöðvar, verbúðir o.s.frv. Nú ræðir hér aðeins um þau fyrirtæki, sem nýbyggingarráð hefur þegar samþ. sem lið í heildaráætluninni fyrir þessi ár, en fyrir utan þau eru mörg önnur fyrirtæki hliðstæð, sem enn hafa ekki verið samþ. af nýbyggingarráði, en eru þó fyrirhuguð. Ég skal geta þess, að tala þessara fyrirtækja er 55 og lánsþörf þeirra áætluð 28 millj. kr. Bæði að því er snertir fyrirtæki þau, sem þegar hafa verið samþ. sem liður í heildaráætlun nýbyggingarráðs, og eins hin. sem bíða samþykktar, er um að ræða sumpart nýbyggingar, og raunar í flestum tilfellum, og sumpart stækkanir og endurbætur eldri fyrirtækja. Ráðinu hafa alls borizt yfir hálft annað hundrað umsóknir af þessu tagi, og er það út af fyrir sig ljós vottur þess, að landsmenn yfirleitt hafa á prjónunum stórfelldar fyrirætlanir í anda nýsköpunarinnar til þess að koma upp hraðfrystihúsum og fiskiðjuverum hvers konar, sem og endurbótum iðnfyrirtækja, er standa í nánu sambandi við sjávarútveginn. Hin áætlaða lánsþörf þessara fyrirtækja allra, bæði fyrir A-lán eða erlendum og B-lán innlendum tilkostnaði, nemur 107 millj. kr. Er því auðsætt, að mjög þarf að efla stofnlánadeildina, bæði til A- og B-lána.

Af þessu má ráða það, að nýsköpunin varðandi sjávarútveginn er enn langt frá því að vera komin í það horf, sem æskilegt er og þörf krefst, þótt hins vegar, að því er fiskiskipaflotann sjálfan snertir. sé hún komin mjög vel á veg og jafnvel betur en búast mætti við. Þótt sú lánsfjárþörf, sem hér hefur verið nefnd, dreifist á bæði þetta ár og nokkur hin næstu, er nú þegar mikil þörf á að stofnlánadeildin sé efld. Leiðir og af þessu að sjálfsögðu það, að samstilltir kraftar landsmanna beinist að því nú og framvegis að koma svo vel í horf þessum nauðsynjamálum sjávarútvegsins, að í hendur haldist aflamöguleikar og hagnýting aflans á landi, að ógleymdu því höfuðskilyrði, að unnið sé að því einbeittlega og af framsýni að afla markaða fyrir afurðirnar.

Ég hef hér fyrst og fremst gert að umtalsefni nokkra höfuðdrætti í starfi nýbyggingarráðs varðandi sjávarútveginn. Hann er og hefur verið undirstaða gjaldeyrisöflunarinnar og þar af leiðandi undir svo að segja öllu atvinnulífi landsmanna. En nýbyggingarráð hefur einnig eftir föngum reynt að sinna öðrum atvinnuvegum landsmanna, bæði landbúnaðinum og iðnaðinum. Um landbúnaðinn er það að segja. að frv. um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum, sem samþ. var á Alþ. í apríl 1946, og frv. það um ræktunarsjóð, sem liggur fyrir yfirstandandi þingi, eru bæði frá nýbyggingarráði, en bæði þessi frv. stefna að því að undirbúa ræktun lands fyrir byggðahverfi í sveitum og meiri háttar ræktunarframkvæmdir við kauptún og kaupstaði. — Þá hefur ráðið látið rannsaka til hlítar hið svo kallaða áburðarverksmiðjumál, og liggja nú fyrir þær fyllstu upplýsingar, sem frekast er hægt að fá með ráðum hinna beztu manna hérlendis, þannig að ekkert þarf lengur að vera því til fyrirstöðu að hrinda málinu í framkvæmd, svo framarlega sem Alþ. vill taka undir þá stefnu — að öllum aðstæðum athuguðum — að leggja út í byggingu áburðarverksmiðjunnar.

Í beinu sambandi við þetta stórmál, sem á tilverurétt sinn að mestu leyti undir því, að nægileg og ódýr raforka sé fyrir hendi, er rétt að taka það fram, að nýbyggingarráð hefur talið sér skylt að stuðla að byggingu orkuvera þeirra, sem rafmagnseftirlit ríkisins hefur umsjón með, og veita af gjaldeyri nýbyggingarreiknings til þeirra hluta, sömuleiðis til Reykjavíkurbæjar og m.a. þar í sambandi við væntanlega eimtúrbínustöð.

