29.04.1947
Sameinað þing: 49. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í B-deild Alþingistíðinda. (632)

12. mál, fjárlög 1947

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Mér fannst í gærkvöld tvö höfuðeinkenni á ræðu Brynjólfs Bjarnasonar. Annars vegar hóflaust, barnalegt sjálfshól um Kommúnistafl. og hins vegar æðisgengið hatur á Alþfl. og sérstaklega eins og vænta mátti, á formanni hans, hæstv. forsrh., Stefáni Jóh. Stefánssyni. Brynjólfur Bjarnason sagði, að hér hefðu orðið þáttaskipti á öllum sviðum, er kommúnistar komust í ríkisstj. 1944. Hann nefndi launalög embættismanna ríkisins, hann nefndi orlofslög, hann nefndi meira að segja alþýðutryggingalöggjöfina o.m.fl., og sjá, allt þetta átti að vera kommúnistum að þakka.

Sannleikurinn er sá, að réttara væri að segja, að þetta hafi allt verið gert þrátt fyrir afskiptaleysi kommúnista af þessum málum. Þeir áttu ekki frumkvæði að einu einasta þeirra, og þeir settu ekki afgreiðslu þeirra að skilyrði fyrir þátttöku í stjórninni. Nei, svo ólmir voru þeir 1944 að komast í stjórnina, að þeir gleymdu þá öllum þessum málum. Það má raunar kannske segja, að þetta hafi nú ekki verið meira en við mátti búast, en haustið 1946 færðu þeir sig það upp á skaftið, að þeir beinlínis neituðu að taka þátt í umræðum, sem þáverandi forsrh., Ólafur Thors, boðaði til um lausn aðkallandi vandamála atvinnuveganna.

Þá urðu ímyndaðir hagsmunir erlendra stórvelda að sitja fyrir nauðsynlegum afgreiðslum okkar eigin mála. Brynjólfur Bjarnason sagði, að ágreiningurinn í ríkisstj. hefði ávallt verið milli ráðh. kommúnista annars vegar og ráðh. Alþfl. og Sjálfstfl. hins vegar, sem hefðu haldið saman. Þetta er rétt, að mestu leyti. Þess vegna eru líka aðgerðir þessarar stjórnar, fyrrv. stjórnar, sem þessi þm. lýsti nú sem hinnar beztu, ekki fyrst og fremst mótaðar af kommúnistum, sem hann segir, að hafi verið þar í minni hluta, heldur af Alþfl. og Sjálfstfl. Þetta hlýtur að liggja í augum uppi.

Hatur þessa þm. á Alþfl. og forustumönnum hans er ekki nýtilkomið og skal því ekki mikið rætt. Aðeins skal ég leyfa mér að benda á það, að ég hef nú í samfellt tvo áratugi haft náið samstarf við hæstv. forsrh., Stefán Jóh. Stefánsson, fyrst sem ritara Alþfl. og síðar sem formann hans, og ég get lýst því yfir, að ég hef fáa eða enga menn fyrir hitt, er mér hefur þótt betra að vinna með en honum. Hann hefur aldrei látið undan hinum ofstækisfullu rógsherferðum kommúnistanna.

Hann hefur séð hættuna, sem íslenzkum verkalýð og íslenzkri alþýðu stafaði af starfsemi kommúnista, og varað við henni. Þess vegna hefur hann verið ofsóttur. En það ánægjulega hefur skeð, að eftir því sem árásir þessara manna hafa harðnað, eftir því hafa fleiri þjappað sér saman um hann, bæði í Alþfl. og utan hans, eins og raun ber nú vitni. Þó að honum hafi verið brigzlað um svik, þjófnað og landráð, eins og Brynjólfur Bjarnason gerði í gærkvöld, hefur það engin áhrif haft, því að fólkið hefur fundið, að þetta eru allt ósannindi — heimatilbúin ósannindi í þar til gerðri verksmiðju kommúnista, en sú framleiðslustarfsemi er þeirra sérgrein, þeirra nýsköpun í íslenzkri pólitík.

