28.04.1947
Sameinað þing: 48. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (626)

12. mál, fjárlög 1947

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. háttvirtu hlustendur. Þessi fjárlög bera þess merki, að þau eru undirbúin af fráfarandi ríkisstj., stjórn nýsköpunarinnar. Þau eru vottur þess, að ekki hefur enn tekizt að stöðva hjól þróunarinnar, hinar stórstígu framfarir í atvinnumálum, menningarmálum og félagsmálum, sem fráfarandi stjórn hleypti af stokkunum. Þau sýna það og sanna, að erfitt mun reynast að afmá hin djúpu spor, sem stefna nýsköpunarinnar hefur markað.

Við 3. umr. hefur stjórnin látið lækka allar greiðslur, sem ekki eru bundnar með lögum, um 15%, þ.e. skera niður um 15% framlög til næstum allra verklegra framkvæmda, til hafnargerða, vega, skólabygginga, sjúkrahúsa o.s.frv. Þetta hefur hún kúgað stuðningsmenn sína til að samþykkja. En ríkisstj. hefur boðað meiri niðurskurð. Til viðbótar við þetta hefur hún látið stuðningsmenn sína samþykkja heimild sér til handa til þess að láta niður falla á þessu ári allar framkvæmdir, sem ekki eru bundnar í öðrum lögum en fjárl., ef henni býður svo við að horfa, „vegna atvinnuástandsins í landinu eða fjárhags ríkisins“ — eins og það er orðað.

Á fjárlagafrv. er ekki séð fyrir fé til að framkvæma, svo að gagni megi koma, l. um aðstoð við byggingu íbúðarhúsa, og er því sýnilegt, að þeim er fyrst og fremst ætlað að vera pappírsgagn, og er það í samræmi við þá stöðvun á byggingum, sem stjórnin hefur þegar framkvæmt.

En stimpil sinn og afturhaldsstefnu sinnar hefur ríkisstj. sett á fjárl. með því að áætla 35 millj. kr. (sem raunar mun reynast allt of lág upphæð) til að greiða niður vísitöluna og afla þess fjár með gífurlegum tollahækkunum á nauðsynjavörum almennings. Í þessu felst heil stefnuskrá, sem gefur miklu meiri upplýsingar um hina raunverulegu stefnu ríkisstj. en hinn svo kallaði málefnasamningur hennar. Mun ég víkja að því síðar.

Árið 1944, þegar fráfarandi ríkisstj. tók við, varð hin mesta stefnubreyting í íslenzkum stjórnmálum, sem orðið hefur um áratugi. Stefna undanfarandi áratuga einkenndist í stórum dráttum af eftirfarandi:

Gjaldeyririnn hafði verið tekinn af útgerðinni og „þjóðnýttur“ til ágóða fyrir heildsalana. Þjóðnýttur er raunar fullkomið öfugmæli, heildsalanýttur, er rétta orðið. Sjávarútvegurinn dróst saman, fjármagnið streymdi úr útgerðinni í verzlunina. Það var kyrrstaða í tækniþróuninni. Atvinnuleysi í stórum stíl var orðið krónískur sjúkdómur í þjóðlífinu. Ráðið gegn atvinnuleysi og erfiðleikum þeirra atvinnugreina, er framleiddu þau verðmæti, sem líf þjóðarinnar byggist á, var aðeins eitt: að lækka kaup manna. Árin fyrir stríð var tekið að skerða mjög hina félagslegu löggjöf landsins í sparnaðarskyni. Næsta sporið var svo þvingunarlög til þess að hefta frelsi verkalýðssamtakanna í því augnamiði að lækka kaupið. Lögregla og óaldarflokkar voru efldir til höfuðs verkalýðssamtökunum.

1944 verða svo alger stefnuhvörf, þegar Sósfl. tók í fyrsta skipti þátt í stjórn landsins. Ég get verið stuttorður um þann árangur, sem náðst hefur á þeim tveim árum, sem sú stjórn fór með völd. Það er öllum landsmönnum í fersku minni. Fiskiskipafloti landsins var tvöfaldaður. Síldarverksmiðjur voru reistar, svo áð afköst þeirra munu nú tvöfaldast, gerðar voru ráðstafanir til að fjórfalda flutningaskipaflotann, hraðfrystihús hafa verið reist, þ. á m. nýtízku fiskiðjuver í Reykjavík. Í undirbúningi var bygging síldarniðursuðuverksmiðju, lýsisherzluverksmiðju og tunnuverksmiðja og fjöldi annarra fyrirtækja fyrir sjávarútveginn. Sementsverksmiðja og áburðarverksmiðja voru einnig í undirbúningi. Gerð hafði verið áætlun um kaup á 25 nýjum togurum í viðbót, um stórvirkar raforkuframkvæmdir, hafnarmannvirki og framkvæmdir í landbúnaði. Samþ. voru l. um hagkvæm lán fyrir sjávarútveginn. Skólakerfi landsins var gerbreytt og komið í fullkomnara horf. Fjöldi skólahúsa var í smiðum eða í undirbúningi. Lög voru samþykkt um viðtækar alþýðutryggingar.

Fiskverðið var hækkað, svo að bæði árin 1945 og 1946 nam þessi hækkun 10 millj. í auknum tekjum til fiskimanna, og enn var fiskverðið stórhækkað á þessu ári með l. um ríkisábyrgð fyrir bátaútveginn, sem samþ. voru fyrir atbeina fyrrv. atvmrh. Með þeim l. var afkoma fiskimanna tryggð á þessari vertíð þrátt fyrir stjórnarskiptin. Í tíð fráfarandi stjórnar var fiskverðið hækkað um 45%.

Grunnkaup hækkaði mjög verulega í nær öllum atvinnugreinum víðs vegar um land. Kaup opinberra starfsmanna stórhækkaði með nýjum launalögum.

Með þátttöku sinni í ríkisstj. tókst Sósfl. að koma í veg fyrir, að Bandaríkin fengju herstöðvar hér á landi fyrir flota og flugher til 99 ára, eins og farið var fram á. Í öllum flokkum nema Sósfl. var almennur vilji að verða við þessum kröfum. Sósfl. gerði það að fráfararatriði, að gengið yrði að þeim. Og það dugði. Hann hafði þjóðina nær óskipta að baki sér. Hinir flokkarnir hikuðu. Þessi árangur er svo mikils verður, að ef hamingjan fylgir okkur, verður hans minnzt í Íslandssögunni sem hins mesta heillaatburðar þessarar aldar. Nú hefur Bandaríkjunum að vísu verið afhent flugstöð, en ef þjóðin sýnir nægilegan einhug og festu í næstu kosningum, eru þó möguleikar til að losna við hin amerísku yfirráð yfir íslenzku landi eftir 6 ár.

En afturhaldinu blöskraði þessi þróun, allar málpípur þess æptu í kór, að nú væri nóg komið. Og í bili hefur því tekizt að stöðva framvinduna. Það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir, hvers vegna svo er komið, hvaða öfl hafa verið að verki, frá því að nýsköpunarstefnan var tekin upp og allt til þessa dags, að afturhaldinu hefur tekizt að stöðva hana.

