23.04.1947
Sameinað þing: 45. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í B-deild Alþingistíðinda. (559)

12. mál, fjárlög 1947

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég get tekið upp þráðinn. sem hætti hjá hæstv. fjmrh., þegar hann minntist á 18. gr. fjárl. Ég vil skjóta því fram hér, að ég hafði áður dálítið með þessa gr. að gera, og er ekki að bera það af mér, að ýmislegt hafi farið inn, sem kannske hefði ekki átt inn að fara. En nú finnst mér, að það sé verið að auka enn meir ósamræmið. Ég get tekið einn lækni. sem fær 4.000 kr. með verðlagsuppbót og hefur verið hvarflandi í sínu embætti, en annar læknir, sem búinn er að vera í embætti í 30 ár, fær ekki nema 1.100 kr. Það má telja presta og aðra embættismenn, sem nú eru að gefast upp, en hafa stundað embætti, sem fá fyrir neðan 1.000 kr. En það er vandfarið meðalhófið í þessum efnum. Ég vil svo árétta það, sem mér skilst, að hv. frsm. fjvn. hafi verið að minnast á, að nú ætti ríkisstj., áður en hún semur næsta fjárlagafrv., að láta fara fram gagngerða athugun á gr. og koma henni til meira samræmis, en áður hefur verið. Fjöldi manna er nú á 18. gr., sem alls ekki á þar heima. Það eru menn, sem fá fullkominn ellistyrk samkv. almannatryggingalögunum. Ég veit, að það er örðugt fyrir fjvn. að kippa þessu í lag, en það verður að gera og láta almannatryggingarnar bera sinn hluta, og hverfa þá margir menn af þessari gr.

Ég á hlut í brtt. á þskj. 702. Það er 18. brtt. á því þskj. og er um að veita ungum málara byggingarstyrk. Þessi ungi listmálari er sagður mjög efnilegur málari og prúðmenni í hvívetna, en er í húsnæðisvandræðum. Hér er aðeins farið fram á heimild, en það er ekki skylda ríkissjóðs að veita styrkinn, þótt till.samþ., og áður en slíkur styrkur er veittur, ber að athuga allar aðstæður, bæði fjárhag og aðstæður mannsins. En ég tel rétt, að Alþ. styrki þennan unga og efnilega málara. Þá vildi ég minnast á brtt., sem er í prentun. Hér á þskj. 691 er 17. brtt. um að veita 10.000 kr. til ætt- og mannfræðifélagsins. Þessi veiting er hálf frá því í fyrra, en bæði var það, að ósk um þetta kom heldur seint, og heldur var þrengri fjárhagurinn, og ætla ég ekki að breyta um tölur á þessari till. Ég vona, að það verði lagað á næstu fjárl.. ef unnt er. Nú er lokið útgáfu manntalsins frá 1703, sem er mjög merkilegt heimildarrit. En félagið ætlar að halda áfram útgáfustarfsemi sinni og gefa út manntalið frá 1816, og er það verk í prentun. Það verður látlaus og ekki dýr útgáfa, en þar verða settir fæðingarstaðir allra, er um getur, og kostar sú eftirgrennslan mikið fé og erfiði. Ég veit, að enginn hv. þm. er á móti því að veita 10 þús. kr. til félagsins. En ég vildi fella niður þá „klásúlu“, sem sett var í fyrra, og að í stað hennar kæmi: „til útgáfu manntalsins frá 1816“. Það er rétt, að Alþ. sjálft viti, til hvers veitt er, en sé ekki að skjóta því til annarra, og veit ég, að hv. þm. munu samþykkja þetta.

Ég hef þá lokið máli mínu og vildi leggja þar sérstaka áherzlu á, að ekki verði látið biða að leiðrétta 18. gr. fjárl., og ber ég það traust til núverandi ríkisstj., að ég treysti henni til að koma þessum málum í viðunandi horf.