Eitt höfuðádeiluefni stjórnarandstöðunnar — kommúnista — á núverandi ríkisstj. og þann þingmeirihluta, sem henni fylgir, hefur upp á síðkastið verið það, að með skattalögum þeim, sem samþ. voru á Alþ. að tilhlutun þessarar stjórnar, hafi þjóðinni allri, og alveg sérstaklega öllum verkalýð og launþegum, verið bundnir svo þungir baggar, að ómögulegt sé undir þeim að rísa nema með hækkuðu grunnkaupi. Í þessu sambandi hefur verið hafin áróðursherferð til að koma af stað gagnráðstöfunum af hálfu verkalýðsfélaganna, en þessar „nauðsynlegu gagnráðstafanir“ virðast eiga að vera: uppsögn kaupsamninga, þar sem því verður við komið, og hækkun grunnkaups.

Þó að þetta hafi nokkuð verið rakið hér við umr. áður, þykir mér rétt að gera nokkuð ýtarlegri grein fyrir ýmsum hliðum þessa máls nú, þar sem það virðist vera ljóst, að um þetta eigi að standa bardagi og sá bardagi getur orðið örlagaríkur.

Í fyrsta lagi kemur þá til athugunar: Hvers vegna voru þessar skattahækkanir nauðsynlegar? Ástæðurnar eru aðallega þrjár:

1. Minni innflutningur til landsins og þar af leiðandi minni tolltekjur 1947, en 1946.

2. Auknar verklegar framkvæmdir og meiri framlög til þeirra en fyrr.

3. Mjög aukin útgjöld ríkissjóðs til niðurgreiðslu á vöruverði til að halda niðri vísitölunni. Um þessi atriði, hvert fyrir sig, er það að segja, að ég held, að öllum sé ljóst, að ekki verður unnt að halda uppi sama innflutningi til landsins og áður vegna óhagstæðs verzlunarjafnaðar og gjaldeyrisskorts. Af þessu leiðir aftur óumflýjanlega það. að tolltekjurnar minnka og eitthvað annað verður að koma í staðinn. Þetta er augljóst. — Mjög verulegum hluta af útgjöldum ríkisins er nú orðið varið til verklegra framkvæmda, og fer þessi upphæð sífellt vaxandi. Kommúnistar hafa raunar reynt að halda því fram, að dregið hafi nú verið úr þessum fjárframlögum við atkvgr. um brtt. á laugardaginn var, en slíkt er hin herfilegasta rangfærsla, því að enda þótt þar hafi verið gerð nokkur tilfærsla, sumir liðirnir lækkaðir til að mæta að nokkru hækkunum á öðrum liðum, er þó heildarútkoman mikil hækkun, bæði frá frv., eins og það var við 2. umr. og samanborið við fjárl. 1946. Á þetta hefur verið svo rækilega bent, að ég þarf þar engu við að bæta. En til þess að standast þessa hækkun þarf vitanlega fé.

Kem ég þá að þriðja atriðinu, sem sé niðurgreiðslunum.

Á fjárlögum er nú ætlað til þeirra hluta 35 millj. kr., og hefur aldrei fyrr verið varið jafnhárri upphæð úr ríkissjóði í því skyni. Til þess að skýra, hvers vegna þetta er nauðsynlegt, verður að rifja svolítið upp allar aðstæður.

Í desember s.l. var svo komið málum útvegsins, að bátaflotinn komst ekki til veiða, nema ríkissjóður tryggði fast verð á aflanum. og með hliðsjón af kauplagi í landi var talið, að þetta fasta verð mætti ekki vera lægra, en 65 aurar fyrir kg af slægðum þorski með haus, sem svarar til 841/2 eyris fyrir slægðan fisk hauslausan og tilsvarandi fyrir annað. Til samanburðar og til þess að gera sér grein fyrir, hvernig þetta er hjá aðalkeppinautum okkar, Norðmönnum, er fróðlegt að athuga skýrslu, sem birtist í febrúarheft! tímaritsins „Ægis“ um fiskverðið í Noregi, en hún er þannig, með leyfi forseta:

„En á því svæði, þar sem megnið af aflanum kemur á land, þ.e. í Lófót og Vesturálum, er verð á þorski og ýsu sem hér segir, miðað við ísl. peninga: Í herzlu og salt 37 aurar pr. kg, í ís og til innanlandsneyzlu 58 aurar og til hraðfrystingar 61,5 aurar. Hér er miðað við slægðan og hausaðan fisk.