Til vélaorkustöðva á ýmsum stöðum á landi hér hefur ráðið að sjálfsögðu einnig veitt nauðsynleg leyfi.

Auk alls þessa hefur ráðið líka stuðlað að byggingu innanbæjarkerfa á fjölmörgum stöðum vegna brýnnar nauðsynjar í kauptúnunum og annars staðar, en annars átti viðskiptaráð samkv. samkomulagi milli ráðanna um þessa hluti að sjá fyrir gjaldeyri til innanbæjarkerfa.

Ráðið hefur einnig látið til sín taka iðnaðarmál í sambandi við landbúnaðinn og þó einkum athuganir á möguleikum á stofnun verksmiðju til ullariðnaðar. Nú er það vitað, að slíkar verksmiðjur voru til hér á landi áður. og hefur það orðið að ráði — og kalla má að samkomulag hafi um það orðið milli þeirra aðila, sem nú hafa ullariðnað með höndum, aðallega Sambands ísl. samvinnufélaga og Álafossverksmiðjunnar, að nýbyggingarráð styddi fyrst og fremst stækkanir og endurbætur á þessum verksmiðjum, áður en lagt væri út á nýjar brautir í ullariðnaðinum með aðstoð og fyrir forgöngu ríkisvaldsins. Nýbyggingarráð taldi sér skylt að hlúa fyrst og fremst að þeim iðnaði af þessu tagi, sem fyrir er í landinu, með því að ekki þótti ugglaust, að bygging nýrrar, stórrar verksmiðju á ríkisins vegum kynni að verða til þess að rýra eða jafnvel eyðileggja þann iðnað, sem fyrir hendi var.

Nýbyggingarráð hefur haft til umræðu þá hugmynd, sem víða hefur gert vart við sig, sem sé að stuðla að samfærslu byggðarinnar með stofnun byggðahverfa í sveitum, og látið athuganir fara fram á því sviði. L. um stofnun Höfðakaupstaðar eru líka frá nýbyggingarráði runnin, en þau voru samþ. á síðasta þingi. Ráðinu hefur verið ljóst, að hér væri um stórt nýmæli að ræða og að tillögur um byggðahverfi og ný þorp eða bæi þurfa mikillar umhugsunar og undirbúnings við, áður en að framkvæmd er horfið. En að því er Höfðakaupstað snertir, virtist tilvalið, að um leið og síldariðnaður er hafinn á slíkum stað í stórum stíl — stað, sem er tiltölulega afskekktur og lítið byggður, en hefur góða aðstöðu bæði til sjávarins og til landsins, — þyrfti að gera ráðstafanir til. að það fólk, sem þarna sezt að, geti búið við viðunandi skilyrði. bæði hvað húsakost og annað snertir.

Sú rannsókn, sem fram hefur farið undir umsjá atvinnudeildar háskólans um hugsanlega möguleika á sementsvinnslu hér á landi, er af stað komin samkv. till. nýbyggingarráðs. Hér skal ekki um þá hugmynd fjölyrt, en væntanlega koma bráðlega í ljós niðurstöður þeirra rannsókna, og verður það þá hlutverk þings og þjóðar að taka afstöðu og ákvörðun í því efni.

Nýbyggingarráð hefur og átt sinn þátt í því að gera S.Í.S. unnt að koma upp kornmyllu. Væri slíkt fyrirtæki til hinna mestu þrifa, varan heilnæmari og ódýrari. Í sambandi við slíka myllu má vænta ýmissa framfara í kornmatarhæfi landsmanna.

Hvað iðnaðinn snertir, hefur nýbyggingarráð stutt hinar ýmsu greinar hans með fyrirgreiðslu á innflutningi véla. og yfir höfuð má segja, að nýbyggingarráð hafi eftir megni stutt að innflutningi vinnuvéla af ýmsum tegundum, bæði til notkunar við þann iðnað, sem unninn er í verksmiðjum, og líka hinar stórvirku vinnuvélar, sem hingað hafa flutzt síðan ráðið tók til starfa og notaðar eru bæði við byggingar og vegaframkvæmdir, sem kunnugt er, en árangurinn af notkun þeirra eru aukin afköst og ódýrari vinnubrögð, er bezt og áþreifanlegast mun hafa komið fram við vegavinnuna.

Sementsteypustöðin sú hin mikla, sem í ráði er, að reist verði hér í bænum. er eitt af þeim fyrirtækjum, sem nýbyggingarráð hefur stuðlað að, að komið yrði á fót. Er talið, að hún muni gera húsbyggingar og annað. sem steinsteypu þarf til, mun ódýrari en ella.