Upphaf hinnar miklu stefnubreytingar um stjórn landsins 1944 má rekja til ársins 1942, er Sósfl. vann sinn glæsilega kosningasigur. Þá urðu straumhvörfin. Árangurinn af þeim kosningasigri var sá, að verkalýðssamtökin endurheimtu frelsi sitt. Grunnkaup var stórhækkað um land allt, 8 stunda vinnudegi komið á, sumarleyfi og margs konar fríðindi tryggð með samningum. Og 1944 var hafizt handa um nýsköpun atvinnuveganna.

Hvað mundi nú hafa skeð, ef Sósfl. hefði ekki unnið hinn mikla kosningasigur 1942, ekki unnið sigra sína í verklýðshreyfingunni og tekizt að sameina verkalýðinn í Alþýðusambandinu?

Gerðardómslögin mundu ekki hafa verið afnumin. Ennþá mundi grunnkaup almennra verkamanna í Reykjavík vera 1 kr. 45 um tímann og kaup annars verkafólks og starfsmanna um land allt í samræmi við það. 8 stunda vinnudagurinn mundi ekki hafa náð fram að ganga, heldur mundi vinnudagurinn vera 9–10 stundir fyrir dagvinnukaup. Verkalýðssamtökin mundu hvorki hafa samningsrétt né verkfallsrétt og forustumenn þeirra dæmdir til fangelsisvistar fyrir að rísa gegn þrælalögunum. Það mundi engin nýsköpun hafa orðið og orðið smátt um útvegun nýrra markaða, heldur hefðum við orðið að sæta því, sem Bretar hefðu skammtað okkur. Það mundi vera komið atvinnuleysi í stórum stíl, fiskverðið mundi hafa stórlækkað. Það mundi hafa orðið þróun hrunstefnunnar frá heimspeki til raunveruleika. Og víst er um það, að það mundi vera búið að afhenda Ameríku bæði flugstöð og flotastöð hér á landi til langs tíma eða fyrir alla framtíð hins kapítalíska heims.

Haustið 1944 spáðu afturhaldsblöðin, málgögn þáverandi ríkisstj., hruni á næstu grösum. 1945, þegar Bretar hættu að kaupa ísfisk á föstu verði og neituðu að framlengja freðfisksamninginn, spáðu þau, að hrunið mundi koma á næstu vertíð. Og vissulega hefði hrunið komið, ef afturhaldið hefði mátt ráða og farið áfram með völd. Það, sem gerði gæfumuninn, var, að stjórnarskipti urðu í landinu. Því var fiskverðið ekki lækkað, heldur stórhækkað.

Það var hinn aukni styrkleiki Sósfl. og verkalýðshreyfingarinnar, sem varð til þess að hrunstefnumönnum var þokað til hliðar um stund. Á kosningasigri Sósfl. 1942 byggðist stjórnarsamstarfið 1944–1946. Það byggðist eingöngu á breyttum styrkleikahlutföllum, en ekki á endurfæðingu eins eða neins.

En afturhaldið var enn ekki af baki dottið. Allan tímann, meðan fráfarandi stjórn sat að völdum, varð Sósfl. að berjast látlausri baráttu gegn viðnámi þess. Þetta afturhald átti sér öflugan liðstyrk innan samstarfsflokka Sósfl. Á þremur vígstöðvum var sótt fram. Í fyrsta lagi skyldi hefta nýsköpunina með aðstoð embættismanna bankanna. Með tilstyrk Sjálfstfl. og Alþfl. var Jón Árnason, hatramasti fjandmaður nýsköpunarinnar, gerður að bankastjóra Landsbankans. Stjórn Landsbankans tókst ekki að koma í veg fyrir samþykkt laganna um stofnlán til sjávarútvegsins, en með aðstoð Sjálfstfl. og Alþfl. tókst henni að spilla þeim og ná aðstöðu til að geta gert þau óvirk, með því að leggja stofnlánadeildina undir stjórn Landsbankans. Í öðru lagi skyldi heildsölunum gefinn kostur á að reka nokkurn veginn ótakmarkaða gróðaverzlun og eyða til þess þeim gjaldeyri, sem ekki var festur á nýbyggingarreikningi. Þetta tókst með aðstoð Sjálfstfl. og Alþfl. í skjóli viðskmrh. Alþfl. fékk því ráðið, að aðeins 300 millj. af þeim 580 millj., sem Íslendingar áttu erlendis 1944, voru lagðar á nýbyggingarreikning. Í þriðja lagi skyldi afhenda Bandaríkjamönnum herstöðvar. Fyrir því var mjög almennur vilji í öllum flokkum nema Sósfl.

Margir héldu. að aðstaða verkalýðsins yrði sterk í ríkisstj. sjálfri, þar sem verkalýðsflokkarnir áttu 4 ráðherra á móti 2 ráðherrum Sjálfstfl. En reyndin varð önnur. Aldrei kom það fyrir í nokkru ágreiningsmáli, sem einhverju skipti, að ráðh. Alþfl. og Sósfl. stæðu saman gegn ráðh. Sjálfstfl. Það brást ekki, að ríkisstj. skiptist þannig, að annars vegar voru sósíalistar, hins vegar sjálfstæðismenn og alþýðuflokksmenn. Þegar á reyndi, átti alþýðan aðeins tvo ráðherra í stjórninni gegn hinum fjórum.

Svona var ástandið, þegar gengið var til kosninga s.l. sumar.

Það voru 2 stórmál. sem kjósendur áttu að skera úr um með atkv. sínu. Annað var það, hvort nýsköpunin ætti að halda áfram, og hitt, hvort veita skyldi nokkru erlendu stórveldi hernaðarréttindi hér á landi. Þess vegna lagði Sósfl. þá fyrirspurn fyrir Sjálfstfl. og Alþfl., hvort þeir vildu halda samstarfinu áfram að loknum kosningum á eftirfarandi grundvelli: 1. halda nýsköpuninni áfram og gera nýtt samkomulag um áframhaldandi framkvæmdir; 2. engar herstöðvar verði veittar neinu erlendu herveldi; 3. gerðar verði ráðstafanir til að vinna bug á dýrtíðinni. Flokksstjórnirnar fengust ekki til að gefa neitt ákveðið svar.