Hitt er aftur á móti staðreynd, að á sama tíma og hér er greitt 841/2 eyrir fyrir kíló af slægðum og hausuðum fiski greiða Norðmenn 37 aura ísl. fyrir fisk í sams konar ástandi. og þetta verð nær eins og stendur til mikils hluta aflans.“

Þessi skýrsla talar sínu máli. Í fyrsta lagi sýnir hún okkur, að hér er greitt fyrir fiskinn, og ríkissjóður hefur tryggt það verð, meira en helmingi hærra en Norðmenn greiða fyrir sömu vöru, þ.e.a.s. fisk, sem fer í salt, og er það út af fyrir sig ærið íhugunarefni. En skýrslan sýnir líka, að Norðmenn telja sig geta greitt 611/2 eyri fyrir hvert kg, sem fer til hraðfrystingar, en aðeins 37 aura fyrir hvert kg, sem fer í salt.

Það er nú orðið á allra vitorði, að kaupgjald og verðlag er hér mjög hátt, samanborið við það, sem gerist hjá nábúum okkar og keppinautum.

Það var yfirlýst stefna fyrrv. stjórnar og það er sömuleiðis og ekki síður yfirlýstur vilji þessarar stjórnar að grípa ekki til lækkana, fyrr en öll önnur sund eru lokuð.

Í þeirri baráttu var eitt aðalvopnið nýsköpun atvinnuveganna, aukin vélavinna og afköst annars vegar og betri og fullkomnari hagnýting afurðanna hins vegar. Norska fiskverðið, sem þeir telja sig geta greitt fiskimönnunum, 37 aurar fyrir sömu vöruna í salt og greitt er fyrir 611/2 eyrir til hraðfrystihúsanna, talar þar sínu máli. Í Noregi. segir skýrslan, fer megnið af veiðinni í salt, aðeins lítið fryst. Hjá okkur er þetta orðið öfugt. Hér er meira fryst en saltað. Þetta er fyrsta atriðið, sem léttir okkur róðurinn. Aukin afköst nýrra veiðiskipa og fullkomnari hagnýting í nýjum hraðfrystihúsum. — En þetta er ekki nóg. Það virðist orðið þurfa meira til.

En þá vill svo til, að eftirspurn eftir síldarafurðum og síld er svo mikil, að verðið á þessum vörum á heimsmarkaðinum virðist nú geta gert betur, en að borga okkur hinn háa framleiðslukostnað. Virðist þá liggja opið fyrir að færa þar á milli, enda er það heimilað í ábyrgðarlögunum, sem ég minntist á og samþ. voru fyrir áramótin. Þetta er áreiðanlega sú eðlilegasta og um leið sú sanngjarnasta leið, sem hægt er að finna til að jafna metin enn um stund, hvaða háttur sem á þessu kann að verða hafður.

En heldur ekki þetta er nóg.

Um leið og Alþ. tók að sér að tryggja sjómönnum og útgerðarmönnum þetta háa fiskverð, varð einnig að tryggja hraðfrystihúseigendum ákveðið verð, 1,33 kr. á enskt pund, fyrir frysta fiskinn og saltendunum ákveðið verð 2,25 kr. fyrir kg af söltuðum fiski, en hvort tveggja þessar tölur voru miðaðar við óbreytta vísitölu eða lítt breytta frá því, sem hún var, er lögin voru sett, eða um 310 stig.

Um mánaðamótin janúar og febrúar hækkaði vísitalan um 6 stig, upp í 316, eins og kunnugt er, en þessi 6 stig voru við næstu mánaðamót greidd niður með því að lækka verð á kjöti og kartöflum sem þessu svaraði. Við næstu mánaðamót þar á eftir var upplýst, að vísitalan mundi enn hafa hækkað um 4 stig, ef ekkert hefði verið að gert, en þessari hækkun var enn mætt með niðurgreiðslu á kjöti, sem kom til framkvæmda um sama leyti.

