25.04.1947
Sameinað þing: 46. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í B-deild Alþingistíðinda. (602)

12. mál, fjárlög 1947

Eiríkur Einarsson:

Ég vil þakka hv. frsm. fjvn. fyrir hin greinargóðu svör við því, sem ég drap á. Það er lagt fram þetta og þetta mikið til samgöngubóta í landinu, en oftast er svo deilt um, fyrir hvaða hérað það sé gert. Hvað snertir Ölfusárbrúna, þá held ég að engum blandist hugur um það, hversu mörgum sveitum hún kemur að gagni, og því ástæðulaust að vera að þrefa um það. Eigum við ekki alveg að sleppa því, sem gert er fyrir Þingvöll, hvað snertir samgöngubætur? Það, sem fyrir þann stað er gert, hygg ég, að sé ekki gert fremur fyrir Árnessýslu en fyrir alla þjóðina í heild. Ég er ekki að segja, að það sé svo sem neitt illyrmislegt við þessi ummæli um Þingvöll, en heldur eins og litlu krakkarnir segja stundum — svona smávegis „púkó“.

Ég er auðvitað þakklátur hv. frsm. fjvn. fyrir það, að framlagið til Skálholtsskóla skyldi ekki fellt burtu, því að ég vissi, að raddir voru uppi um það, og þakklátur honum fyrir þá einstöku góðvild, sem hann hefur sýnt við að bjarga þessu á þurrt land.

Ég hélt satt að segja, að fulltrúar bændastéttarinnar ættu að vera síðastir til þess að segja, að ekki væri þörf fyrir 3 bændaskóla, af því að þessir, sem fyrir eru, eru ekki fullskipaðir. Þetta minnir á uppdráttarsýki í vorgemsum, slíkur hugsunarháttur, og er hann hinn furðulegasti.