Allir frambjóðendur voru krafðir afdráttarlauss svars um það, hvort þeir vildu heita því að standa gegn því, að nokkru erlendu herveldi yrðu veitt hernaðarleg fríðindi hér á landi. Allir þm. Sósfl. og nokkrir aðrir þm. gáfu strax afdráttarlaust svar, að þeir mundu vísa öllum slíkum tilmælum erlendra hervelda skilyrðislaust á bug. Aðrir reyndu að skjóta sér undan með því að svara ekki eða gefa loðin svör. Sósfl. skoraði á kjósendur að ljá engum frambjóðanda atkvæði sitt, sem ekki svaraði skýrt og án undandráttar. Þegar á leið kosningabaráttuna, varð flokksstjórnum hinna grunuðu flokka það ljóst, að vilji þjóðarinnar í þessu máli var svo eindreginn, að ekki var hægt að komast hjá að taka afstöðu. Sjálfstfl. lýsti því yfir, að hann mundi undir engum kringumstæðum ljá máls á herstöðvum á friðartímum. Framsókn gaf svipaða yfirlýsingu. Alþfl. gekk þó lengst. Hann lét festa stóran borða fyrir utan kosningaskrifstofu sína, þar sem á var letrað: „Gegn afsali landsréttinda.“ Á lista flokksins í Reykjavík var settur efstur ungur maður. sem tekið hafði sérstaklega skelegga afstöðu gegn ásælni Bandaríkjanna — allt í þeim tilgangi að safna atkvæðum grunlauss og heiðarlegs fólks á landsölulið Alþfl., eins og síðar kom í ljós. Frambjóðendurnir tóku nú hver í kapp við annan að færa kjósendum heim sanninn um, að öllu væri óhætt, þeir mundu standa örugglega á verði um landsréttindi Íslands. Allir nema einn, Jónas Jónsson frá Hriflu, voru kosnir í trausti þess, að þeir mundu aldrei fallast á neinn samning um hernaðarleg ítök á íslenzku landi.

Sömuleiðis kepptust frambjóðendur Sjálfstfl. og Alþfl. við að lýsa afdráttarlausu fylgi sínu og hollustu við nýsköpunina. Jafnvel framsóknarmenn höfðu nú endurfæðzt í trúnni á nýsköpunina. Svo afdráttarlaus var vilji fólksins.

Sósfl. varaði þjóðina við öllum þessum fagurgala. Við útvarpsumr. sagði ég: Það er veruleg hætta á því, að horfið verði aftur að afturhaldsstefnu gömlu þjóðstjórnarinnar, nema skipun Alþingis verði breytt, nema Sósfl. komi mun sterkari út úr kosningunum. Enn fremur sagði ég í þessari sömu ræðu, orðrétt: „Það kemur áreiðanlega ný málaleitun frá Bandaríkjunum eftir kosningar. Svarið við þeirri málaleitun veitur á því, hversu sterkur Sósfl. kemur út úr kosningunum.“ Nú er allt þetta komið á daginn, nákvæmlega eins og við sögðum fyrir. Bandaríkjunum hefur verið afhent herstöð á Íslandi fyrst um sinn til sex og hálfs árs. Stjórnarsamningurinn frá 1944 er rofinn og ný stjórn tekin við, sem afturhaldsöflin í landinu og andstæðingar nýsköpunarinnar standa að. Það er samstarf þjóðstjórnarflokkanna frá 1939.

Ekkert af þessu vildi þjóðin. Yfirgnæfandi meiri hluti kjósenda var andstæður herstöðvasamningnum. Yfirgnæfandi meiri hluti vildi, að nýsköpuninni yrði haldið áfram. Samt kaus þessi sami meiri hluti þá menn, sem bera ábyrgðina á því, hvernig komið er. Aðvörunum Sósfl. var ekki sinnt, nema af allt of fáum. Kjósendur Sjálfstfl. trúðu fagurgala forystumannanna. Hinum taumlausu, samvizkulausu og siðlausu blekkingum Alþfl. var trúað af allt of mörgum. Alvöruorð Sósfl., sem allir mega nú sjá, að var sannleikur og ekkert nema sannleikurinn, voru ekki tekin til greina.

Þetta getur orðið dýr reynsla fyrir þjóðina, en hún er líka dýrmæt, allt of dýrmæt til þess, að hún megi falla í gleymsku.

Þegar Keflavíkursamningurinn var gerður við Bandaríkin í fullkomnu pukri, án þess fulltrúar Sósfl. fengju að vita, hvað var að gerast, var stjórnarsamningurinn rofinn á svo óskammfeilinn hátt, að slíks munu fá dæmi. Þar með var grundvöllurinn fallinn undan stjórnarsamstarfinu. Sósfl. hafði frá upphafi lýst því yfir, að það varðaði samvinnuslit, ef gerður yrði samningur um hernaðarréttindi erlendu ríki til handa gegn vilja flokksins. En þetta var ekki eina ástæðan fyrir því, að stjórnarsamstarfið var úr sögunni, nema nýr samningur yrði gerður, eins og Sósfl. hafði gert skýlausa kröfu til þegar fyrir kosningar. Afturhaldið var að stöðva nýsköpunina. Landsbankinn var að stöðva allar framkvæmdir með neitunum um lán. Það var unnið að því, vitandi vits, að gera l. um stofnlánadeildina og l. um aðstoð við opinberar byggingar að ónýtum pappírsgögnum, án þess að gagnráðstafanir væru gerðar af hálfu ríkisstj. Því varð ekki lengur slegið á frest að gera ráðstafanir gegn hinum taumlausa verzlunargróða og gjaldeyrissóun heildsalastéttarinnar.

Flokksþing Sósfl., sem haldið var í nóvember s.l. lýsti því yfir, að flokkurinn væri reiðubúinn að taka upp samstarf við hvern þann þingmeirihluta, sem vildi fallast á þau skilyrði hans, er veittu örugga tryggingu fyrir þeim tveim meginatriðum:

1. að staðið væri á verði um óskorað fullveldi og friðhelgi landsins;

2. að nýsköpun atvinnuveganna yrði haldið áfram og fullnægjandi ráðstafanir gerðar til þess að tryggja þjóðhagslegan grundvöll hennar.

12 manna nefnd var sett á laggirnar, skipuð fulltrúum allra flokka, til þess að ræða um samstarf þessara flokka. Fulltrúar Sósfl. lögðu hinar ýtarlegu tillögur, sem samþykktar voru á flokksþinginu, fram í þessari nefnd.

Meginatriði þessara tillagna voru í sem stytztu máli: Ráðstafanir til tryggingar sjálfstæði landsins, í 9 liðum, þ. á m. að samningnum við Bandaríkin um Keflavikurflugvöllinn verði sagt upp, strax og Íslendingar hafa rétt til þess, og samningar hafnir við aðrar þjóðir um að tryggja Íslendingum 10 mílna landhelgi og einkarétt til fiskveiða á landgrunni Íslands.

Að komið verði heildarstjórn á nýsköpun atvinnulífsins með áætlunarbúskap fyrir augum, þar sem tryggð verði óskoruð yfirráð ríkisstj. og Alþ. yfir bönkunum og fjármálapólitík landsins, m.a. gert ráð fyrir sérstökum seðlabanka.

Að sett verði á stofn innkaupastofnun þjóðarinnar, sem annist innkaup á öllum vörum til landsins, að svo miklu leyti, sem það ekki er falið samvinnusamtökum og öðrum innkaupastofnunum neytenda, og hinn hóflausi verzlunargróði heildsalastéttarinnar þannig þjóðnýttur. ríki og bæjarfélög taki að sér rekstur fyrirtækja og framleiðslugreina, sem hagkvæmt sé að hafa á einni hendi eða skila óeðlilega miklum gróða í vasa einstaklinga.