Öllum er kunnugt um það, að með aðstoð nýbyggingarráðs hefur verið stigið stórt spor í þá átt að auka véltækni við landbúnaðinn, bæði með innflutningi á venjulegum landbúnaðarvélum, mjaltavélum og flutningatækjum. Þá hefur nýbyggingarráð haft sérstakan áhuga fyrir súgþurrkun á heyi og bæði greitt fyrir öflun súgþurrkunartækjanna og stutt það mál eftir föngum. Má í því efni minna á útvarpserindi Sigurðar Þórðarsonar fyrrv. alþm., er hann flutti fyrir nokkru síðan með vitund ráðsins og að þess vilja, en hann á sæti í nýbyggingarráði, sem kunnugt er. Standa nú góðar vonir til þess, að á ýmsum stöðum verði sveitavinna fyrir þessar sakir afkastabetri og um leið ódýrari, þegar til lengdar lætur.

Það frv., sem hér er til umr. og fjallar um fjárhagsráð, gerir nú ráð fyrir, að hin nýja stofnun haldi m.a. áfram hinni svo kölluðu nýsköpun. Brtt. frá fjhn., sem nýlega eru fram komnar, kveða svo á um það, að fjárhagsráð taki við verkefnum nýbyggingarráðs. Með það fyrir augum hefur nýbyggingarráð látið semja ýtarlegar skýrslur í hendur fjárhagsráðinu væntanlega um öll störf nýbyggingarráðs, þannig að fjárhagsráð getur séð allt það. sem gert hefur verið í nýbyggingarráði, og á hvaða stigi verkefnin hafa verið. þegar nýbyggingarráð skilur við þau. Er þetta gert til þess, að sem minnst truflun verði á nýsköpunarframkvæmdunum vegna þessarar lagabreytingar.

Nýbyggingarráð tók líka að sér í byrjun að halda áfram störfum skipulagsnefndar í atvinnumálum og ljúka þeim hlutum í því efni. er fyrir lágu, þegar nýbyggingarráð tók við af nefndinni.

Í nýbyggingarráði hafa jafnan setið 4 ráðsmenn. sinn úr hverjum stjórnmálaflokkanna fjögurra. Um þá framsóknarmenn, sem setið hafa í ráðinu, mun þó rétt að geta þess, að þeir munu ekki hafa verið kvaddir til starfsins samkv. ósk síns flokks. Þó að sömu menn hafi að mestu leyti setið í ráðinu lengst af, hafa þó allir flokkar haft þar mannaskipti á þessu tímabili um lengri eða skemmri tíma, nema Sjálfstfl. Hans fulltrúi í ráðinu hefur starfað þar óslitið frá byrjun.

Þótt í ráðinu hafi þannig starfað menn með mjög mismunandi pólitískar skoðanir, hefur samvinna ávallt haldizt hin bezta. Allur hugsanlegur ágreiningur, sem annars hefði getað risið vegna mismunandi stjórnmála- eða lífsskoðana, hefur þokað fyrir sameiginlegum áhuga allra nýbyggingarráðsmanna fyrir því, að nýsköpunarstörfin og fyrirgreiðsla öll í þágu almennings í því sambandi væri vel og rösklega af hendi leyst.

Vil ég við þetta tækifæri færa samverkamönnum mínum í nýbyggingarráði þakkir fyrir góða samvinnu á framangreindu sviði. bæði ráðsmönnum og öðru starfsliði nýbyggingarráðs, og vona ég, að framtíðin sýni það og sanni, að nýsköpunarstefnan og störf nýbyggingarráðs verði þjóðinni til mikils gagns.

Ráðið hefur leitazt við að haga störfum sínum og atbeina við atvinnuvegina þannig, að stuðla af alefli fyrst og fremst að framtaki einstaklingsins til aukinna athafna í íslenzku atvinnulífi, bæði á sjó og landi. Hins vegar hefur ráðið einnig, þar sem þess hefur verið óskað sérstaklega, veitt bæjar- og hreppsfélögum sams konar aðstoð og í sumum tilfellum álitið það alveg nauðsynlegt á þeim stöðum, þar sem öflugt einstaklingsframtak hefur ekki gert vart við sig.

Ráðið hefur ekki leitazt við að hafa bein áhrif á það, hvor leiðin í atvinnurekstrinum væri farin, bæjar- eða hreppsfélagarekstur eða einstaklingsframtakið, af þeim ástæðum aðallega, að það lítur svo á, að það eigi að vera komið undir vali manna sjálfra í hinum einstöku byggðarlögum, hvaða tilhögun þeir vilja hafa á atvinnurekstri sínum. Nýbyggingarráð hefur fyrst og fremst skoðað það hlutverk sitt að greiða fyrir hinum ýmsu aðilum. sem hafizt hafa handa með framkvæmdir í atvinnumálum á þessum tíma og þannig gerzt þátttakendur í nýsköpuninni, aðstoða þá og leiðbeina, eins og við, sem þar störfum, bezt höfum getað.

