23.04.1947
Sameinað þing: 45. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í B-deild Alþingistíðinda. (557)

12. mál, fjárlög 1947

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fjvn. fyrir starf hennar og afgreiðslu hennar á þessu máli. Það ræður að líkum, að sú vinna og afgreiðsla, sem n. hefur haft með höndum, hefur verið með örðugra móti, eins og eðlilegt er, þegar um svo stórar fjárhæðir er að ræða sem þær. sem hér liggja fyrir í frv.

Eins og kunnugt er, þá var frv. lagt fram af fyrrv. fjmrh. með 146 millj. kr. útgjaldaliðum, ef ég man rétt, en tekjur voru þar ekki áætlaðar til fulls á móts við gjöldin, þannig að þá þegar var auðsætt, að ætla þyrfti nokkrar tekjur til viðbótar, jafnvel þótt ekki yrði hróflað við frv., eins og það var lagt fram. Það mun hafa verið um 10 millj. kr. halli á frv., þegar það var lagt fram. Síðan hefur, eins og hv. þm. er kunnugt, margt breytzt. Dýrtíðin hefur vaxið, og sú stjórn, sem á miðjum tíma tók við afgreiðslu þessa máls, ákvað að freista þess að mæta vaxandi dýrtíð enn um hríð með því að greiða niður vissar vörur, sem hækkuðu mjög vísitöluna, og hvað sem um þá reglu má segja, þá stendur það fast, að það er ekki í fyrsta sinn nú farið út á þá braut, heldur hefur hún verið reynd af fyrrv. stjórn. En þessi ákvörðun hlaut að hafa í för með sér mikil útgjöld fyrir ríkissjóð, og þar af leiðandi þurfti að fara fram athugun á nýjum leiðum til tekjuöflunar, einkum þó að því athuguðu, að við þetta bættist það, að fjárlagafrv., sem lagt var fyrir Alþ. á sínum tíma, reiknaði með vísitölu 290, en við þessa afgreiðslu hefur orðið að taka tillit til miklu hærri vísitölu, eins og kunnugt er.

Nú þarf ég ekki að rekja, hvaða leiðir farnar hafa verið til þess að afla tekna. Það er öllum þm. kunnugt, og eins liggur það nú fyrir, hvað áætlað er, að þessar tekjur ríkissjóðs og aðrar tekjur ríkissjóðs þurfi að vera. Um þá áætlun er það að segja. að nú hefur að vísu verið stillt nokkuð í hóf, þegar miðað er við tekjur á sams konar liðum frá síðasta ári, en það þótti sýnt, að tekjur af ýmsum aðfluttum vörum — og þær hafa gefið mestar tekjur í ríkissjóðinn — mundu engan veginn verða jafnháar á árinu 1947 eins og þær voru á árinu 1946. Nú hefur það enn borið til, að síðan þeir rannsóknarmenn og sérfræðingar, sem þessa hluti athuguðu á sínum tíma og gerðu till. um áætlaðar tekjur — síðan þetta var gert, hefur útlitið mjög versnað vegna gjaldeyrisskorts, sem veldur því, að gjaldeyrisyfirvöld og bankar halda mjög að sér höndum um leyfisveitingar, en það leiðir aftur af sér stöðvun á innflutningi ýmiss konar varnings og nauðþurfta landsmanna, og sú stöðvun hlýtur á einhverju tímabili ársins að hafa í för með sér stórminnkaðar tekjur fyrir ríkissjóð, þar sem byggt er á innflutningi erlendra vara. Verðtollurinn t.d. er ein drýgsta. tekjulind ríkissjóðs. Hann hefur nú að vísu verið hækkaður, en það kemur því aðeins að gagni, að einhver innflutningur að verulegu leyti eigi sér stað. Ég skal svo ekki fjölyrða um það. Ég býst við, að úr því sem komið er, verði við þessa áætlun að sitja, en hitt vildi ég segja, að þótt ekki þyki fært, eða hafi ekki þótt fært að breyta núna tekjuáætluninni, þá ætla ég, að fyllilega megi draga í efa, að hún standist, svo framarlega að ekki rakni úr mjög bráðlega með fyrirgreiðslu á innflutningi á vörum til landsins, en það, að úr rakni, byggist hins vegar á möguleikum til þeirra hluta, sem sé þeim, að landinu bætist gjaldeyrir fyrir útfluttar afurðir, en eins og vitanlegt er, hafa samningar um sölu á íslenzkum afurðum við þær tvær stórþjóðir, sem staðið hefur verið í samningum við að opinberri tilhlutan, þ.e.a.s. við Rússa og Englendinga, ekki borið árangur enn sem komið er, svo að á þessu stigi málsins er allt í fullkominni óvissu um gjaldeyrismál þjóðarinnar á þessu ári. Það getur sem sé farið svo, að þótt vonir okkar um afkomu og tekjumöguleika ríkissjóðs séu nú, þegar komið er fram í seinni hluta aprílmánaðar, allt aðrar og daprari en þær glæstu vonir, sem menn gerðu sér hér á landi yfirleitt — og þá líka stjórn sú, sem þá sat — fyrr á árinu, þó að þær séu miklu daprari nú, þá er engan veginn víst, að jafnvel það, sem við vonum nú, geti fram gengið. Af þessum ástæðum er eðlilegt að mjög væri á það litið að draga nokkuð úr útgjöldum, en það er, eins og vitanlegt er, ákaflega erfitt, þegar afgreiðsla fjárlaga hefur dregizt svo mjög fram yfir það, sem átti að vera, eins og raun ber vitni um, að breyta mjög mikið um frá því, sem áður hefur verið, og þar sem fjárl. mikið til byggjast á löggjöf, sem skuldbindur ríkissjóð til framlaga á einu og öðru sviði.