Keyptir verði 25–30 togarar til viðbótar við þá, sem þegar hafa verið keyptir, og bæjar- og sveitarfélögum gert kleift að eignast þá.

Ríkið láti byggja fullkomin fiskiðjuver á 4–6 tilteknum stöðum, þ. á m. í Vestmannaeyjum, Ísafirði, Hornafirði og Suðurnesjum. Auk þess verði gerðar ráðstafanir til þess að koma upp sem fullkomnustum fiskiðjuverum víðs vegar um land og bæjar- og sveitarfélögum gert kleift fjárhagslega að ráðast í slík fyrirtæki.

Þá er ýtarleg áætlun um nýjar verksmiðjur og iðnfyrirtæki, einkum til hagnýtingar sjávarafurða, um hafnargerðir fyrir bátaútveginn, um raforku og stóriðju og stórvirkar umbætur í landbúnaði. Enn fremur till. um byggingarstofnun ríkisins og fyrirkomulag á byggingarframkvæmdum til þess að tryggja byggingu íbúðarhúsa í miklu stærri stíl og ódýrari er verið hefur. Þá eru till. um endurbætur á alþýðutryggingunum, um byggingu skóla og sjúkrahúsa, um öryggi við vinnu, um efnahagslegt jafnrétti til menntunar o.fl., um margháttaðar ráðstafanir gegn dýrtíðinni.

Sósfl. hefur nú lagt margar þessar höfuðtillögur sínar fram í frumvarpsformi á Alþ., m.a. um fiskiðjuver, um byggingu íbúðarhúsa, um aðstoð ríkisins við útvegun lánsfjár til byggingar skóla og annarra opinberra bygginga, um öryggi við vinnu, um 12 stunda hvíldartíma á togurum, um endurbætur á alþýðutryggingalögunum, um orlofsdvalarheimili fyrir verkamenn og margt fleira. Gefst þingmönnum nú kostur á að taka afstöðu til þeirra, og er nauðsynlegt, að almenningur fylgist vel með því.

Hinir flokkarnir fengust ekki til að ræða þessar till. alvarlega og till., sem þeir sjálfir lögðu fram í n., var helzt að líkja við köngulóarvef. Sérstaklega athygli vakti það, hve tillögur Alþfl. voru aumar eftir öll stóru orðin undanfarið og þó einkum fyrir kosningar. Fór þá ýmsa að gruna, að eitthvað óhreint mundi undir búa, eins og líka kom á daginn.

Þegar 12 manna nefndin gafst upp, var Ólafi Thors falið að gera tilraun til stjórnarmyndunar. Það gekk í nokkuð löngu þófi, án þess að fullnægjandi árangur næðist. Formanni minnsta flokksins, Stefáni Jóh. Stefánssyni, þeim stjórnmálamanni, sem einna minnst er virtur allra íslenzkra stjórnmálamanna, og það ekki að ástæðulausu, var svo falið að mynda stjórn. Verkefnið átti að vera að hrófa saman stjórn gömlu þjóðstjórnarflokkanna með stuðningi afturhaldsaflanna í landinu. Til málamynda var Sósfl. boðið að taka þátt í þeim viðræðum. Sósfl. losaði Stefán Jóhann við allar áhyggjur út af því með því að hafna því þegar í stað, og skal ég nú skýra frá ástæðunum.

Sósfl. hafði átt nokkrar viðræður við fulltrúa Alþfl. og Framsfl. til þess að ganga úr skugga um það, hvort stjórnarsamstarf þessara flokka væri hugsanlegt á þeim grundvelli, sem ég hef lýst hér að framan og Sósfl. hlaut að gera að skilyrði, hver sem í hlut ætti. Það var erfitt að fá nokkrar málefnalegar umræður. Alþfl. krafðist þess, að fyrst væri ákveðið, hver skyldi vera forsrh. Annað virtist ekki skipta máli frá sjónarmiði Stefáns Jóhanns. Sósfl. kvaðst mundu fallast á þá eðlilegu skipan, að stærsti flokkurinn hefði forsrh., nema samkomulag yrði um annað, en Alþfl. krafðist þess að fá forsrh., þó að hann sé minnsti flokkur þingsins. Sósfl. taldi, að það gæti komið til mála, ef samkomulag gæti orðið milli flokkanna um mann. Benti hann á gamalkunnan forustumann Alþfl., Kjartan Ólafsson í Hafnarfirði. Þessu hafnaði Alþfl. og vildi einn ráða manninum. Átti það vitaskuld að vera Stefán Jóhann. Það var beinlinís móðgun við Sósfl. og verkalýðshreyfinguna í heild sinni að bjóða fram slíkan mann, og lýsti Sósfl. því þá þegar yfir, að hann mundi ekki taka þátt í stjórn undir forystu hans, blátt áfram af því, að sú stjórn væri fyrir fram dæmd til ófarnaðar og mundi aldrei framkvæma þá stefnuskrá, sem hún setti sér. Til þess er reynslan af stjórnmálaferli þessa manns í allt of fersku minni.

Skulu hér rifjuð upp aðeins fá atriði. Árið 1938 hafði fulltrúaráð verkalýðsfélaganna lista í kjöri við bæjarstjórnarkosningarnar í Reykjavík, sem bæði Alþfl. og Kommúnistafl. studdu. Sameiginleg stefnuskrá var samþ. af miklum meiri hl. í fulltrúaráði og var hún vitaskuld bindandi fyrir þá, sem tóku sæti á listanum. Stefán Jóhann var í efsta sæti. En tveim dögum fyrir kosningar gaf hann yfirlýsingu í Alþýðublaðinu og á fjölmennum kjósendafundi í Reykjavík, að hann og félagar hans mundu í engu hlíta samþykktum og stefnuskrá fulltrúaráðsins og hafa að engu í starfi sínu í bæjarstjórn samninga þá, sem flokkarnir höfðu gert með sér.

Árið 1939 átti þessi maður, ásamt félögum sínum í þjóðstjórninni frægu, frumkvæðið að því, að gengislögin illræmdu væru sett, sem rændu verkalýðssamtökin samningsrétti og verkfallsrétti og lækkuðu í einu vetfangi kaup allra launþega í landinu um allt að 20 af hundraði.

Í nóvember 1941, á sama tíma sem verkalýðssamtökin um land allt voru að undirbúa hinar miklu kauphækkanir, sem urðu á árinu 1942, lýsti hann því yfir fyrir hönd stjórnar alþýðusambandsins, að engin „hætta“ væri á kauphækkunum.

Þegar alþýðusambandið var losað úr tengslum við Alþfl. og endurreist sem sjálfstætt stéttarsamband, sölsaði þessi maður undir sig og klíkufélaga sina að heita má allar eignir verkalýðsfélaganna í Reykjavík fyrir sama og ekki neitt. Verðmæti þessara eigna er nú margar milljónir króna. Núverandi forsrh. Íslands hefur þannig framið verknað, sem ekki þarf að taka fram, hvað heitir á mæltu máli, og varðar venjulega þungum refsingum og ærumissi samkv. hegningarlögunum, þegar leikmenn í þessari grein eiga í hlut, enda þótt um smáar upphæðir sé að ræða.