Nú kostar 3/4 til 1 millj. kr. fyrir ríkissjóðinn að greiða niður hvert vísitölustig, dálítið misjafnt eftir því, hvaða vörur eru teknar, svo að það er augsýnilegt, að til þessarar nýju niðurgreiðslu þarf mikið fé úr ríkissjóði, en til þess eru nú ætlaðar 35 millj. kr., eins og ég sagði áður, og miklu hærri upphæð en nokkru sinni fyrr.

Mjög mikill hluti af þeim auknu tekjum, sem ríkissjóður hefur verið að afla sér með hinum nýju frv., fer því beinlínis til að halda dýrtíðinni í skefjum, svo að framleiðslustarfsemin geti gengið óbreytt og með fullum krafti.

Þrátt fyrir hið háa verð, sem greitt er fyrir aflann, og miklu hærri tilkostnað í landi heldur en hjá keppinautum okkar, — er von um, að framleiðslan geti gengið um hríð án þess að lækka laun fólks, sem að þessu vinnur. Þegar því þessari baráttu ríkisstj. við dýrtíðina og baráttu fyrir því að þurfa ekki að ráðast á launakjörin til lækkunar er svarað af kommúnistum með kröfum um gagnráðstafanir til hækkunar á grunnkaupi, þá er það ekki verkalýðsmálabarátta, ekki einu sinni pólitísk barátta, eins og hún hefur tíðkazt hér hjá okkur, heldur beinlínis glæpur. Ég kalla það glæpsamlegt að ætla sér að knýja fram nú hækkanir, þar sem vitað er, að allar þær ráðstafanir, sem ég hef nefnt, og stórkostleg útgjöld úr ríkissjóði gera varla að nægja til þess að halda starfseminni uppi.

Síldarvertíðin fer í hönd, og þjóðinni ríður nú kannske meira á því en nokkru sinni fyrr, að þar verði hvert tækifæri notað til aðdrátta í þjóðarbúið. Ef þessi leikur, sem stjórnarandstaðan kommúnistarnir — er nú að reyna að koma af stað, verður til að torvelda þá starfsemi, taka þessir menn á sig þunga ábyrgð.

Mér hefur þótt rétt að rekja þetta mál allýtarlega, bæði vegna þess, að mér hefur í bili verið falið það vandaverk að fylgjast með hreyfingum vísitölunnar og gera ráðstafanir til niðurgreiðslu, þegar með þarf og hægt er, og reyna að velja til þess vörur, sem almenningur notar, svo að niðurgreiðslurnar komi að fullum notum, en engu síður, og kannske miklu fremur vegna þess, að ég tel hér verið að vinna óþrifaverk, sem þjóðin verður að gæta sín fyrir.

Það hefur verið tekið fram áður, en mér finnst rétt að taka það fram líka í þessu sambandi, að allar tollahækkanir, sem valda verðhækkun á nauðsynjavörum, sem ganga inn í vísitöluna, koma þar fram til hækkunar, nema niðurgreiðsla á öðrum vörum jafni það upp, og í báðum tilfellum fá allir launþegar, sem taka laun með vísitölu, bætur fyrir hækkanir þessar, enda hefur aldrei áður mér vitanlega verið talað um grunnkaupshækkanir, þó að vara hafi hækkað í verði af öðrum ástæðum, sem er nákvæmlega það sama og nú gerist, heldur hefur vísitölunni verið ætlað að bæta það.

Ég er raunar viðbúinn því að verða fyrir þessa skoðun mína „stimplaður“ af kommúnistum sem svikari við verkalýðinn eða eitthvað því líkt, en ég tek mér það ekki nærri, þegar það kemur úr þeirri átt og þegar ég hef fullkomna sannfæringu fyrir því að vera að gera rétt — að vara þjóðina alla við þessari hættu, og ég veit, að þjóðin lætur ekki teyma sig út í þetta ævintýri. Hún veit, hverju hún sleppir, en ekki, hvað hún hreppir. Hún vill fyrst og fremst halda því, sem hún hefur.