25.04.1947
Sameinað þing: 46. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í B-deild Alþingistíðinda. (583)

12. mál, fjárlög 1947

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur svarað hér nokkrum orðum, sem ég beindi til stjórnarinnar viðvíkjandi nokkrum framkvæmdum, þegar fyrri umr. fór hér fram. Hæstv. forsrh. er hér ekki nú, en hann er vafalaust í húsinu, svo að það ætti að vera hægt að koma orðum til hans.

Forsrh. taldi, að ekki væri hægt að ásaka stjórnina fyrir skort á stórhug eða fyrir, að ekki væri stefnt að miklum framkvæmdum, en benti þess í stað á, að ætlunin væri að auka þær, og vildi færa fram sem innlegg fyrir sína stjórn, að hún vildi ekki skera niður. Hann talaði um, að nú væri um 6–8 millj. meira ætlað til ýmissa framkvæmda og benti á barnaskólabyggingar, raforku í sveitum og hafnargerðir og reiknaði út, hve miklu meira væri ætlað til þessara hluta.

Er það nú þessari stjórn að þakka, að þessir útgjaldaliðir standa á fjárl.? Er það þessi stjórn sem hefur komið löggjöfinni í gegn, eða er stjórnin bara að framkvæma þau l., sem fyrrv. stjórn fékk sett?

Ég býst við, að allir viti, að skólalöggjöfin var sett í tíð fyrrv. stjórnar og að núverandi stjórn er ætlað að framkvæma hana, en það er álit margra, að hún muni haga framkvæmdum sínum þannig, að ekki verði hægt að koma upp neinum skólabyggingum. Þetta er því ekki fyrir núverandi stjórn til þess að hrósa sér af, þar sem hún ef til vill bregzt því trausti, sem Alþ. ber til þess, að hún framkvæmi löggjöfina eins og til var ætlazt.

Um rafmagnsmálin er það að segja, að ég býst við að þessi 21/2 millj. hrökkvi skammt, og það gildir það sama um það, að löggjöfin um raforkuveitur er sett í tíð fyrrv. stjórnar og núverandi stjórn mun ekki standa við hana.

Viðvíkjandi hafnargerðum voru sett mjög víðtæk l., en ekki hafa verið gerðar af núverandi stjórn ráðstafanir til að framkvæma þau l.

Það er því svo, að meginið af því, sem forsrh. taldi upp, voru orsakir af l., sem sett voru í tíð fyrrv. stjórnar, og núverandi stjórn gerir það, sem hún getur, til þess að eyðileggja þau, en getur ekki komizt hjá að taka á fjárl. allmikið af þeim l., sem snerta þetta.

Þá benti hæstv. forsrh. á, að ætlað væri einni millj. hærra til vega og 2,6 millj. hærra til hafna, en á s.l. ári.

Við skulum bera þessar ráðstafanir saman við ástandið í þjóófélaginu að öðru leyti. Nú er það ekki þessari stjórn að þakka, að þetta er svona hátt. Afskipti hennar hafa verið þau, að taka við því, sem hefur verið sett í l. Það var fyrst og fremst fjvn., sem lagði fram há fjárl., og áhrifin frá núverandi stjórn hafa eingöngu verið í þá átt að draga úr því, sem fjvn. taldi nauðsynlegt. Það er starf núverandi stjórnar að draga úr því, sem fyrrv. stjórn hefur gert, og því, sem fjvn. hefur gert. Það er því eitthvað annað en að núverandi stjórn geti hælt sér af því, að þessi fjárl. eru það, sem þau eru í verklegum framkvæmdum. Hennar framkvæmdir eru eingöngu niðurskurður, annaðhvort á till. frá fyrrv. stjórn eða frá hv. fjvn.

