23.04.1947
Sameinað þing: 45. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í B-deild Alþingistíðinda. (574)

12. mál, fjárlög 1947

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég hef gerzt meðflm. að tveim till. á þskj. 704, 1. og III. — Fyrri till. fer fram á að hækka styrk til blindrastarfseminnar um 1.500 kr. Er þetta gert í því skyni að greiða fyrir einum slíkum manni, sem sú óhamingja hefur steðjað að, að hann er ekki sjáandi, og vil ég vænta þess, að hv. þm. geri sitt til þess að ráða bót á þessu, að því leyti sem hægt er, með því að fallast á þessa smávægilegu fjárveitingu. Þessi maður hefur yndi af hljómlist, og mun upphæðin vera ætluð til þess að auðvelda honum að afla sér útvarpstækis. Annars hygg ég, að hv. 1. flm. till.. sem málavöxtum er kunnugri en ég, muni gera nánari grein fyrir henni.

Þá hef ég einnig gerzt meðflm. að III. till. á sama þskj. ásamt samþm. mínum. Veit ég, að hann mun einnig gera grein fyrir henni, en mun aðeins fara um hana nokkrum orðum. Það hefur orðið prentvilla í till., hvað snertir fjárupphæðina. Þar stendur 35 þús. kr., en eiga að vera 3.500 kr., sem farið er fram á til handa Ásgeiri Hraundal, Stokkseyri í viðurkenningarskyni fyrir störf hans við húsdýralækningar. Þessi maður er laginn við að lækna dýr, og þó að leitað sé til lærðs dýralæknis í nauðsynlegum tilfellum, þá er oft hlaupið til þeirra manna, sem hafa nokkra þekkingu og lagni til að bera til þess að hjálpa dýrum. Þessi maður hefur talsvert starfað að þessum málum, ég ég tel að hann hafi oft gert gagn með starfi sínu. Finnst mér því vel til fallið að sjá það við hann með ofurlítilli fjárupphæð frá ríkinu, því að venjulegast mun það vera svo, að þessir menn taka lítið fé fyrir ómak sitt hjá þeim, sem vitja þeirra.

Ég ætla svo ekki að gera að umtalsefni, hvorki aðrar till. eða fjárlagafrv. Vænti ég þess, að hv. þm. geti samvizku sinnar vegna fallizt á að samþykkja þær till., sem ég hef hér rætt.