Hér hefur nú í framsöguræðu af hálfu hv. fjvn. verið nokkuð lýst þeim breyt., sem orðið hafa á þessu máli, síðan það var hér til 2. umr. Hv. frsm. sagði það réttilega, að drátturinn væri að miklu leyti sökum áhrifa frá ríkisstj. Ég vil ekki mótmæla því, að ríkisstj. hafi orðið að verða þess valdandi, án þess beinlínis að óska þess, að dráttur yrði á þessu máli við afgreiðslu þess, vegna þess meðal annars, sem ég minntist á áðan, að óvissa hefur ríkt í ýmsum atriðum, sem dag hvern var vænzt, að mundi geta horfið, og líka vegna þess, að leita hefur orðið eftir samkomulagi um afgreiðslu þessa máls, eins og vant er, hér á þessu háa Alþ. —samkomulagi, sem hægt væri að finna svo traustan þingmeirihluta til að standa saman um, að afgreiðsla fjárl. yrði með sómasamlegum hætti. Þá kom það og til, sem hér hefur verið á drepið, að auk þess, hve útgjaldabálkur fjárl. virðist verða geigvænlega hár, miðað við þær vonir til tekjuöflunar, sem ríkisstj. þótti eiga rétt á sér, þá var rætt um það og reynt að koma í framkvæmd nokkrum niðurfærslum á frv. í einstökum atriðum. Það er þessi niðurfærsla, sem minnzt hefur verið á hér, og hún er nú hvorki svo stórbrotin né í eðli sínu þannig, að hún verðskuldi það nafn, sem hv. frsm. valdi henni í ræðu sinni, sem sé að hún sé kölluð bylting, það er fjarri því, enda stóð ekkert slíkt til, og væri heldur ekki sérlega glæsilegt að gera neina byltingu í þessum efnum, ef hugsað væri til að fá meiri hl. þingsins til þess að standa saman þar að. Til þess að mikið væri unnt að lækka útgjaldaliði fjárl., þyrfti að breyta gildandi löggjöf á fjölmörgum sviðum. Slíkar breyt. eru þess eðlis og um þær eru svo skiptar skoðanir, að þess er engan veginn að vænta, að hægt sé að koma þeim á í fljótu bragði og því síður með byltingu. Hér er því aðeins um lítils háttar viðleitni að ræða til þess að færa nokkuð niður þá liði fjárl., sem ekki eru bundnir í öðrum l. en fjári. Ýmsir munu segja, að það sé ómaklega niður borið að skera niður verklegar framkvæmdir. En þó er það nú svo, að ef á að ræða um það, hvað er lögboðið og hvað ekki lögboðið í fjárl., þá er það þannig, að það eru hinar verklegu framkvæmdir, sem þingið á hverjum tíma hefur í sinni hendi að hækka eða lækka. En ef hér kynni að vera að einhverju leyti of langt gengið, þá má á það benda, að fjárframlögin nú til opinberra framkvæmda eru í þessu frv., þegar tekið er tillit til brtt. þeirra, sem meiri hl. fjvn. hefur fallizt á, stórum hærri, en nokkru sinni áður hefur verið. Í fjárl. fyrir 1945 eru hinar verklegu framkvæmdir 42.933.600 kr., og í fjárl. fyrir 1946 eru þær 58.108.100 kr. En í þessu frv., sem hér er verið að undirbúa til afgreiðslu, er ætlazt til, að verklegar framkvæmdir verði 73.972.100 kr., svo að þrátt fyrir þann litla niðurskurð, sem valið hefur verið orðið bylting, sem hann ekki á skilið, þá er ætlazt til, að verklegar framkvæmdir samkvæmt þeim till., sem hér liggja fyrir, verði með allra mesta móti. Um leið og þannig hefur verið gerð tilraun til þess að færa frv. nokkuð nær því marki, sem ríkisstj. setti sér í öndverðu, það er að afgreiða fjárl. rekstrarhallalaus, hefur samt sem áður orðið að taka tillit til ýmislegs þess, sem líka hefur orðið til þess að hækka útgjaldaliðina, ýmist á rekstrarreikningi eða á þeim útgjaldalið, sem heyrir undir 20. gr., þar sem ekki þótti fært annað en að gera þetta.