Þrátt fyrir allt þetta fól fráfarandi ríkisstj. þessum manni það trúnaðarstarf að vera formaður í nefnd til að gera viðskiptasamninga við Svía. Lengi má manninn reyna. Og hver varð svo reynslan? Hann stofnaði heildsölufyrirtæki til þess að hagnast á þessum samningum og miðaði veigamikil atriði samningsins við hagsmuni þess félags og viðskiptavinanna í Svíþjóð, en ekki hagsmuni íslenzku þjóðarinnar. Enn fremur lofaði hann Svíum að koma því til leiðar, að þeir fengju víðtæk sérréttindi um síldveiðar hér við land, sem hefði verið beint tilræði við íslenzka fiskimenn og efnahagslegt sjálfstæði Íslands.

Eins og öllum er kunnugt hefur þessi maður sótt það allra manna fastast að Bandaríkjunum yrði afhent íslenzk landsréttindi.

Og er nú fátt eitt talið.

Hvert eitt þessara verka nægir til þess, að enginn heiðarlegur maður getur veitt þessum manni hinn minnsta trúnað.

Þennan mann valdi íslenzka afturhaldið til forystu fyrir sig. Og þessi maður er formaður Alþfl. Ojæja, hver og einn velur sér þann foringja, sem honum hæfir. En það er mikil smán fyrir Ísland, að þessum manni skuli hafa verið lyft til æðstu valda. Að vísu er hann ekki annað en þjónn. En rotinn hlýtur sá málsstaður að vera, sem velur sér slíkan þjón.

Eins og að líkum lætur, liðu ekki margar vikur frá því, að Stefán Jóh. Stefánsson settist í forsætisráðherrastólinn, þar til hann varð landi sínu og þjóð til skaða og skammar. Hann lýsti því yfir við sænska blaðamenn, að flugvallarsamningurinn við Bandaríkin hefði að vísu skert sjálfstæði Íslands, en við hefðum samt glaðir gert hann vegna ótta við kröfur Rússa um hernaðarréttindi hér á landi. Með öðrum orðum, forsrh. Íslands staðfestir margendurtekin ummæli Bandaríkjamanna um, að herstöðvasamningurinn við Ísland sé liður í stríðsundirbúningi Bandaríkjanna gegn Sovétríkjunum og að Ísland taki þátt í slíkum undirbúningi vitandi vits. Og þetta fleipur lætur hann hafa eftir sér samtímis því, að viðskiptanefnd er í Moskvu við samningagerð, er varðar alla afkomu þjóðarinnar.

Stefán Jóhann vill ekki viðurkenna, að rétt sé eftir honum haft í sænsku blöðunum. Samt neitar hann að bera ummælin til baka með opinberri yfirlýsingu, enda má það kalla útilokað, að aðalatriðin í ummælum forsrh. hafi farið milli mála, því að þremur sænskum stórblöðum, sem átt hafa viðtal við hann, ber saman um það, sem máli skiptir. Eitt þessara blaða er blað flokksbræðra hans í Svíþjóð og hefur ráðh. ekki neitað því, að rétt væri eftir honum haft í því blaði, enda eru þessi ummæli í fullu samræmi við margendurtekin ummæli ráðh. hér á þingi, m.a. í umr. um herstöðvasamninginn. Flokksbræður hans hafa þó haft enn freklegri ummæli í þessum dúr, að maður nú ekki tali um flokksblað hans, Alþýðublaðið, sem margsinnis hefur beinlínis eggjað vesturveldin lögeggjan að fara í stríð við Sovétríkin og ekki verið neitt að klípa utan af því, að aðstoð Íslands í því stríði ætti að vera til reiðu.

Íslendingar eru áreiðanlega ekki búnir að bíta úr nálinni með þennan forsrh. sinn.

Afturhaldið náði undirtökunum í öllum andstöðuflokkum Sósfl. Það tókst að tildra stjórn Stefáns Jóhanns saman gegn meira og minna ákveðinni andstöðu margra þm, í öllum stuðningsflokkum stjórnarinnar. Einu blöðin. sem fögnuðu stjórninni af alúð, voru Vísir, blað heildsalanna, Ófeigur, blað Jónasar frá Hriflu, og svo Alþýðublaðið. Stefnuskráin reyndist vera eitthvert ómerkilegasta plagg, sem nokkur stjórn hefur látið frá sér fara. Ekki vantaði glamrið og slagorðin um áframhaldandi nýsköpun og framfarir, en varla nokkurt atriði, sem hægt var að festa hendur á. Þó var ákveðið að setja á stofn svokallað fjárhagsráð, er skyldi hafa með höndum ráðstöfun alls erlends gjaldeyris og hafa vald til að leyfa eða banna allar framkvæmdir í landinu, þar á meðal hvort menn mættu byggja sér hús eða ekki. Vald Landsbankans skal hins vegar vera jafnóskorað og áður, og aðeins 15% af gjaldeyristekjum hvers árs skal varið til nýsköpunar. Þetta ráð á aðeins að starfa meðan núverandi nýsköpunarframkvæmdir standa yfir. Af þessu má sjá, að ráðinu er ekki ætlað að örva nýsköpun og atvinnulegar framkvæmdir á Íslandi, heldur hefta þær. 15% af gjaldeyrinum getur í hæsta lagi nægt til þess að halda áfram þeim framkvæmdum, sem þegar eru hafnar eða búið er að undirbúa af fráfarandi stjórn. Hinar miklu atvinnulegu framkvæmdir, sem fráfarandi stjórn hleypti af stokkunum, er ekki hægt að stöðva með öllu, en svo á líka að spyrna við fæti.

Þetta var staðfest í umr. af hæstv. utanrrh. Bjarna Benediktssyni. Hann lét orð falla um það, að ekki mundi þurfa að bíða lengi, þar til eftirspurn eftir vinnuafli minnkaði, eða með öðrum orðum, þar til atvinnuleysi riði í garð. Flokksblað ráðh. lýsti samtímis yfir því, að næsta verkefnið væri að reyna að komast að almennu samkomulagi um allsherjarlaunalækkun og lækkun á afurðaverði bænda, svo að það er sýnilegt, hvert stefnt er. Í bili verður að fara hægt, afturhaldið hefur ekki afl til að koma fyrirætlunum sínum í framkvæmd nema með alllöngum aðdraganda og undirbúningi. En stefnumiðið er niðurskurður á framkvæmdum, og þegar atvinnuleysið er orðið hæfilegt, hyggja þeir, sem að stjórninni standa, tíma til kominn að ráðast á lífskjör almennings. Það er augljóst mál, að stefnumið ríkisstj. á hverjum tíma hefur mikil áhrif á það, hvernig viðskiptasamningar eru gerðir við önnur lönd, hvort lagt er kapp á það, að Íslendingar fái sem mest verðmæti fyrir vinnu sina, eða hvort menn álita það þjóðarböl, — hvort menn vilja tryggja Íslendingum sem öruggasta framtíðarmarkaði eða hvort menn vilja af pólitískum ástæðum rígbinda viðskipti Íslands við ákveðin stórveldi, hvað sem hagsmunum alþjóðar líður.

