25.04.1947
Sameinað þing: 46. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í B-deild Alþingistíðinda. (599)

12. mál, fjárlög 1947

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Hv. þm. Barð., form. fjvn., játaði það, að hann hefði að nokkru farið með rangt mál viðvíkjandi Norður-Ísafjarðarsýslu. Hann hafði þar haldið fram, að fjárveitingar til þessa kjördæmis hefðu hækkað á annað hundrað þúsund kr. síðan við 2. umr., en varð síðar að játa, að það væri ekki nema 40 þús. kr. Skýring hans á því, að hann hefur komizt að hinni fyrrnefndu niðurstöðu, var sú, að þm. N-Ísf. hefði hvíslað því í eyra sér, að hann hefði fengið loforð fyrir því, að 100 þús. kr. fjárveiting skyldi koma til brimbrjótsins í Bolungavík, eftir að fjárl. yrðu afgr. Það var auðvitað nokkuð annað og rangt að færa þetta undir þá hækkun, sem orðið hefur á fjárl., frá því þau voru til 2. umr., og gat ég ekki vitað, hvað þeir hafa hvíslazt á um þetta. „Hvat mælti Óðinn í eyra Baldri, áðr á bál stigi?“ Það var hlutur, sem erfitt var fyrir menn að vita. En nú hefur hv. þm. N-Ísf. upplýst, að einnig þetta hefur verið rangt eftir honum haft. Hann hefur ekki fengið loforð fyrir neinni sérstakri fjárveitingu til þeirrar sýslu, heldur vilyrði, sem tekur ekki til Norður-Ísafjarðarsýslu einnar umfram önnur kjördæmi. Hv. þm. Barð. hefur þarna ruglað saman við þetta meðferð allt annars máls, en hér er um að ræða og reynt að blekkja þm. með tölum, sem eru ekki rétt með farnar, og er það mjög leitt, að slíkt skuli hafa hent form. fjvn.