23.04.1947
Sameinað þing: 45. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í B-deild Alþingistíðinda. (570)

12. mál, fjárlög 1947

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér virðist á þeirri afstöðu, sem fram kemur í till. hv. meiri hl. fjvn. og enn fremur í ýmsum hugleiðingum, sem hér hafa komið fram af hálfu hæstv. fjmrh. og einnig hv. form. fjvn., að hér sé nú ekki sami stórhugur og oft áður. Svo undarlega fljótt ætlar að hverfa sá stórhugur, sem undanfarið hefur einkennt ráðstafanir Alþingis viðvíkjandi framkvæmdum og aðgerðum í okkar þjóðlífi. Nú virðist hann vera að byrja að víkja fyrir bölsýni, enda er þetta í fyrsta skipti í langan tíma, sem beinlínis er lagt til eftir 2. umr. að byrja á almennum niðurskurði á ýmsum verklegum framkvæmdum. Ég held, að þessi bölsýni og þessi niðurskurðartilhneiging, sem þar koma fram, eigi sér ekki rök, því síður að það sé ástæða til þess, eins og við horfir í okkar þjóðlífi, að fara nú inn á þessa braut. Það er talað um það, að um þessar mundir sé ekki eins gott útlit og áður um okkar afurðasölu. Ég verð að segja, að mér finnst einkennilegt að fá svona yfirlýsingar hér á þingi frá hæstv. ríkisstj., án þess að nokkur sönnun komi fram fyrir því, að útlitið sé nokkuð verra, en búast mátti við. Ég held, að ef hæstv. ríkisstj. vill nota svona rök hér á þingi, þá eigi að gefa upplýsingar um, hvernig gangi með þessa samninga erlendis. Það er ekki til neins að veifa því framan í hv. þm., að samningar gangi illa og verr, en vonir stóðu til, en segja svo ekki nokkurn skapaðan hlut ákveðið, í hverju þetta slæma ástand er fólgið. Fram að þessu hefur gengið vel hjá okkur að afla, og þó að nokkuð hafi verið erfitt hvað gæftir snertir, þá hygg ég, að aflinn sé meiri nú, en á sama tíma í fyrra. Hvað verðið snertir, þá eru a.m.k. síldarafurðirnar í miklu hærra verði en í fyrra, og á sumum sviðum má búast við, að meiri framleiðslutæki verði í gangi, en áður og því harla ólíklegt, að gjaldeyristekjurnar verði minni en áður, heldur þvert á móti líkur til, að þær verði 50% meiri, en í fyrra. Ég held því, að bölsýni. hvað þetta snertir, eigi sér alls enga stoð og það sé á allan hátt óréttmætt fyrir hæstv. ríkisstj. að koma með það sem rök í þessum umr. í sambandi við niðurskurð á fjárl. eftir að aðrar eins álögur hafa verið lagðar á alþýðu manna og gert hefur verið, að útlitið sé svo slæmt, að nauðsyn beri til að skera niður. Ég held, að áður en hv. þm. fara að taka slík rök gild, þá verði betri upplýsingar að koma frá hæstv. ríkisstj. og æskilegt, að þær upplýsingar kæmu fram nú, ef ætlazt er til, að þetta tal verði álitið eitthvað meira en venjulegur barlómur. Það er að vísu gott að eiga góða búmenn, líka fyrir ríkissjóð. Það hefur lengi þótt aðalbúmennskan á Íslandi að kunna að barma sér og þess vegna sé rétt að gera það, hvenær sem hægt er að koma því við, en það er alveg rétt, sem hv. form. fjvn. komst mjög réttilega að orði í Ed. fyrir stuttu, að stundum kunni eyðsla úr ríkissjóði að verða til þess að færa meiri peninga aftur til baka. Ég verð því að segja, að ég get ekki tekið þær röksemdir gildar, sem hér hafa komið frá hæstv. ríkisstj., að útlitið sé svo slæmt um afurðasölu okkar og verðlag, að til þess sé ástæða að vera með bölsýni. Ég held, að eina ástæðan til þess að vera með þessa bölsýni standi í sambandi við stjórnarfarið í landinu og þá stefnu, sem tekin hefur verið upp samkvæmt því á ýmsum sviðum í þjóðmálum okkar, t.d. það, að tekin hefur verið upp sú stefna að láta bankana hætta að lána, hvað byggingar snertir. Allir þeir menn, sem ætluðu sér að byggja í vor, eru nú að gefast upp við það, því að þeir fá engin lán. Nú halda máske sumir, að þetta sé góð ráðstöfun, að hingað til hafi verið byggt of mikið í Reykjavík, en of lítið úti á landi, og nú sé hér stefnubreyting á ferð, þannig að nú þyki bankastjórunum ráðlegt að draga úr lánum til bygginga hér í Rvík og veita meira fé út á land. En því er ekki að heilsa. Sömu erfiðleikarnir blasa við, hvert sem maður lítur, að fá þessi lán. — Nú er það svo, að fyrst ríkið gerir þær ráðstafanir að fara að láta bankana reka slíka lánapólitík og ríkisstj. þykir það skynsamlegt, þá skyldi maður ætla, að þetta væri gert með það fyrir augum, að ríkið sjálft fengi betri aðgang að vinnumarkaðnum fyrir sínar eigin framkvæmdir, því hefði þótt einstaklingarnir kreppa of mikið að sér á undanförnum árum, en það þyrfti á svo miklu vinnuafli að halda, að það yrði nú að taka í taumana. En því er ekki heldur að heilsa. Samtímis því, að þannig er skrúfað fyrir og dregið úr byggingum, sem einstaklingar hafa lagt í, og einstaklingsfyrirtækjum þannig gert erfitt fyrir, sýnist mér nú stefnt að því með þeim áhrifum, sem menn hafa verið að reyna að hafa á fjvn. og að nokkru leyti hefur tekizt, að skera niður hjá ríkinu líka. Ég heyri, að hér í hliðarherbergi er verið að kvarta undan því, að þessi niðurskurður hafi ekki tekizt. En þó að fjvn. hafi kannske tekizt að smeygja inn örlitlum framlögum, er vilji ríkisstj. og stefna hennar engu að síður ótvíræð. Ég held því, að það sé stefnt í skakka átt hjá ríkinu með þessum aðgerðum, og get ekki betur séð en með þessu sé beinlínis verið að reyna að skapa kreppu hér innanlands, skapa atvinnuleysi, og afleiðingin af því, að slík kreppa yrði sköpuð, yrði sú, að fjöldamargir menn, sem undanfarið hafa ráðizt í byggingar og nú eiga erfitt með að fá lán til þess að klára þær eða hafa ráðizt í byggingar í trausti þess að fá lán til þeirra og jafnvel stundum uppörvaðir af þeim loforðum, sem gefin voru fyrir síðustu kosningar um fjárframlög til þeirra, og af l., sem samþ. höfðu verið á Alþ. um slík fjárframlög — ég get ekki betur séð, en með þessum aðgerðum sé verið að leiða það yfir þessa menn. að þeir verði að selja þessi hús, enda held ég, að í einu stjórnarblaðinu hafi núna nýlega birzt mynd af samvinnubústöðum, sem verið er að koma upp og líklegt er að verði að selja í hendur auðmönnum í Reykjavík, vegna þess að þeir geta nú ekki fengið lán til þeirra. Með þessum ráðstöfunum, að skrúfa fyrir þessi lán, er þess vegna að því stefnt að skapa hrun og kreppu á Íslandi, og virðist a.m.k. full ástæða til, að ríkisstj. gerði grein fyrir því, hvert hún stefnir með þessu og hvað fyrir henni vakir. Sú grg. hefur ekki komið fram af hennar hálfu ennþá. En einu má slá föstu: að slík kreppa er að öllu leyti óþörf og engin rök, sem fyrir henni liggja, og hún er beinlínis heimatilbúin, vitandi vits.