En svo, borið saman við þörfina hjá þjóðinni, hvernig er þetta þá? Inn á það þorði hæstv. forsrh. ekki að koma. Ég spurði, hvers vegna hann léti bankana loka fyrir alla lánastarfsemi nú, svo að enginn maður geti komið byggingum af stað. Forsrh. svaraði því ekki neinu, og virtist það þó þýðingarmikið. Sérstaklega hefur byggingarvinna þó mikla þýðingu til þess að tryggja mönnum atvinnu. Nú er það þannig, að úr þessari vinnu er stórkostlega dregið. Það er fjöldi manna, sem ætlar að byggja, en hefur orðið að hætta við það. Svör við þessu hefur hæstv. forsrh. ekki viljað láta okkur þm. í té, þess vegna er ekki óeðlilegt fyrir okkur að álykta, að hér sé verið að gera ráðstafanir til þess að draga úr atvinnu manna. Þó að í fjárl. nú séu til vegagerða og hafnargerða 3 millj. kr. meira, en í fyrra, þá segir það ekki neitt á móti þeim tugum millj.. sem byggingarvinna verður minnkuð um, svo framarlega sem þessi pólitík verður látin halda áfram. Það gat komið til mála að vinna að miklum ríkisframkvæmdum eða að áhugi hjá einstökum félögum væri svo mikill og lánveitingar frá hálfu bankanna og aðstaða ríkisins svo stórkostleg, að með því væru tryggðar framkvæmdir. En þegar þetta er ekki fyrir hendi. þá hlýtur maður að álykta, að ríkið ætli að tryggja sér vinnukraftinn. Þetta virðist þó ekki vera tilgangur ríkisstj., og þegar það kemur fram, að ríkisstj. áskilur sér heimild til að skera niður fjárl., sem nú við þessa 3. umr. er látið svo sem þau séu ekki niðurskorin, þá er auðséð, að hverju er stefnt. Ég beindi þeirri fyrirspurn til ríkisstj., hvað liði tekjuöflunarfrv. þeim, sem hún hefur lýst yfir, að hún ætli sér að láta koma, og hv. forsrh. kom heldur ekki inn á að gefa upplýsingar um það. Ég spurði um eignakönnunarfrv., hvað því liði, sem lýst hefur verið yfir af einum hæstv. ráðh., að koma mundi bráðlega fyrir þingið, og gengið er út frá í hagfræðingaálitinu, og það hefur ekkert heyrzt, hvað liði þessu frv. Það er vitanlegt, að þetta eignakönnunarumtal er þegar búið að gera mikinn skaða hvað atvinnulífið snertir, þó að það hafi kannske gert nokkuð gagn hvað skattaframtöl snertir. En það er vitað, að ef þetta eignakönnunarumtal heldur áfram, þá er það mikill skaði, sem það gerir. Þess vegna er nauðsynlegt, að Alþ. fari að sjá þetta frv. og segja til um það, hvort það vill samþ. það eða ekki. Og ríkisstj. vill ekki gefa skýringu á því, hvernig á því stendur, að þetta dregst, þó að það sé vitað, að þarna er tekjuöflun upp á tugi millj. kr. — tekjuöflun, sem á að verja til verklegra framkvæmda í stórum stíl. Þess vegna er einkennilegt að gera stórkostlegar ráðstafanir í sambandi við fjárl. þess árs án þess að vita, hvort svona tekjuöflunarleið verður samþ. eða ekki. Enn fremur er það mjög einkennilegt og skaðlegt á vissan hátt fyrir þjóðfélagið að hafa svona hugmyndir og jafnvel loforð ríkisstj., eins og er viðvíkjandi eignakönnuninni, með þeim áhrifum, sem það hefur á atvinnulífið, þegar ekki eru einu sinni gerðar ráðstafanir til að fara að skammta vörur, sem til eru í landinu. og þá er vitanlegt, að mikið er að því gert af mönnum, sem hafa mikið fé og ekki treysta sér allt of vel til að skýra það fyrir skattal., að kaupa upp allt, sem til er með þjóðinni. Það væri þess vegna heppilegt að fá slíkar upplýsingar um þetta nú hjá ríkisstj., þegar verið er að taka ákvörðun um það, hvernig skuli fara með þetta mál, ekki sízt þar sem kunnugt er að komnar eru tvær vikur síðan n. vann að þessu frv. og skilaði áliti til ríkisstj., sem liggur hjá stj. Það er búið að benda ríkisstj. á nægar leiðir til að fá fé í ríkissjóð bæði með því að taka af verzlunargróðanum og leggja skatt á stóríbúðir og annað slíkt. En það er annað, sem kemur til greina. ríkisstj. hefur engan vilja á því að taka féð hjá þeim, sem hafa mest af því. Ríkisstj. vill leggja nefskatt á alþýðu manna, það er eina leiðin, sem hún sér, og þegar hún lofar að gera eitthvað meira og búa til frv., þá koma frv. ekki fram eða þau eru látin sofna í n. Og þegar svo samtímis eru gerðar ráðstafanir til þess að skapa atvinnuleysi í landinu, þá er auðséð, hvert stefnir. Það væri þess vegna full ástæða til þess fyrir ríkisstj. að gefa við þessa umr. betri skýringar á fjármálum landsins. Þær hafa enn ekki fengizt. Ef til vill verður þess kostur seinna, að þingið reyni að knýja þetta fram, en minn grunur er, að ríkisstj. þykist hafa ástæðu til þess að láta sem minnst uppi af því, sem fyrir henni vakir, vegna þess að hennar fyrirætlanir í þessum fjármálum þoli ekki dagsins ljós.