23.04.1947
Sameinað þing: 45. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í B-deild Alþingistíðinda. (562)

12. mál, fjárlög 1947

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég vil gera hér fyrirspurn til hæstv. fjmrh. varðandi landhelgisgæzlu og samninga þá, sem gerðir voru af fyrrverandi ríkisstj. við Slysavarnasveit Vestfjarða um það, að byggð yrði björgunarskúta fyrir Vestfirði, sem um leið hefði á hendi landhelgisgæzlu. Eins og kunnugt er, voru keyptir 3 bátar í Englandi í þeim tilgangi, að þeir yrðu notaðir við landhelgisgæzluna, en þessir hraðbátar reyndust ekki nothæfir til þess starfs. Þessum bátum var því skilað aftur til Englands, og mun andvirði þeirra liggja þar inni á sérstökum reikningi. Nú vildi ég spyrja hæstv. ráðh., hvort ekki mundi hægt að nota þetta fé til þess að uppfylla þennan samning, sem gerður var við slysavarnasveitina á Vestfjörðum.

Fari svo, að hæstv. fjmrh. svari þessu neitandi, mun ég ásamt öðrum hv. þm. frá Vestfjörðum bera fram brtt. við 22. gr., um að uppfylla þennan samning. En ef hins vegar hæstv. fjmrh. telur, að nota megi fé þetta í þessu skyni. þá mundi ég láta mér nægja þá yfirlýsingu.