Hvað snertir annars þær brtt., sem meiri hl. fjvn. gerir viðvíkjandi niðurskurðinum, vildi ég aðeins minnast á tvö atriði, þ.e. hafnirnar og vegina. Viðvíkjandi höfnunum hefði þurft að auka mjög við, frekar en að skera niður. Ég álít, að viðvíkjandi höfnunum hafi það á vissan hátt verið vandræðapólitík, sem rekin hefur verið hjá okkur undanfarið. Það hefur löngum verið sú tilhneiging að skipta fénu á marga staði, búa til fjölda af höfnum í einu og láta féð liggja þar, án þess að það komi að notum langa lengi. Við þetta er erfitt að fást, meðan svo háttar til með kjördæmaskipun og annað eins og nú er. En af teknískum ástæðum hefði verið nauðsynlegt að breyta þarna til, að geta tekið þær hafnir, sem mikið liggur á, sett fé í þær og klárað þær, og við vitum, að með þann stóra skipaflota, sem Íslendingar eru að afla sér, verða víðs vegar vandræði vegna hafnleysis, og það er vitað, að með þessu móti verða hafnirnar langt á eftir þeirri þróun, sem á sér stað í sjávarútveginum á Íslandi. Það er því slæmt, að orkað hefur verið á fjvn. í þá átt að draga úr fjárveitingu til hafnargerða, í stað þess að þurft hefði að hækka framlög til hafna stórlega.