Stjórnin hefur nú gengið frá viðskiptasamningum við Bretland í öllum aðalatriðum. Enn þá munu þeir að vísu ekki vera undirskrifaðir, en efni þeirra er þegar alkunnugt. Bretar fá 40% af síldarlýsisframleiðslunni árið 1947, eða allt að 18.900 tonnum, fyrir 95 £ tonnið. Gegn þessu kaupa þeir af okkur 12.000 tonn af freðfiski fyrir nokkru meira en ábyrgðarverð, eða um 1,37 kr. fyrir enskt pund.

En sá böggull fylgir skammrifi, að móti hverju einu og hálfu tonni af lýsi kaupa þeir aðeins eitt tonn af freðfiski. Þetta er með öðrum orðum ekki föst sala. Það er allt undir síldinni komið, hvað Bretar taka við miklu af fiski. Ef illa tekst til, getur svo farið, að við liggjum með miklar fiskbirgðir óseldar að síldarvertíð lokinni. Hér er farið inn á háskalega braut. Verði slíkur háttur tekinn upp í utanríkisviðskiptum okkar, er allur sjávarútvegur Íslendinga orðinn háður hinni stopulu síldveiði. Ef síldin bregzt, er öllum aðalatvinnuvegi Íslendinga og allri afkomu þjóðarinnar stefnt í voða. Fulltrúar sósíalista hafa eindregið mótmælt þessari samningagerð. Það er skemmst frá að segja, að þessi sala er yfirleitt langt undir markaðsverði. Markaðsverð á síldarlýsi er 130–140 pund fyrir tonnið. Síldarverksmiðjurnar geta selt það lýsi. sem þær eiga nú, á 140 pund.

Frá Frakklandi hefur komið tilboð í freðfisk fyrir kr. 1,43 fyrir enskt pund.

Áður en salan var gerð í Englandi, höfðu Rússar boðið 100 pund fyrir tonnið af síldarlýsi og munu nú hafa boðið meira.

Þessi enski samningur og öll framkoma ríkisstj. í því sambandi, sem ekki er hægt að skýra frá ennþá, hlýtur að torvelda mjög aðstöðu okkar í samningum við Sovétríkin. Utanrrh. hefur nú lýst yfir því, að þeir samningar gangi treglega. En það verður upplýst betur seinna, hvern þátt hann á sjálfur í því.

Í haust var það vitað, að Sovétríkin höfðu áhuga á að kaupa meginhlutann af afurðum okkar fyrir mjög sæmilegt verð. En þegar aðferðir ríkisstj. eru athugaðar, er ekki að furða, þótt úr áhuganum hafi dregið. Nágrannaþjóðir okkar allar hafa sent viðkomandi ráðh. sína í broddi fylkingar fyrir viðskiptanefndum til Sovétríkjanna. Svíar og Finnar sendu verzlunarmrh. sína og Norðmenn atvmrh. Íslenzka n. var með allt öðrum svip, og þekktasti maður hennar var Björn Ólafsson, eigandi Vísis, blaðsins, sem gert hefur það að aðaláhugamáli sínu að berjast gegn viðskiptum við Sovétríkin. Samtímis er send n. til Bretlands, skipuð leiðandi mönnum í athafna- og fjármálalífi þjóðarinnar. Einn ráðh. í stjórninni, Emil Jónsson, hafði nokkru áður ráðizt harkalega á Sósfl. í útvarpsræðu fyrir að vilja gera víðtæka viðskiptasamninga við Sovétríkin og lönd í Austur-Evrópu. Þeir Björn Ólafsson og Erlendur Þorsteinsson hlupust báðir brott frá samningagerðinni í Moskvu í miðjum klíðum. Ráðunauturinn um fisksölumál er einnig kominn heim. Aðeins tveir útsendir nm. eru eftir. Af þessari verkstjórn utanrrh., Bjarna Benediktssonar, má marka áhuga hans fyrir samningunum.

Samtímis samningaumleitunum í Moskvu hefur verið lagt allt kapp á að boða það öllum heimi, að Ísland og Sovétríkin séu óvinaríki. Bandaríkjunum hafa verið afhentar herstöðvar og ekki farið dult með, að þeim sé stefnt gegn Sovétríkjunum. Það er ekki langt síðan sá maður, sem nú gegnir embætti utanrrh., hélt niðræðu um Sovétríkin á Alþ., sem var eins konar stæling á verstu stríðsæsingaræðum afturhaldsmanna í Bandaríkjunum. að maður nú ekki tali um hið daglega nið stjórnarblaðanna.

Heill Íslands má vera mikil, ef slík framkoma kemur ekki að sök. Og maður spyr mann: Er þetta gert vitandi vits?

Fyrrv. forsrh. lýsti því yfir í nýársræðu sinni, að glæstar horfur væru fram undan um afurðasölu Íslendinga. Þetta var vissulega rétt, enda tók hann í sama streng í ræðu þeirri, er hann hélt, þegar nýja stjórnin tók við, og sagði þá, að nú væri óvenju bjart yfir í atvinnulífi þjóðarinnar. Nú mega allir sjá, hvernig heildsalastjórnin hefur haldið á málum, enda þótt ekki séu öll kurl komin til grafar enn. En þrátt fyrir þetta seljast afurðir Íslendinga á miklum mun hærra verði, en í fyrra. Til viðbótar við það, sem áður var sagt, er þess að geta, að síldarmjöl hefur verið selt til Hollands fyrir 35 £ tonnið. Og Tékkar hafa tjáð sig reiðubúna til að kaupa síldarmjölið fyrir 42 £ tonnið. Í fyrra var verðið á síldarmjöli 28 £ tonnið. Færeyingar hafa selt saltfisk til Ítalíu fyrir verð, sem samsvarar kr. 2,36 íslenzkum. en ábyrgðarverðið er kr. 2,25. Greiðslan er í dönskum krónum, og gefur þetta nokkra hugmynd um verðlagið, þó að salan sé ef til vill bundin einhverjum vörukaupum á móti. Víst er um það, að saltfiskverðið er töluvert hærra en í fyrra, svo að það ætti að vera hverjum manni ljóst, hvílík fjarstæða það er að tala um utanaðkomandi kreppu og hrun. Horfurnar í viðskiptamálum Íslendinga eru mjög góðar að því tilskildu, að ekki séu menn við stjórnvölinn, sem vilja fá kreppu. Ef hér verður kreppa, þá er hún heimatilbúin.