Við í nýbyggingarráði höfum oft orðið þess varir, að þessi viðleitni hefur verið skilin og metin af almenningi og það aftur verið okkur uppörvun í starfinu.

Nú er það yfirlýst áform núverandi ríkisstj. að halda áfram nýsköpuninni, sem svo hefur verið nefnd, og ekki síður hitt, að tryggja, svo sem unnt er, að tilgangi hennar verði náð, þeim að gera þjóðinni fært að auka afköst framleiðslunnar og atvinnuöryggið í landinu, þetta allt miðar að því að bægja hættu atvinnuleysisins frá dyrum þjóðarinnar.

Að þessu vill ríkisstj. vinna af alefli. — Fjárhagsráð það, sem þetta frv. fjallar um, tekur því við öllum þeim verkefnum, er nýbyggingarráð hefur hingað til unnið að, auk fleiri verkefna, sem þessi nýja stofnun einnig á að hafa með höndum, eins og þetta frv. ber með sér.

Til þess að hið nýja ráð geti sinnt þeim málum, er nýbyggingarráð hefur annazt. og afgreitt þau og til þess yfirleitt að sem minnst truflun verði á daglegum störfum í þágu nýsköpunarinnar vegna þessarar fyrirhuguðu breytingar, höfum við í nýbyggingarráði gert ráðstafanir til þess, að fyrir liggi þar, er hið nýja ráð tekur við, glögg skýrsla og aðgengileg yfir það, á hvaða stigi afgreiðsla allra þeirra mála er nú í nýbyggingarráði, sem ekki hafa hlotið þar fullnaðarafgreiðslu og ætlazt er til, að hið nýja ráð taki við til framhaldandi fyrirgreiðslu.

Víða um heim og jafnvel í nágrannalöndum okkar ríkir nú skortur, margs konar atvinnuleysi og jafnvel neyð.

Við Íslendingar erum svo hamingjusamir að vera lausir við allt þetta. Hér er atvinna næg til sjós og lands og hún yfirleitt vel borguð. Auk þessa gerir nýsköpunin okkur fært að efla og tryggja framleiðsluna með nýtízku vélum og tækjum á svo að segja öllum sviðum, að nokkru leyti þegar í stað og þó betur, þegar liðið er ár hér frá eða svo, en þá má búast við, að þessi tæki, bæði skip og vélar. sem nú hefur á vegum nýsköpunarinnar verið stofnað til að útvega til landsins, verði komin og tekin í notkun.

Mundu ekki margar þjóðir og það með réttu telja Íslendinga öfundsverða?

Vissulega. Enginn vafi er á því, að þeir búa nú yfirleitt við betri lífskjör en margar aðrar þjóðir og hafa af framangreindum ástæðum skilyrði til að halda þeim, ef vel er á haldið og sæmilega árar til lands og sjávar.

Ef við sjálfir skildum þetta og viðurkenndum, mundi enginn góður Íslendingur vera svo skammsýnn að tefla hér öllu í voða og rífa niður það, sem upp hefur verið byggt. En það, að nú eru gerðar ákafar tilraunir til að efna til verkfalla og auka verðbólguna, einmitt þegar mest þörf er á því að draga úr henni. sýnir, að annað hvort skortir, skilninginn eða þjóðhollustuna.

Höfuðskilyrði fyrir því, að nýsköpunin heppnist og haldi áfram að verða það, sem til var ætlazt, grundvöllur að almennri hagsæld landsbúa, er það, að eining og vinnufriður sé varanlegur, en skefjalaus stéttabarátta og sífelld átök vegna hennar mundu eyðileggja nýsköpunina og allt það góða, sem henni getur fylgt.

Það er ósk mín og von, og ég ætla, að ég þá muni einnig mæla fyrir hönd ríkisstj. og fyrir þeirra hönd, er ásamt mér hafa hingað til unnið saman að þessum málum, að gifta landsins megi afstýra vandræðum og bægja frá þeim hættum, sem nú steðja að nýsköpuninni, og að fjárhagsráðið megi með sem beztum árangri starfa að nýsköpuninni og henni verði þannig tryggð framvegis sú aðstoð og forysta, sem nýbyggingarráð hefur fram að þessu haft með höndum.