Viðvíkjandi vegavinnunni og framkvæmd á henni þá er það svo, að það var eitt af því, sem búizt var við, að taka mundi verulegum stakkaskiptum hjá okkur með nýsköpuninni, hvað vinnulag snertir, að vinna mætti miklu meira af vegavinnu og ódýrari á hvern spotta. Þó væri skilyrðið til þess, að slíkt gæti orðið, þessi nýi vinnusparnaður, sem ná mætti með afköstum vélanna, að sem lengstir vegaspottar yrðu lagðir á hverjum stað, hlutfallslega lengri en áður, þannig að ekki færi langur tími í að flytja þessar vélar á milli. og einnig, að teknir yrðu fyrir sem lengstir vegakaflar á einstökum vegum. En það gildir alveg það sama um vegina og um hafnirnar. Þess mun ekki að vænta, að ríkisstj. geri neitt til þess að greiða fyrir því, að svo megi verða. Þvert á móti hefur ríkisstj., eftir því sem hún hefur orkað, dregið úr því, að stefnt væri í þá átt í þessum efnum, sem mörkuð var í upphafi nýsköpunarinnar.

Það hefur verið sagt hér af hálfu ríkisstj., að allur þessi niðurskurður stafaði af því, að ekki væri hægt að afla meiri tekna í ríkissjóð. Þetta er sagt rétt eftir að búið er að samþykkja hér í þingi 40–50 millj. kr. álögur á almenning í landinu. Í þessu sambandi hefur verið spurt að því, hvernig við sósíalistar vildum fara að því að skaffa tekjur í ríkissjóð. Ég vil í því sambandi spyrja hæstv. ríkisstj., hvernig á því stendur, að frv. um innkaupastofnun ríkisins, sem lagt var fram í Ed. fyrir löngu, gengur svona hægt gegnum þingið. Það fór til fjhn. og mun liggja þar enn. Nú er það svo, að ef maður vill koma fram með lagafrv., sem mundu þýða tekjuöflun fyrir ríkissjóð, t.d. um einkasölu, fer það venjulega svo, að frv. fer til n., sofnar þar svefni hinna réttlátu og sést svo ekki meir.