Önnur afrek nýju stjórnarinnar hafa hingað til verið þessi:

Í sjálfstæðismálum Íslendinga hefur hún komið því til leiðar, að umboðsfélagi ameríska olíuhringsins Standard Oil, sem er eitt helzta valdatæki herstjórnar Bandaríkjanna, hafa verið afhent mannvirkin í Hvalfirði. En eins og kunnugt er, hefur Bandaríkjastjórn lagt á það ofurkapp að klófesta Hvalfjörð sem flotastöð. Þá hefur stjórnin látið til sín taka í baráttunni gegn dýrtíðinni. Hún hefur hækkað stórlega álagningu á tóbaki og áfengi. Hún hefur þrefaldað benzínskattinn og toll á hjólbörðum. Hún hefur sexfaldað toll af fólksflutningsbifreiðum. Hún hefur þrefaldað vörumagnstollinn af flestum innflutningsvörum. Hún hefur hækkað verðtollinn af sömu vörum um 65 af hundraði. Þetta eru freklegustu tollahækkanir, sem Alþ. hefur nokkru sinni samþ. Tekjurnar af þessum tollahækkunum eru áætlaðar samtals röskar 45 millj. kr. Flestar nauðsynjavörur landsmanna hækka í verði að sama skapi. Vefnaðarvörur allar hækka, vörur til útgerðar og landbúnaðar hækka, búsáhöld hækka, matvörur að undanteknum þeim, sem mest orka á vísitöluna, hækka í verði. Að meðaltali hækkar þetta útgjöld hvers mannsbarns á landinu um röskar 350 kr., eða hátt á 18. hundrað kr. á hverja 5 manna fjölskyldu. Ef slík fjölskylda hefur 20 þús. kr. í árstekjur, jafngildir þetta því, að laun hennar séu lækkuð um fast að 9%. Raunveruleg laun slíkrar fjölskyldu eru þannig með l. frá Alþ. lækkuð um tæplega 9 af hundraði. Frá þessu dregst svo niðurgreiðsla á nokkrum vörum til að halda vísitölunni niðri. En þetta er ekki nema óverulegt brot af verðhækkuninni, og það fé verður aftur sótt í vasa almennings, og svo koll af kolli. Hér með er hanzkanum kastað gegn verkalýðsstéttinni og öllu vinnandi fólki í landinu. Verkalýðssamtökin hljóta að gera sínar gagnráðstafanir til þess að vernda afkomu sína.

Þetta eiga að heita dýrtíðarráðstafanir. Það eru einhverjar þær furðulegustu dýrtíðarráðstafanir, sem um getur. Það eru ráðstafanir til að auka dýrtíðina í landinu. Vöruverð á flestum neyzluvörum landsmanna stórhækkar, kaupmáttur krónunnar minnkar. Meira að segja vísitalan hækkar svo, að aftur verður að leggja á nýja skatta og tolla til að greiða niður þá hækkun og þannig koll af kolli. Ekki verður þetta til að hjálpa útgerðinni eða landbúnaðinum. Allar vörur, sem útgerðarmenn og bændur þurfa að kaupa, hækka í verði og vörur til útgerðar og landbúnaðar langt fram yfir það, sem eðlilegt er. Eftir að Alþ. hefur samþ. lagafyrirmæli um fjárhagslega aðstoð við byggingar íbúðarhúsa, um fjárframlög til útgerðar og landbúnaðar, er féð tekið aftur með nýjum skattaálögum á þessa atvinnuvegi. Það er líkast og á geðveikrahæll. Enda kemst aðalblað stjórnarinnar, Morgunblaðið, svo að orði. að þetta nálgist hreint brjálæði. Þetta er skrifað á sama tíma sem allur þingflokkur Sjálfstfl. með fjmrh. í broddi fylkingar knýr málið með dæmafáu offorsi gegnum þingið. Raunar kinokuðu nokkrir áberandi menn flokksins sér við að vera viðstaddir við atkvgr., svo að það má segja, að hræsnin riði ekki við einteyming.

Þáttur ráðamanna Alþfl. í þessu máli er þó furðulegastur. Samkv. stefnuskránni er flokkurinn á móti öllum tollum á nauðsynjavörum. Flokksþing eftir flokksþing hefur samþ. einróma að berjast gegn öllum tollum á neyzluvörum. Á síðasta flokksþingi. sem haldið var á sama tíma og samningarnir um nýju stjórnarmyndunina fór fram, samþykkti flokkurinn enn einu sinni að leggja áherzlu á að afla tekna með mjög stighækkandi sköttum. Hvað eftir annað lýsti hann yfir því fyrir síðustu kosningar, að hann mundi beita öllu atfylgi sínu til þess að lækka tolla á nauðsynjavörum. Nú lýsir formælandi Alþfl. á Alþ. því yfir, að sú leið, sem ríkisstj. hefur farið, að hækka tolla á almennum neyzluvörum meira en dæmi eru til í þingsögunni, sé langákjósanlegasta leiðin til tekjuöflunar. Hins vegar taldi hann þær leiðir, sem Alþfl. hefur á undanförnum áratugum haft á stefnuskrá sinni, svo sem ríkiseinkasölur og opinberan rekstur gróðavænlegra fyrirtækja, að ekki sé talað um frekari stighækkandi skatta, með öllu fráleitar. Gegn tillögum Sósfl. um þjóðnýtingu verzlunargróðans beita fulltrúar Alþfl. nákvæmlega sömu rökum og íhaldsmenn. Ef Alþfl. segði blátt áfram, að hann væri nú kominn á sömu skoðun og íhaldsmenn í þessum málum, sem svo mörgum öðrum, gæti maður skilið, að hann fengi atkv. ýmissa kjósenda með þjóðinni, sem hafa sömu afstöðu til málanna. Hitt er ekki trúlegt, að heiðarlegir og hugsandi menn haldi áfram að veita slíkum trúðum og fölsurum trúnað sinn.

Það er viðurkennt af ríkisstj., stuðningsmönnum hennar og málgögnum, að þetta sé engin lausn á fjárhagsmálunum og vandamálum dýrtíðarinnar. Á Alþ. og í blöðum endurtaka þeir dag eftir dag, að ekki sé neins góðs að vænta, meðan kaup hækkar samkv. vísitölu. Fjmrh. lýsti því yfir við umr. um tollafrv., að afnám gerðardómslaganna 1942 hefði verið eitthvert hið mesta óheillaspor, sem stigið hefur verið. Það er hægt að skilja fyrr en skellur í tönnunum. Eini árangurinn, sem fæst með niðurgreiðslunum og tollahækkununum, er að lækka vinnutekjur almennings allríflega. En þetta þykir ekki nóg. Næst er að hefja beina árás á launin.

Blað forsrh., Alþýðublaðið, hefur þegar hótað að svipta verkalýðsfélögin réttindum, ef þau rísa til varnar hagsmunum sínum. Ef svona heldur áfram, er ekki annað líklegra en að næsti áfanginn verði gengislækkun og samfara henni löggjöf um, að kaupið skuli ekki hækka með hækkandi vísitölu. Með öðrum orðum ný gerðardómslög. Þá er hægt að hætta niðurgreiðslunum eða draga úr þeim, og vísitalan getur hækkað allt upp í 400 stig, án þess að launþegarnir fái það bætt. En þetta þarf undirbúnings. Fyrst þarf að verða hæfilegt atvinnuleysi. Og ríkisstj. getur þegar hælt sér af nokkrum árangri í því efni.

