25.04.1947
Sameinað þing: 46. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í B-deild Alþingistíðinda. (587)

12. mál, fjárlög 1947

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins víkja örfáum orðum að brtt. á þskj. 714, sem ég flyt ásamt hv. 1. þm. Skagf. 1. apríl lét af störfum hjá ríkinu einhver duglegasti og mætasti starfsmaður þess, Gunnlaugur Kristmundsson sandgræðslustjóri. en hann réðst til þess starfa fyrir 40 árum. Það fer ekki á milli mála, að starf hans hefur verið með allra beztu og vönduðustu störfum fyrir ríkið. Hann hefur unnið þjóðnytjastarf á þann hátt, að til sérstakrar fyrirmyndar er, verið duglegur, praktískur og komið miklu í framkvæmd og þó sparsamur á fé ríkisins. Öllum er ljóst, er lita til sandgræðslunnar, hverjum stakkaskiptum landið hefur tekið, þar sem hann var að verki. Þegar hann hætti störfum, var um það rætt við Búnaðarfélag Íslands og búnaðarmálastjóra, að hann héldi fullum launum, enda orðinn gamall maður, sem leyst hafði af hendi svo mikið og gott starf. Nú hafði fjvn. borið fram till. um að veita honum fjárupphæð, sem mér og fleirum virtist í fyrstu samsvara fullum launum. En það kom í ljós, að sú upphæð reyndist ónóg, og höfum við hv. 1. þm. Skagf. því borið fram brtt. um að veita honum full laun frá 1. apríl. Ég tel mig ekki þurfa að hafa um þetta fleiri orð. Ég veit, að hv. þm. eru fullkunnugt um störf Gunnlaugs, og vona því, að þessi till. verði samþ. Ég vildi biðja hæstv. forseta um afbrigði fyrir till., þar eð hún er bæði skrifleg og of seint fram komin.