Ég vildi svo að síðustu fara nokkrum orðum um brtt., sem ég flyt á þskj. 702. Fyrst er smátill. viðvíkjandi lendingarbótum fyrir Grafarnes, að tillagið verði hækkað úr kr. 63.800 í 100 þús. kr. Eins og ég skýrði frá við 2. umr., er að vaxa þarna lítið þorp, og leikur mönnum þar hugur á að koma upp hraðfrystihúsi, en til þess er óhjákvæmilegt, að varið verði til lendingarbóta allmiklu meira fé en fjvn. hefur lagt til. — Þá er enn fremur brtt. við 20. gr., nýr liður, um byggingu listasafns ríkisins. Eins og þm. mun kunnugt, þá var í sambandi við lýðveldisstofnunina ákveðið af Alþ. að byggja þjóðminjasafn, og var það vel, að Alþ. skyldi sýna þann stórhug að ráðast í þá byggingu, því að það er eitt af því, sem okkur er nauðsynlegast, vegna þess hvílík þörf okkur er á því á allan hátt að kynna sem allra mest sögu okkar og vinna að því sem bezt, að þráðurinn slitni ekki við þær miklu breyt., sem nú eru að verða efnahagslega séð og andlega í okkar landi. Hins vegar er það svo, að íslenzka ríkið á allmikið af listaverkum og — það, sem meira er um vert — mikið af efnilegum listamönnum, málurum og myndhöggvurum, en við höfum fram að þessu engan stað haft fyrir listaverk þeirra, þegar undanskilið er listasafn Einars Jónssonar. Það kveður svo rammt að þessu geymsluleysi, að meira að segja málverk, sem ríkið hafði keypt, hafa glatazt vegna þess, að þeir, sem höfðu átt að sjá um þetta, hafa skilið þau eftir hér og þar, og hafa þau svo eyðilagzt.

Við vitum, hvaða tjón hefur hlotizt af því fyrir okkur að hafa þrengt niður stórum og fallegum byggingum þar sem fullt er af húsum í kring, t.d. þjóðleikhúsið við hliðina á annarri byggingu, sem mér þykir ein fallegasta bygging á landinu, þannig að hvorug nýtur sín. Við hér á Íslandi ættum ekki að þurfa að kvarta yfir því, að jörðin væri of lítil. En nú þyrfti að fara að búa út teikningar og ákveða hvar safnið á að vera, og þess vegna er lagt til, að ríkisstj. fari að gera áætlanir um þetta. Ef samkomulag gæti orðið í þessu, mundi ég líka ganga inn á að taka sérstaka upphæð á fjárlög vegna þessa.

Svo langar mig að síðustu að koma inn á það, að ég hef saknað að sjá ekki á fjárl. framlagið til ræktunarsjóðs, en hef samt ekki komið með brtt. varðandi það. Það er jú framlag, sem hefur verið 1–3 millj. kr., og mér fyndist, að það þyrfti að koma inn á fjárl. nú. Ég tók eftir því, að þegar þetta var rætt hér á síðasta þingi, þá virtist ríkja áhugi á að tvöfalda þetta framlag, og ég hygg, að sá áhugi hafi ekki minnkað upp á síðkastið. Ég tel, að það sé viðkunnanlegra að öllu leyti að fá brtt. um þetta efni inn á fjárl. Ég kunni ekki við að bera sjálfur fram brtt. um þetta, a.m.k. ekki án þess að kynna mér fyrst, hvernig þarna horfir við. Það er nú svo, að þegar farið er að koma með till. um fjárframlög, eftir að afgreiðsla fjárl. hefur farið fram, þá er farið að telja úr og segja, að ekki hafi verið gert ráð fyrir þessu á fjárl. Ég þykist vita, að þeir, sem áhuga hafa á ræktunarsjóði, vilji ekki fá slíkar röksemdir um þetta mál, þannig að það er skemmtilegra að fá samþykkta við þessa umr. fjárl. einhverja upphæð, hvort sem hún yrði svo hækkuð eða lækkuð. Það eru gerðar miklar kröfur til fjárframlaga, og því þá endilega að hlífast við að gera kröfur til fjárframlaga til ræktunarsjóðs. Ég minnist þess, að þegar verið var að ræða tollafrv. og minnzt var á landbúnaðarvörur, fóðurmjöl og þess háttar, þá þótti ekki taka því að lækka tolla á því, sem landbúnaðurinn þurfti á að halda, t.d. á landbúnaðarvélum, og ætti að vera ástæða til að taka tillit til þessa í sambandi við ræktunarsjóðinn. Ég vildi og koma fram með fyrirspurnir í sambandi við tekjuöflunina. t.d. um, hvað líður eignakönnunarfrv., og vona ég að fá greið og góð svör. Ef til vill fæ ég tækifæri til þess að ræða frekar um þetta og koma fram með brtt., ef ástæða þykir til, varðandi fjárhagsráð.