Hvað ætlast svo stjórnin fyrir? Tvenns konar hættur eru fram undan, ef þjóðin tekur ekki í taumana. Annað er, að stjórnin taki dollaralán, sem gerir okkur fjárhagslega háða Bandaríkjunum, og hitt er gengislækkun samtímis lögþvingaðri kauplækkun. Hún hefur nú að heita má stöðvað allar lánveitingar til nýrra framkvæmda og byggingar íbúðarhúsa. Í skjóli hennar hafa bankarnir skrúfað fyrir á öllum sviðum, þar sem um atvinnulegar framkvæmdir er að ræða, með þeim afleiðingum, að nú þegar hefur orðið allmikil stöðvun í atvinnulífi þjóðarinnar. Þetta er góð byrjun. Stjórnin segist muni starfa eftir fyrir fram gerðri áætlun. Ég rengi það ekki. Og það er alveg augljóst, hvert er markmið þeirrar áætlunar. Það skal unnið markvisst að því að hverfa aftur að stefnu þjóðstjórnarinnar gömlu, sællar minningar, sem illræmd er orðin með þjóðinni og hinir sömu flokkar stóðu að. Þegar þess er gætt, hvaða þjóðfélagsöfl standa að stjórninni, er ekki annars að vænta. Þetta mun rás viðburðanna sanna þeim stjórnmálamönnum, sem nú styðja þessa ríkisstj. meira eða minna með hangandi hendi, ef þeir spyrna ekki við fótum, meðan tími er til.

Það eru sjálfsagt margir, sem trúa því í fullri einlægni, að boðskapur hrunstefnumanna sé hin eina sanna hagspeki. — En hinn fámenni hópur stóreignamanna, sem nú hefur alla þræði í hendi sér, veit betur. Þessi litli, en valdamikli hópur hyggur gott til þess að græða á kreppunni, sem koma skal, ekki aðeins á kostnað verkamanna með lækkuðum launum, heldur einnig á kostnað millistéttanna, allra þeirra, sem hafa smærri atvinnurekstur með höndum. Þessir menn ætla sér að njóta uppskerunnar, þegar hinir smærri, sem margir hverjir hafa lagt hart að sér til að eignast atvinnutæki á dögum nýsköpunarinnar, komast í þrot. Þá er tækifærið fyrir þá, sem ráða yfir fjármagni, að eignast hin nýju framleiðslutæki fyrir lítið verð.

Annars vegar eru því hagsmunir örfárra stóreignamanna, hins vegar hagsmunir meginþorra þjóðarinnar. Hinir fyrrtöldu munu græða á kreppunni, sem stjórnin er að undirbúa, allir aðrir tapa á henni. Fyrstu átökin munu verða milli heildsalastjórnarinnar og verkalýðssamtakanna. Ef þjóðin skilur, um hvað barizt er, mun hún fylkja sér um verkalýðssamtökin í þeirri baráttu. Í þeirri viðureign er málstaður ríkisstj. algerlega vonlaus, þó að hún beiti fyrir sig löggjafarvaldinu og grípi jafnvel til fasistískra aðferða, nema hún kalli beinlínis á erlenda íhlutun. — Það mun ekki takast að brjóta verkalýðssamtökin á bak aftur, þau eru viss með sigurinn, svo lengi sem Íslendingar einir eigast við.

Oft eru Alþfl. og Framsfl. taldir vinstri flokkar í mótsetningu við Sjálfstfl., meginflokk íslenzka auðvaldsins. Mikill meiri hl. kjósenda þeirra hefur greitt þeim atkv. í þeirri trú. Reynslan hefur nú enn einu sinni sannað svo skýrt sem verða má, að þetta er rangt. Þannig skiptist þjóðin ekki í hægri og vinstri. Þeir, sem nú stjórna Alþfl. hafa reynzt hinir auðsveipustu þjónar afturhaldsaflanna. Og í Framsfl. hefur hið steinrunna afturhald og Bandaríkjaþjónusta einnig orðið ofan á þrátt fyrir flokksþingið í haust, sem vildi taka upp allt aðra stefnu.

Afturhaldið hefur hreiðrað vel um sig í öllum flokkum borgarastéttarinnar. En það eru einnig frjálslyndir og framfarasinnaðir menn í öllum þessum flokkum. Mikill meiri hl. fylgismanna allra þeirra flokka, sem standa að núverandi ríkisstj., vildi halda áfram á braut nýsköpunarinnar og framfaranna. Þess vegna þarf núverandi stjórn svo mjög á hræsni og yfirdrepskap að halda. Nú ríður á, að allir fylgismenn framfaranna, hvar í flokki sem þeir standa, brjóti af sér flokksviðjarnar og taki höndum saman. Verkamenn og aðrir launþegar, útvegsmenn og bændur, allir þeir með þessari þjóð, sem hafa uppeldi sitt af heiðarlegri vinnu, eiga að vinna saman og vilja vinna saman. Samtök þessara stétta þurfa nú þegar að finna leiðir til samstarfs. Þetta fólk er mikill meiri hl. þjóðarinnar og það er sundrungin ein, sem við haldið er af flokkslegum hleypidómum og pólitískum spekúlöntum, sem veldur því, að þessi meiri hl. er ekki allsráðandi í þjóðfélaginu. Sameinaðar geta framleiðslustéttirnar ráðið öllu um stjórn landsins. Þess vegna ber nú brýna nauðsyn til, að þær taki nú þegar upp náið samstarf, láti hin smærri ágreiningsefni þoka fyrir hinum stóru sameiginlegu hagsmunamálum og myndi í því skyni með sér skipulögð allsherjarsamtök án tillits til flokka. Sósfl. lýsir því yfir, að hann mun ekkert til spara, að þetta megi takast, og er reiðubúinn að láta öll flokkssjónarmið í þrengri merkingu þoka fyrir nauðsyn einingar allra þeirra, sem vinna og framleiða. Takmarkið er að tryggja áframhald nýsköpunarinnar og framfarastefnunnar og sjálfstæði Íslands. Það er mikil nauðsyn, að hið allra fyrsta takist að mynda stjórn í landinu. sem er þeirri stefnu trú. Og það er vissulega mikil ógæfa, ef ekki reynist unnt að snúa við fyrr, en eftir næstu kosningar. En fari svo, má það ekki koma fyrir, að þjóðin láti tækifærið enn einu sinni ganga sér úr greipum. Fyrir þann tíma verða framleiðslustéttirnar að hafa fundið leiðir til þess að mynda með sér samtök, sem tryggja þeim meiri hl. á Alþ. Og það kann að fara svo, að ekki verði mjög langt að bíða næstu kosninga.