Hv. frsm. fjvn. hefur nú rakið þetta, og þarf ég því ekki að fjölyrða um það. Annað vildi ég þó segja: Samfara því, að hér hefur verið gerð tilraun til þess að lækka, þá ber þess að geta, að þeir atburðir hafa nú gerzt hér, meðan afgreiðsla þessa máls hefur verið höfð með höndum hér á Alþ., sem vitað er, að munu krefja nokkurra útgjalda, ef til vill líka úr ríkissjóði. Þar á ég við Heklugosið og afleiðingar þess. Á fjárl. hefur ekkert verið ætlað til þess að standa straum af kostnaði, sem kynni að verða óhjákvæmilegur fyrir ríkissjóð í sambandi við þá eyðileggingu, sem Heklugosið hefur valdið. Þetta er af þeirri ástæðu, að það þótti ekki fært að gera það, meðan ekki liggur nein áætlun fyrir í þessum efnum, en það veit enginn, hversu úr rætist. Þetta vildi ég aðeins drepa á í sambandi við afgreiðslu þessa máls, að eðlilegt er, að til einhverra útgjalda komi af hálfu ríkissjóðs til að mæta örðugleikum þeim, sem þessi náttúruviðburður hefur valdið, og því tjóni, sem þarf að afstýra fyrir þá bændur, sem orðið hafa fyrir mestum búsifjum af völdum gossins.

Út af aths. hv. frsm. við fjárl. í einstökum atriðum hef ég fátt að segja, en vildi þó aðeins víkja að einstökum atriðum og þá helzt þeirri aths., er hann gerði við 22. gr. Það er viðvíkjandi þeirri till., er snertir þann virðingarvott, sem ætlazt er til, að ríkisstj. kosti nokkru til, þ.e.a.s. til minningar ýmissa skálda, með því að prýða legstað þeirra. Ég tei ekkert annað en sjálfsagt, að slíkt sé aðeins gert í samráði við eftirlifandi ættingja skálda eða listamanna, eins og hv. frsm. lagði áherzlu á. Ég sé ekki, að nokkurt framkvæmdavald mundi, hvað það atriði snertir, ganga fram hjá ættingjum í þessu efni. Þá minntist hv. frsm. á það, að hann teldi það varhugaverða braut, sem Alþ. væri að komast inn á, að greiða full laun embættismönnum, sem frá færu. Ég tek undir þetta. Það er í sjálfu sér varhugavert og að vísu ekki verið mjög að gætt í þessum efnum. Hins vegar er það örðugt, þegar Alþ. hefur skapað fordæmi, eins og vitað er, að það hefur gert í þessum efnum, fyrir hvaða ríkisstj. og hvaða fjvn. sem er, að standa á móti slíku frá mönnum, sem ekki er hægt að segja um annað, en að verðskuldi slíkan gerning af hálfu þingsins, eins og þeir, sem þegar hafa orðið þess aðnjótandi. Hitt fyndist mér skynsamleg ráðstöfun, að hv. fjvn. gerði till. til ríkisstj. í þessum efnum, og þá einnig, að hún byggi til einhverjar reglur fyrir fjárveitingum á 18. gr., eins og hv. frsm. minntist á. Að þessu sinni tel ég ekki rétt, að ég geri aths. við einstakar till., sem fram eru komnar, aðrar en þær, sem eru frá fjvn. Þeir þm., sem þær flytja, hafa enn ekki flutt sínar ræður eða rökstuðning þeim viðvíkjandi. Hins vegar ætla ég, að öllum muni vera ljóst, að útgjöld fjárl. eru orðin geysihá og ekki á þau bætandi. Þetta er óhætt að segja, hvað heildina snertir, án þess að gera einstakar till. að umtalsefni.